Meðferð opinberra mála

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 17:16:43 (9241)

2004-05-27 17:16:43# 130. lþ. 129.16 fundur 871. mál: #A meðferð opinberra mála# (rannsóknargögn, símhlerun o.fl.) frv. 86/2004, Frsm. minni hluta BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 130. lþ.

[17:16]

Frsm. minni hluta allshn. (Bryndís Hlöðversdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég minntist ekki, eftir því sem ég man, á neitt frv. í þessu efni en því var lýst yfir fyrir hv. allshn. af hálfu þeirra fulltrúa frá réttarfarsnefnd sem þangað komu að heildarendurskoðun laganna lyki af þeirra hálfu í haust. Það var það sem ég rakti hér.

Ég verð hins vegar að segja eins og er að þessi ræða hæstv. dómsmrh. var kannski í sama dúr og annað sem við höfum séð frá honum á síðustu mánuðum. Hann virðist telja sig vera einhvern Don Kíkóta íslensks samfélags, sífellt að berjast við einhverja rosalega vá en síðan gerist það, einhverra hluta vegna, að fáir skilja í því hver þessi gríðarlega vá er. Langflestir umsagnaraðilar í þessu máli, virðulegur forseti --- það var ekkert bara minni hluti hv. allshn. --- höfðu uppi stór orð um frv. eins og það kom í sinni upprunalegu mynd, nánast allir umsagnaraðilar málsins.

Ég heyri það hins vegar á þessari ræðu hæstv. dómsmrh. að hann er kominn í stríð við réttarfarsnefnd líka. Ég hélt að ekki væri hægt að fara í stríð við þá virðulegu nefnd. Hún er skipuð prófessorum og hæstaréttardómurum og eftir því sem ég best man eru þeir ekki taldir vera miklir uppreisnarseggir. En þar eru greinilega einhverjir óæskilegir aðilar af hálfu dómsmrh., ,,menn úti í bæ``. Áhyggjur af mannréttindasáttmálanum eru sleggjudómar, þeir koma þá bara fram í fjölmörgum umsögnum, m.a. frá þessari ágætu nefnd manna úti í bæ, þ.e. réttarfarsnefnd.

Ég verð að segja, virðulegur forseti, að það að ætla síðan að reyna að koma gagnrýni minni hlutans hér yfir á starfsmenn dómsmrn. er ekki fallega gert. Gagnrýnin hefur fyrst og fremst beinst að hæstv. dómsmrh. Þó að sagt sé í þessu áliti að ekki hafi verið leitað álits færustu sérfræðinga til þess að undirbúa málið er það bara þannig, að mínu mati, með fullri virðingu fyrir því ágæta fólki sem vinnur sína vinnu í dómsmrn. eftir bestu getu að það er ekki okkar færustu sérfræðingar á sviði réttarfarsmála. Þeir sitja flestir í réttarfarsnefnd, virðulegur forseti.