Meðferð opinberra mála

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 17:34:23 (9250)

2004-05-27 17:34:23# 130. lþ. 129.16 fundur 871. mál: #A meðferð opinberra mála# (rannsóknargögn, símhlerun o.fl.) frv. 86/2004, KolH
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 130. lþ.

[17:34]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Frú forseti. Það er kannski ekki ástæða til að vera að lengja mikið þessa umræðu en þess ber þó að geta að hér eru á ferðinni gífurlega alvarleg ákvæði, viðkvæm og mjög vandmeðfarin.

Ég get tekið undir hól til hv. formanns allshn. við vinnuna og vinnsluna á þessu máli. Það var alveg ljóst að hv. þm. Bjarni Benediktsson gerði sér grein fyrir hvers konar mál hann var með í höndunum. Hann fór engum orðum svo sem um það að málið væri illa samið eða illa hannað í upphafinu en hann gekk í það verk sem honum bar, að leita sannfærandi lausna til að færa þessar tvær greinar sem deilt hefur verið um til betri vegar. Það tókst honum og hann á auðvitað skilið að jákvætt sé brugðist við því.

Það breytir ekki hinu að andi frv. eins og það var lagt fram situr í fólki, situr í okkur sem höfum starfað í allshn., situr í þeim umsagnaraðilum sem mæltu gegn þessum ákvæðum frv. og situr í almenningi. Við skulum ekki fara í neinar grafgötur um það að vald lögreglu er afar umdeilt mál. Ef lögregla á að hafa vald til að framkvæma hluti á borð við þá sem gert var ráð fyrir í 6. gr. frv. verður að tryggja að slíku valdi sé beitt á ásættanlegan hátt.

Norðurlöndin hafa brugðist við slíku með því að sett hafa verið upp eftirlitsbatterí sem tékka á því hvernig lögregla beitir valdi sínu. Ég held að ég sé að fara rétt með þegar ég segi að hið eina Norðurlandanna sem hefur heimilað símhleranir án dómsúrskurðar er Danmörk. Við höfum ekki farið sömu leiðir í réttarfarslöggjöf okkar og Danir hafa farið. Ég sé ekki að það sé ástæða til að feta í dönsk spor núna, sérstaklega ekki í þessu efni, þegar mál manna er að dönsku lögin stangist á við mannréttindasáttmála Evrópu.

Við sem höfum starfað í allshn. og fjallað um þetta mál gerum líka athugasemdir við það að réttarfarsnefnd skuli ekki hafa fengið málið til umsagnar áður en það var lagt hér fram. Við höfum það eftir formanni nefndarinnar að það sé óvenjulegt að ekki sé haft samráð við nefndina þegar svona mál eru lögð fram áður en þeim er dreift í þinginu. Við teljum eðlilegt að samtal milli dómsmrn. og stofnana þess sé mikið á undirbúningsstigi og ég tel ekki að það þurfi neitt að skamma minni hluta allshn. fyrir það eins og hæstv. dómsmrh. var að gera hér áðan.

Þar sem hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir hefur farið í megindráttum yfir nál. minni hlutans tel ég svo sem ekki ástæðu til að endurtaka það en mér finnst þó skipta verulegu máli að fólk átti sig á því að símhlerunarákvæðið mætti það mikilli andstöðu að það var ekki einungis réttarfarsnefnd og dómstólaráð sem lögðust gegn því heldur voru það líka Persónuvernd, laganefnd Lögmannafélagsins og Mannréttindaskrifstofa Íslands. Mannréttindaskrifstofa Íslands og reyndar fleiri aðilar kvörtuðu einnig undan því í umsögnum sínum að röksemdir með ákvæðum frv. vantaði í greinargerð með því. Undir það getur minni hlutinn sannarlega tekið. En þar sem það er alveg ljóst að brtt. sem komu frá meiri hluta nefndarinnar eru til bóta held ég að við þurfum svo sem ekki að vera að hengja okkur lengur í það að frv. hafi verið illa úr garði gert í byrjun.

Varðandi eina af brtt., þ.e. þá sem lýtur að símhlerununum, vil ég segja að það að hafa heimildina svona opna eins og hún er samkvæmt brtt. býður auðvitað ákveðnum hættum heim. Dómsúrskurðurinn er sannarlega inni en núna er heimildin ekki bundin við símanúmer. Það er kannski að hluta til það að tæknin hefur breyst, menn nota fleiri númer, skipta ört um GSM-síma og aðstæðurnar eru sem sagt orðnar þær að það er erfitt að elta uppi símtæki þeirra sem grunaðir eru um afbrot. Tillaga meiri hluta nefndarinnar er að fara þá leið að dómsúrskurður komi en það verði ekki bundið við símanúmer heldur geti fleiri en eitt númer komið þá til. Í þessu eru fólgnar ákveðnar hættur, nefnilega þær að það eru svo margir aðrir en grunaður afbrotamaður sem nota þessi númer. Það sem ég velti fyrir mér í þessu sambandi er spurningin um það hvort ekki þurfi að láta fólk vita af því eftir á að símhlerun hafi farið fram. Það eru svona hlutir varðandi framkvæmd þessa valds lögreglu sem mér finnst enn vanta á að hafi verið til lykta leiddir eða ræddir í botn.

Það segir í umsögn Mannréttindaskrifstofu Íslands varðandi þessar símhleranir allar að það sem skipti mestu máli varðandi þær sé að koma í veg fyrir hugsanlega misnotkun. Það vita allir sem vilja vita að heimildir til símhlerunar hafa verið misnotaðar herfilega í nágrannalöndum okkar og ekki bara í fyrndinni, í gamla daga, heldur núna á síðustu árum. Meðan við höfum slík dæmi verður að vera algerlega tryggt að það sé eitthvert batterí, einhver aðferð sem mælt er fyrir um í lögum eða reglum sem kemur í veg fyrir slíka misnotkun. Heimildum af þessu tagi fylgir gífurlega mikið vald.

Persónuvernd hefur að því er Mannréttindaskrifstofa Íslands segir okkur lagt fram tillögu í þessum efnum sem hefur þó ekki fengið neinar undirtektir eftir því sem kemur fram í umsögninni frá Mannréttindaskrifstofunni. Ákveðin tilhögun er þar lögð til sem gæti tafið rannsókn mála. Ég ætla að fá að vitna beint í umsögn Mannréttindaskrifstofunnar en þar segir, með leyfi forseta:

,,Persónuvernd hefur þegar lagt fram tillögu í þeim efnum, sem hefur þó ekki fengið undirtektir þar sem sú tilhögun, sem þar er lögð til, gæti tafið rannsókn. Enda þótt segja megi, að það sé ekki hlutverk MRSÍ að gera tillögur um efni laga, skal sú hugmynd sett hér fram, hvort skylda mætti viðkomandi síma- eða fjarskiptafyrirtæki til að tilkynna allar símhleranir til Persónuverndar, sem sæi síðan um að tilkynna viðkomandi aðilum eftir á hvaða símar hafi verið hleraðir. Þannig yrði tryggt, að hlutlaus aðili hefði með höndum eftirlitshlutverkið fremur en dómsmálaráðuneytið sem er svo tengt lögregluvaldinu.``

Ég verð að segja að þessi hugmynd hljómar þannig í mínum eyrum að hana ætti að skoða betur og athuga. Það hefur ekki verið gert, það var ekki gert í aðdraganda þessa máls og það var ekki heldur gert í meðferðinni í allshn. Ég tel að hér séu það alvarleg mál á ferðinni sem álitamál er hvernig fara eigi með þannig að ég tel að það skipti máli að fara ofan í alla sauma á þessu til að tryggja það að engin misbeiting á þessu valdi komi til. Ég verð að segja, frú forseti, að mér nægir ekki yfirlýsing hæstv. dómsmrh. sem hann viðhafði við 1. umr. þessa máls þar sem hann sagði að lögreglan nyti mikils trausts og það hefði skapast ekki síst af því að lögreglan hefði farið af hófsemd og virðingu með það vald sem henni er veitt.

Auðvitað berum við traust til lögreglunnar og við viljum öll að það traust sé á rökum reist. Við erum samt sem áður ekki svo blind að við teljum ekki þurfa einhvers konar eftirlit með þeim valdheimildum sem lögregluyfirvöld hafa.

Eitt má nefna í þessum símhlerunarmálum líka. Það kom fram í umfjöllun nefndarinnar að það er ekki alveg sama hvernig farið er að þessum hlerunum, það er ekki eins og það sé í raun og veru lögreglan sjálf sem hlerar. Það eru fjarskiptafyrirtækin sem standa í símhlerununum sjálfum fyrir hönd lögreglu. Það kom fram hjá fulltrúa ríkislögreglustjóra að þar væri ekki sama hvaða fyrirtæki ætti í hlut. Það er virkilega umhugsunarefni á þeim tímum þegar verið er að einkavæða ríkiseignir. Nú stendur til að fara að selja Símann. Það er allt í lagi að hafa í huga að Síminn er eina fyrirtækið sem hefur staðið sig varðandi framkvæmd símhlerana og það er því það fyrirtæki í landinu sem annast símhleranir fyrir lögregluna. Mér finnst áhyggjuefni og umhugsunarefni þegar við stöndum frammi fyrir því að nú eigi að einkavæða Símann endanlega að þá erum við með þetta mikilvæga hlutverk, símhleranir fyrir lögregluna, á borði Símans. Hafa menn engar áhyggjur af þessu? Ég hef það.

Ég held að hér séu ákveðnir þættir, frú forseti, sem enn á eftir að ræða til hlítar. Þess vegna lýsi ég hér yfir stuðningi við minnihlutaálit stjórnarandstæðinga í allshn. Ég á sæti í nefndinni sem áheyrnarfulltrúi og það kemur fram í niðurlagi nál. að ég sé sammála því. Ég kem til með að fylgja þessum minni hluta í atkvæðagreiðslu í málinu.