Meðferð opinberra mála

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 18:08:09 (9254)

2004-05-27 18:08:09# 130. lþ. 129.16 fundur 871. mál: #A meðferð opinberra mála# (rannsóknargögn, símhlerun o.fl.) frv. 86/2004, Frsm. meiri hluta BjarnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 130. lþ.

[18:08]

Frsm. meiri hluta allshn. (Bjarni Benediktsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég lýsi auðvitað yfir ánægju með að hv. þingmaður hyggist styðja frv. eins og það kemur úr allshn. en ég ætla aðeins að víkja að nokkrum atriðum.

Í fyrsta lagi varðandi það sem hann fjallar um dönsku lögin. Öll helstu skilyrði dönsku laganna eru hin sömu og frv. gerir ráð fyrir. Það kann vel að vera að í 784. gr. laganna í Danmörku sé jafnframt viðbótarskilyrði um að viðkomandi sem hlerunin beinist gegn verði skipaður réttargæslumaður. Ég tel engu að síður að það breyti ekki aðalatriðinu sem er það að öll helstu skilyrðin voru hin sömu og í frv. sem var hér kynnt.

Síðan vil ég víkja jafnframt að því atriði að menn hafi hér áður látið orð falla um að dómsúrskurður væri alltaf nauðsynlegur undanfari. Það er auðvitað sú leið sem meiri hluti allshn. leggur til. Það má samt ekki taka þessa umræðu að mínu áliti án þess að hafa jafnframt í huga þennan nýja veruleika sem frv. er ætlað að mæta. Hann er rakinn ágætlega í frv., hefur komið fram hér í umræðu um málið og er sem sagt sá að þeir sem lögreglan er að fást við og er að rannsaka möguleg brot hjá skipta ótt og títt um síma og það er verið að bregðast við tæknilegum vandamálum við rannsókn mála með þessari niðurstöðu. Við teljum að með þeirri brtt. sem nú er komin fram sé enn hafður í huga þessi nýi veruleiki lögreglunnar við rannsókn mála.

Ég vildi sem sagt bara hnykkja að lokum á þessu atriði.