Frestun á fundum Alþingis

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 16:31:56 (9231)

2004-05-27 16:31:56# 130. lþ. 129.1 fundur 1005. mál: #A frestun á fundum Alþingis# þál. 27/130, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 130. lþ.

[16:31]

Steingrímur J. Sigfússon:

Frú forseti. Mér þykir nú nokkuð miður að geta ekki stutt þessa þingfrestunartillögu sem auðvitað er venjan að menn geri hér ef þingið er að ljúka störfum með eðlilegum hætti og allt er samkvæmt venjum. Því miður hefur hæstv. forsrh. algerlega komið sér undan því að gefa svör við réttmætum, rökstuddum og eðlilegum spurningum sem hér hafa verið upp bornar af okkur, forustumönnum stjórnarandstöðunnar. Það er mjög sérkennilegt, satt best að segja, að hæstv. forsrh. skuli bregðast þannig við.

Ég sé ekki efni til að greiða atkvæði gegn tillögunni í ljósi þess að út af fyrir sig eru aðstæður slíkar að þinghaldinu getur lokið hér með eðlilegum hætti innan fárra sólarhringa. Ég geri það líka í trausti þess að hæstv. forsrh. mótmælti ekki þeirri túlkun minni að ég mætti taka þögn hans sem samþykki við þeirri spurningu að drægi til óvæntra tíðinda í stjórnmálum landsins á næstu dögum eftir að þing yrði farið heim yrði það eitt hans fyrsta verk að kalla þingið saman.