Meðferð opinberra mála

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 17:48:39 (9253)

2004-05-27 17:48:39# 130. lþ. 129.16 fundur 871. mál: #A meðferð opinberra mála# (rannsóknargögn, símhlerun o.fl.) frv. 86/2004, KHG
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 130. lþ.

[17:48]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Ég vil segja nokkur orð um frv. og þær tillögur sem liggja hér fyrir frá meiri hluta allshn. til úrbóta á því frv.

Ég vil fyrst segja að ég tel að allshn. hafi unnið gott verk við að betrumbæta það frv. sem lagt var hér fram á þinginu. Að mínu mati var það afar gallað svo ekki sé fastar að orði kveðið og langt frá því að mæta þeim sjónarmiðum sem ég hef til mannréttindamála. Ég tel að ríkisstjórnin hafi í raun gengið miklu lengra en hægt er að sætta sig við í þá átt að þrengja að einstökum ákvæðum mannréttinda og líta um of til sjónarmiða þeirra aðila sem vinna á vegum hins opinbera að öryggismálum og löggæslu. Vissulega eru sjónarmið þeirra þess eðlis að nauðsynlegt er að hlýða á þau af athygli og taka tillit til þeirra eftir því sem fært þykir og nauðsynlegt er hverju sinni.

Frumvarpið dregur fram þau sjónarmið að menn ganga mjög langt til þess að mæta ýtrustu óskum aðila eins og rannsóknaraðila og lögreglu en ganga mun skemur í að standa vörð um almenn mannréttindi. Ég vil nefna til viðbótar því sem kemur fram í frv. að á síðasta kjörtímabili kom fyrir samgn. erindi frá ríkislögreglustjóra um breytingu á fjarskiptalögum til að tryggja það að öllum verði gert skylt að geyma í tölvum sínum gögn um alla umferð í tölvunni síðustu sex mánuði þannig að lögreglan gæti þegar á þyrfti að halda farið í þau gögn og kynnt sér þau. Þetta taldi lögreglan nauðsynlegt til þess að geta gengið úr skugga um hvort viðkomandi eigandi tölvunnar hefði einhvern tíma gerst sekur um saknæmt athæfi.

Sem betur fer var ekki orðið við þessu erindi. Það þarf a.m.k. að fara vandlega yfir það í þingsölum ef það rekur hér á fjörur okkar á nýjan leik áður en menn afgreiða það og mér finnst að þau mál sem er að finna í þessu frv. séu byggð á svipuðum sjónarmiðum frá hendi lögreglu og að dómsmrh. hafi gengið býsna langt í því einfaldlega að framlengja ýtrasta sjónarmið þessara aðila og það runnið í gegnum ríkisstjórn og inn á þingið. Ég hef látið það koma fram að ég gerði fyrirvara í mínum þingflokki um stuðning við þetta mál og taldi þá nauðsynlegt að gera verulegar breytingar á því. Ég ætlast til að ríkisstjórnin vandi sig framvegis betur í þessum efnum og gæti þess að hafa meira jafnvægi á þessum sjónarmiðum, annars vegar mannréttindum og persónuverndarsjónarmiðum og hins vegar hagsmunum lögreglu, sem auðvitað eru gild sjónarmið líka. Það má ekki vera svo einhliða mat ríkisstjórnar í þessum efnum sem frv. ber í raun með sér.

Það er þrennt í frv. sem mig langar að gera að umtalsefni. Það er í fyrsta lagi ákvæðið um aðgang að gögnum og vitnisburði, í öðru lagi um nafnleynd vitna og í þriðja lagi ákvæðið um hlerun.

Um nafnleynd vitna vil ég segja að ákvæði frv. sem er að finna í 2. gr. er að mínu viti varhugavert að mörgu leyti. Mér finnst menn ganga býsna langt í að gera því skóna að aðstæður hér á landi séu með svipuðum hætti og gerist erlendis þar sem mér er kunnugt um að menn hafi fallist á að beita nafnleynd vitna. Það er meðal helstu réttinda sakaðra manna að geta séð þann sem sakar þá um brot. Það eru talin vera mikilvæg réttindi.

Í Evrópu hafa menn fallist á að gera undantekningu á því að uppfylla þessi réttindi við tilteknar aðstæður. Þar eru nefnd dæmi eins og kynferðisbrot gagnvart börnum þannig að brotaþoli þurfi ekki að standa andspænis sakborningi í slíkum málum. Síðan eru líka dæmi um aðstæður þar sem fallist hefur verið á að víkja frá þessu í alvarlegum málum eins og þeim sem tengjast ítölsku mafíunni eða samtökum á borð við IRA á Írlandi og ETA á Spáni. Þegar um er að ræða slík samtök sem sumir kalla hryðjuverkasamtök, a.m.k. telja menn að þau beiti mjög grófum aðferðum fyrir málstað sinn, tilræði og jafnvel banatilræði við einstaklinga sem þeim eru andsnúnir og vitna gegn þeim, hefur verið talið réttlætanlegt að víkja frá þessu til að tryggja öryggi þeirra sem bera vitni.

Að aðstæður hér á landi séu eitthvað í líkingu við þetta kemur mér á óvart ef menn ætla að meta það svo. Ég hef ekki upplýsingar um að svo sé og tel að ekki séu fyrir hendi neinar þær aðstæður hér á landi sem nálgast þær aðstæður í Evrópu þar sem menn hafa fallist á að víkja frá þeim réttindum sakaðra manna og heimila nafnleynd vitna.

Ég geri athugasemdir við þetta atriði í frv., herra forseti, en ég ætla ekki að leggjast gegn því á þessu stigi málsins. Ég beini því hins vegar til réttarfarsnefndar sem er að endurskoða þessi lög í heild sinni að taka þetta ákvæði til athugunar og ég spyr hvort ekki sé rétt að breyta því, a.m.k. gæta að því hvort við séum ekki að ganga miklu lengra í að heimila nafnleynd vitna en gerist erlendis. Fróðlegt væri að skoða t.d. dóma Mannréttindadómstólsins í þeim efnum. Við það atriði geri ég athugasemdir og óska eftir að það verði tekið til athugunar við heildarendurskoðun laganna.

Í öðru lagi er atriðið um aðgang að gögnum. Eins og frv. var lagt hér fram er að mínu viti algjörlega óviðunandi að ganga svo frá löggjöf að sakborningur og verjandi hans hafi ekki aðgang að gögnum sem teflt er síðan fram gegn sakborningi. Sem betur fer leggur meiri hluti allshn. til breytingar á þessu ákvæði frv. á þann veg að það er hægt að sætta sig við ákvæðið þannig breytt. Þó að mér finnist gengið nokkuð langt í að heimila að halda þessum gögnum frá verjanda og sakborningi má a.m.k. segja að menn haldi þeirri grundvallarreglu að þessir aðilar hafi aðgang að umræddum gögnum að lokum þannig að ég geri ekki athugasemdir við það ákvæði eins og það lítur út eftir yfirferð allshn. og er þá eins og kemur fram í tillögum meiri hluta nefndarinnar.

Í þriðja lagi er þetta ákvæði um hlerunina sem fór ákaflega illa í mig þegar ég kynnti mér frv. í upphafi. Það er af þeirri ástæðu að þar var gengið yfir þá grundvallarreglu að hlerun á síma eigi ekki að heimila nema að undangengnum dómsúrskurði. Með frv. er lagt til að heimila lögreglu eða rannsóknaraðila að hlera síma gegn því að bera það undir dómstóla innan 24 stunda.

Það er augljóst hverjum manni að ef svona er gengið frá lagaákvæði er tiltölulega auðvelt að misnota það og það býður a.m.k. þeirri hættu heim að gripið verði til hlerana án þess að nokkur viti af því. Ef þær leiða ekki til frekari athafna verður kannski einfaldlega bara fallið frá þeim og engar tilkynningar sendar. Við eigum ekki að ganga frá slíkri löggjöf að við höfum svona opnar heimildir sem augljóslega bjóða heim hættunni á misnotkun.

[18:00]

Fyrir þessari tillögu í frv. eru færð þau rök að sams konar ákvæði sé að finna í dönskum og norskum réttarfarslögum og ég vil aðeins víkja að því, herra forseti. Í 783. gr. dönsku réttarfarslaganna er að finna heimild til að hlera síma með þeim hætti sem mælt er fyrir um í frv. hér, að lögreglan eigi þá svo fljótt sem verða má og í síðasta lagi innan 24 stunda að tilkynna dómstólum um hlerunina.

Samt hefur fallið niður að segja frá öðru í frv., herra forseti, og ég varð ekki var við að það kæmi fram í máli formanns allshn., að í dönsku lögunum er annað ákvæði sem fylgir með þessu ákvæði dönsku laganna, að heimila hlerun án dómsúrskurðar. Bið ég nú hv. formann allshn. að leggja við hlustir. Það hefur gleymst eða fallið niður að geta þess að í dönsku réttarfarslögunum, þar sem veitt er heimild til hlerunar án dómsúrskurðar sem síðan er lagt til grundvallar til að taka það upp í frv. hér, er annað ákvæði sem fylgir með þessu ákvæði dönsku laganna, það að samhliða því að yfirvöld beita þessu ákvæði er viðkomandi sem hlerunin beinist gegn í raun skipaður verjandi eða lögmaður sem á að gæta hagsmuna hans, þess sem verið er að fylgjast með. Lögregluyfirvöldin sem beita heimildinni til þess að rannsaka mál og fylgjast með einstaklingi gera það því ekki eftirlitslaust. Það er ávallt lögmaður sem fylgist með rannsókn lögreglunnar og gætir hagsmuna þess sem rannsóknin beinist að, jafnvel þó að sá sem fylgst er með viti ekkert af því. Þetta lagaákvæði er að finna í 784. gr. dönsku réttarfarslaganna og ég held að það sé mikil þörf á því að dómsmrh. sé fyllilega kunnugt um þetta ákvæði dönsku laganna. Mér finnst líka að menn þurfi kannski að gefa skýringar á því hvers vegna ekkert er getið um þetta ákvæði dönsku laganna. Það kemur a.m.k. ekki fram í frv. og heldur ekki í nál. meiri hluta og ég heyrði ekki að hæstv. dómsmrh. gæti þess í ræðu sinni fyrr í dag.

Mér finnst að ekki nema hálf sagan sé sögð þegar menn taka ákvæði 783. gr. dönsku laganna sem rökstuðning fyrir því að færa þau inn í íslenska löggjöf en skilja eftir seinni hlutann af málinu.

Ég tel hins vegar að sú niðurstaða sem meiri hluti nefndarinnar kemst að sé betri en danska útfærslan og er mun hlynntari henni en þeirri leið sem Danirnir fara. Ég vildi koma þessu á framfæri og fá kannski skýringar á því hvers vegna þetta hafi ekki verið upplýst til þessa.

Til stuðnings því sjónarmiði sem ég hef í málinu vil ég líka vísa til þess að ekki eigi að vera um að ræða heimild til hlerunar án dómsúrskurðar og ég vísa líka til sjónarmiða eins og þeirra sem fram koma í frv. frá dómsmrh. árið 1999. Þar kemur fram í greinargerð með 25. gr. þess frv. eftirfarandi sem lýsir í raun og veru þeim sjónarmiðum sem ég tel að við eigum að hafa til grundvallar í þessum efnum og eigum ekki að víkja frá. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Lagt er til að sú breyting verði gerð á 1. mgr. 87. gr. laga um meðferð opinberra mála að lögregla og aðrir rannsóknaraðilar þurfi framvegis undantekningalaust að afla dómsúrskurðar til þess að hlera síma og önnur fjarskiptatæki og þar með taka upp símtöl og önnur fjarskipti í þágu rannsóknar opinbers máls án þess að þeir sem í hlut eiga viti af því, sbr. a-lið 86. gr. laganna. Samkvæmt gildandi lögum nægir samþykki umráðamanns og eiginlegs notanda síma eða fjarskiptatækis til þess að unnt sé að taka upp símtöl eða önnur fjarskipti í þágu rannsóknar. Þar eð aðgerðir sem þessar hafa í för sér mjög verulega skerðingu á friðhelgi einkalífs, sem m.a. er lýst friðheilagt í 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, er eðlilegt að dómsúrskurð þurfi jafnan til þeirra til þess að koma í veg fyrir að þær séu misnotaðar.``

Þetta er að finna í greinargerð með 25. gr. frv. um breyting á lögum um meðferð opinberra mála sem afgreitt var á fyrri hluta árs 1999. Þáverandi dómsmrh. lagði fram þessi sjónarmið sem grundvallaratriði við stefnumörkun á þessu sviði. Ég er algjörlega sammála því sjónarmiði og mér finnst það sem fram kemur hér í þessu frv. víkja verulega þarna frá. Brtt. meiri hluta allshn. færir málið hins vegar til baka til svipaðs horfs og ég get alveg sætt mig við þá útfærslu sem meiri hlutinn leggur til.

Þessi sjónarmið sem ég tala fyrir varðandi hlerunina eiga víða skírskotun eða stuðning í afstöðu, ekki bara hjá fyrrverandi dómsmrh. heldur líka t.d. hjá ungum manni sem heitir Ragnar Jónasson og birti grein á vefritinu frelsi.is nýlega. Hann fjallaði um frv. og setti fram sjónarmið sín til þess.

Hann segir í grein sinni, með leyfi forseta:

,,Afar brýnt er að reynt sé að ná fram markmiðum lagafrumvarpsins með öðrum og vægari úrræðum heldur en að víkja með svo skýrum hætti frá meginreglunni. Reglan um friðhelgi einkalífsins er slík grundvallarregla að borgararnir eiga að geta treyst því að dómari, og enginn annar, geti ákveðið að yfirvöld fái að hlusta á símtöl þeirra eða grípa til sambærilegra eftirlitsaðgerða.``

Fleira ætla ég ekki að leggja inn í þessa umræðu, virðulegi forseti, en ég hef farið yfir þessi þrjú atriði sem mér fannst ástæða til að rekja viðhorf mín til. Í fyrsta lagi um aðgang að gögnum, í öðru lagi um nafnleynd vitna og í þriðja lagi um hlerun. Mér finnast brtt. í heild breyta málinu verulega þannig að það er orðið ásættanlegt og ég mun styðja það svo breytt þó að ég árétti athugasemd mína við 2. gr. frv. sem kveður á um nafnleynd vitna. Ég tel að menn gangi lengra í þeim efnum en efni standa til og lengra en samræmist þeirri framkvæmd sem tíðkast í Evrópu að svo miklu leyti sem mér er það kunnugt.