Meðferð opinberra mála

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 17:30:33 (9249)

2004-05-27 17:30:33# 130. lþ. 129.16 fundur 871. mál: #A meðferð opinberra mála# (rannsóknargögn, símhlerun o.fl.) frv. 86/2004, SigurjÞ
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 130. lþ.

[17:30]

Sigurjón Þórðarson:

Frú forseti. Ég ætla að byrja ræðu mína um þetta mál, meðferð opinberra mála, á því að hrósa hv. formanni allshn. fyrir að hafa breytt þessu vonda frv. Mér finnst hann hafa bara unnið nokkuð gott starf. Þegar þetta frv. kom á okkar borð í upphafi var það afar slæmt og það er náttúrlega ekkert einsdæmi að slæmar sendingar hafi komið úr dómsmrn.

Ég verð nú að minna á að hæstv. dómsmrh. sá sjálfur að sér og dró eitt frv. til baka en þessu breytti hv. formaður allshn. Ég tel að við eigum að fagna þessu og vera í góðu skapi. Ég skil ekki þessa ólund sem mér fannst vera í hæstv. dómsmrh. þegar minnst var á þau vinnubrögð að þetta þyrfti að laga, menn þyrftu að líta til fleiri sjónarmiða og fara betur yfir málið.

Ég tel það réttmæta gagnrýni sem hefur komið fram hjá formælanda minni hluta álitsins, þ.e. að auðvitað áttu menn að fá fleiri að þessu máli í upphafi. Ef réttarfarsnefnd ætlaði að skila heildarendurskoðun á lögunum í haust, hvers vegna var þá ekki leitað til hennar? Í rauninni er það algjörlega óskiljanlegt, það blasir svo við.

Þess vegna fyndist mér að hæstv. dómsmrh. ætti að taka þessum ábendingum vel og upplýsa okkur frekar um það hvers vegna það var ekki gert. Það hefur kannski verið einhver sérstakur flýtir, kannski lá eitthvað sérstaklega á þessu máli og þess vegna þurfti að gera þetta svona.

Ég verð að hrósa meiri hlutanum í allshn. fyrir að hafa bjargað málinu í horn. Það var afspyrnuslæmt og sérstaklega varðar það 1. og 4. gr., að halda eftir gögnum. Ég tel að þetta sé orðið nokkuð ásættanlegt og sama má segja um 6. gr., hvað varðar símhlerunina. Eins og frv. var í upphafi var hægt að hefja hlerun án þess að vera búinn að fá dómsúrskurð. Ég tel að þetta hafi skánað og sé orðið þokkalega viðunandi.

Ég tel það aftur á móti vera skyldu okkar í minni hlutanum að minna á að auðvitað eiga menn að vanda betur til verka í upphafi og sérstaklega það að vera ekki með þessi mál eingöngu í þröngum hópi.

Það er rétt sem kom fram hjá hæstv. dómsmrh., ákveðin sjónarmið vegast á, þeirra sem eru að rannsaka mál og þeirra sem eru verjendur og í réttargæslu. Auðvitað ættu þau sjónarmið að koma að málum í upphafi.

Ég ætlaði ekki að hafa þessa ræðu miklu lengri nema þá að ég ætla að ítreka það að meiri hluti allshn. hefur unnið ágætisstarf í þessu máli. Kannski hefði hann átt að viðhafa þau vinnubrögð í fleiri málum þar sem ég hef leyft mér að gagnrýna vinnubrögð meiri hlutans. En maður verður líka að geta þess sem vel er gert og ég geri það hér með.