Meðferð opinberra mála

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 17:24:39 (9245)

2004-05-27 17:24:39# 130. lþ. 129.16 fundur 871. mál: #A meðferð opinberra mála# (rannsóknargögn, símhlerun o.fl.) frv. 86/2004, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 130. lþ.

[17:24]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Frú forseti. Það er merkilegt að það skuli hlaupa svona í skapið á hæstv. dómsmrh. þó að minni hluti allshn. geri athugasemdir við það hvernig staðið er að málum við vinnslu þessa frv. Sannleikurinn er sá, og það fengum við í allshn. að vita frá þeim sem veittu okkur umsagnir, fleiri en einum og fleiri en tveimur, að það vantaði hreinlega röksemdafærslu fyrir ýmsum veigamiklum þáttum í frv. Það er staðreynd málsins.

Hæstv. dómsmrh. sagði sjálfur við 1. umr. málsins að lögreglan færi af hófsemd og virðingu með það vald sem henni væri veitt. Grundvallaratriðið í því valdi sem lögreglu er veitt í öllum okkar nágrannalöndum er að það sé eftirlit með því hvernig viðkomandi lögregluyfirvöld fara með þau mál. Hæstv. dómsmrh. veit vel að þó að við tökum mið af norrænum lögum eru þau ekkert öll með sama lagi. Dönsku lögin ganga lengst og uppi eru um það getgátur eða vísbendingar frá mannréttindayfirvöldum og íslensku mannréttindaskrifstofunni að danska ákvæðið gæti stangast á við 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Við höfum allar þessar umsagnir í nefndinni og hæstv. dómsmrh. þarf ekki að stökkva svona upp á nef sér þó að þetta sé reifað í nál. minni hlutans.

Það er auðvitað rétt sem hæstv. ráðherra bendir á að við höfum nýjar aðstæður í heiminum sem við þurfum að takast á við. Við erum að reyna að gera það í einhverri sátt og einhverju samlyndi en við getum ekki gert það með því að sniðganga mannréttindareglur og mannréttindasáttmála sem við höfum undirgengist. Þó að hæstv. ráðherra vilji byggja á sjónarmiðum þeirra sem vinna á vettvangi þýðir það ekki að hann eigi að sniðganga önnur sjónarmið sem koma virkilega við sögu í þessum málum.