Meðferð opinberra mála

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 16:36:15 (9234)

2004-05-27 16:36:15# 130. lþ. 129.16 fundur 871. mál: #A meðferð opinberra mála# (rannsóknargögn, símhlerun o.fl.) frv. 86/2004, Frsm. meiri hluta BjarnB
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 130. lþ.

[16:36]

Frsm. meiri hluta allshn. (Bjarni Benediktsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. frá meiri hluta allshn. um frv. til laga um breyting á lögum um meðferð opinberra mála.

Nefndin hefur fengið fjölmarga aðila á sinn fund til að ræða efni frumvarpsins og gerir á sérstöku þingskjali tillögur til breytinga á frumvarpinu, m.a. í tilefni af þeim umsögnum og þeim ábendingum sem nefndinni bárust við meðferð málsins.

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á nokkrum ákvæðum laga um meðferð opinberra mála. Þær helstu varða aðgang verjanda að gögnum og heimild lögreglu til að synja hans og heimild handhafa ákæruvalds til að taka ákvörðun um símhlerun. Jafnframt er í frumvarpinu lagt til að tekin verði upp í lögin ákvæði um vitnavernd lögreglumanna og heimild rannsóknara til handa til að taka framburð sakborninga og vitna upp á hljóðband, myndband eða mynddisk.

Meiri hlutinn leggur til og telur eðlilegt að lögfest verði ákvæði um vitnavernd lögreglumanna en nokkur brögð hafa verið að því að lögreglumenn og fjölskyldur þeirra hafi sætt hótunum af hálfu sakborninga í opinberum málum. Sama gildir um almenna heimild til þess að taka upp framburð á hljóðband, myndband eða mynddisk og telur meiri hluti nefndarinnar að þessi breyting treysti réttaröryggi þess sem sætir yfirheyrslu hjá lögreglu.

Í 1. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að lögregla geti neitað að veita verjanda aðgang að einstökum skjölum eða öðrum gögnum ef hún telur að það geti torveldað eða skaðað rannsókn máls að gögn eða upplýsingar komist til vitundar sakbornings. Slíka synjun megi bera undir dómara. Í núgildandi lögum er að finna sambærilega heimild sem þó er tímabundin þannig að slík synjun getur einungis varað í eina viku. Þann frest getur dómari síðan framlengt í allt að þrjár vikur samkvæmt núgildandi lögum. Í 4. gr. frumvarpsins er hins vegar gert ráð fyrir að sú framlengingarheimild dómara verði felld brott með hliðsjón af þeirri breytingu sem lagt er til að gerð verði í 1. gr. þess.

Þetta atriði frumvarpsins fékk töluvert mikla umræðu í nefndinni og til hennar komu fjölmargir sérfróðir aðilar. Þetta er meðal þeirra atriða sem fengu hvað mesta athygli í nefndinni. Eins og fram kemur í frumvarpinu hefur sú leið sem það gerir ráð fyrir verið farin annars staðar. Eins og segir í nefndaráliti meiri hlutans telur hann mjög gild rök fyrir þeirri leið sem valin var í frumvarpinu. Hins vegar varð niðurstaðan sú að leggja til að fylgt yrði tillögum úr umsögn réttarfarsnefndar að höfðu góðu samráði við dómsmálaráðuneytið þannig að litið er svo á að markmiðum 1. og 4. gr. frumvarpsins megi ná með vægara móti. Því er lagt til að 1. gr. frumvarpsins verði breytt á þann veg að lögregla hafi einungis heimild til að neita verjanda um aðgang að einstökum skjölum eða öðrum gögnum í allt að þrjár vikur. Þá verði lögreglu einnig heimilt að neita verjanda um endurrit af einstökum skjölum meðan á rannsókn máls stendur en slíka synjun megi bera undir dómara. Meiri hluti nefndarinnar telur jafnframt rétt að bæta við ákvæði þess efnis að þegar verjandi hafi fengið afhent endurrit af skjölum máls sé honum heimilt að láta sakborningi í té eintak af endurriti eða kynna honum það með öðrum hætti. Þessi síðastnefnda regla hefur áður verið í lögum um meðferð opinberra mála og er gerð tillaga hér um að hún verði aftur tekin upp. Loks leggur meiri hlutinn til að 4. gr. frumvarpsins verði breytt á þann veg að dómara verði veitt heimild til að framlengja þriggja vikna frestinn sem áður er getið um í allt að fimm vikur og það verði þá einkum í tengslum við yfirheyrslur eins og viðkomandi grein gerir ráð fyrir.

Í 6. gr. frumvarpsins er lagt til að handhafa ákæruvalds verði veitt heimild til að ákveða að hlerunaraðgerðir hefjist án dómsúrskurðar að því tilskildu að brýn hætta sé á að bið eftir úrskurði valdi sakarspjöllum. Um þetta er hið sama að segja og um fyrra atriðið, þ.e. að hér er fylgt fordæmi sem menn þekkja annars staðar frá. Þetta atriði fékk jafnframt töluvert mikla umfjöllun í nefndinni. Með sama hætti og gildir um aðgang að gögnum varð það niðurstaða meiri hluta nefndarinnar að fara að tillögum réttarfarsnefndar þannig að haldið verði í þá meginreglu að ávallt þurfi dómsúrskurður að koma til en sú breyting er jafnframt gerð á þessu atriði að úrskurðurinn mun varða þá tiltekinn einstakling og þá síma sem hann er skráður fyrir eða hefur aðgang að. Ég tel að í sjálfu sér megi velta því fyrir sér hvort þessi leið veitir lögreglunni frjálsari hendur en sú sem frumvarpið gerði ráð fyrir. Ég held að reyndar séu gild rök til þess en hér er sem sagt lagt til að haldið verði í þá meginreglu að dómsúrskurður þurfi að vera undanfari hlerunar í öllum tilvikum.

Að öðru leyti ætla ég að leyfa mér að vísa bara í nefndarálitið. Nokkrar fleiri breytingar voru gerðar á frumvarpinu. Þær liggja hér frammi á þingskjali 1663 og er um þær fjallað í nefndarálitinu þannig að ég leyfi mér að vísa til þess.