Frestun á fundum Alþingis

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 16:33:18 (9232)

2004-05-27 16:33:18# 130. lþ. 129.1 fundur 1005. mál: #A frestun á fundum Alþingis# þál. 27/130, ÖS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 130. lþ.

[16:33]

Össur Skarphéðinsson:

Frú forseti. Það dregur nú að lokum þessa þings og þingfrestun er í augsýn, búið að semja um flest mál. Við höfum við þessar sérkennilegu aðstæður varpað fram tveimur mikilvægum spurningum til hæstv. forsrh.

Fyrri spurningin var hvenær hann hygðist ljúka í reynd verki Alþingis sem samþykkti hér umdeild lög um fjölmiðla og senda þau til forseta til staðfestingar eða synjunar. Hæstv. forsrh. hefur þrátt fyrir þráspurningar ekki veitt nein svör.

Í öðru lagi var spurt hvort hæstv. forsrh. mundi ekki í anda þeirra lýðræðislegu reglna sem við búum við hér á landi þegar í stað sjá til þess að kvatt yrði saman þing ef hlutir fara með þeim hætti sem við höfum hér verið að reifa sem möguleika. Hæstv. forsrh. treysti sér ekki til þess að svara því játandi.

Við þær aðstæður getur Samf. ekki stutt þessa þáltill. og mun eftir atvikum sitja hjá.