Sala fasteigna, fyrirtækja og skipa

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 18:26:06 (9257)

2004-05-27 18:26:06# 130. lþ. 129.17 fundur 462. mál: #A sala fasteigna, fyrirtækja og skipa# frv. 99/2004, BH
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 130. lþ.

[18:26]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta mál. Hv. formaður allshn. gerði ágætlega grein fyrir efni þess og fyrir þeirri vinnu sem átti sér stað í allshn. Ég vil segja það fyrir mína hönd og hv. þingmanna Samf. þar að ég held að almenn samstaða hafi verið í nefndinni um málið, hvernig það var unnið. Ég held að nefndarmenn hafi, hvar í flokki sem þeir eru staddir, verið sammála um það markmið að bæta úr því regluumhverfi sem gildir á fasteignamarkaði. Í flestum tilvikum vorum við líka sammála um þær leiðir sem skyldi fara að því marki þannig að ég ætla ekki að hafa um það fleiri orð og lýsi bara yfir ánægju með störf nefndarinnar í tengslum við þetta mál. Það var ágætlega unnið í upphafi sem hjálpaði vissulega til, eins og hv. formaður allshn. greindi hér frá, en líka gekk ágætlega að leysa úr þeim álitamálum sem komu upp í starfi nefndarinnar.

Ég og aðrir hv. þingmenn Samf. skrifum undir nál. með fyrirvara. Ég vil einungis greina frá því að ástæða þess fyrirvara er fyrst og síðast eftirlitið. Það er kveðið á um ansi viðamikið eftirlit í frv. og í 21. gr. er gert ráð fyrir því að eftirlitsnefnd sé heimilt hvenær sem er og án fyrirvara að skoða bókhald og öll skjöl fasteignasala sem tengjast rekstri hans eða einstökum málum sem hann hefur með höndum. Skal eftirlitsnefndin framkvæma slíka skoðun svo oft sem þurfa þykir og eigi sjaldnar en þriðja hvert ár hjá hverjum fasteignasala.

Það var kannski þetta sem ég hef efasemdir um og hefði talið nægilegt að hafa þetta eftirlit ,,svo oft sem þurfa þykir``. Ég held að við séum sammála um það, vorum a.m.k. sammála um það í allshn., að það þyrfti að vera gott eftirlit en það væri spurning hvort ástæða væri til að fara út í svona viðamikið eftirlit, í raun og veru skyldueftirlit, jafnvel þó að um væri að ræða stofu sem væri engin sérstök ástæða til að hafa eftirlit með.

Það er sem sagt ástæða fyrirvarans í okkar tilviki. Ég held að það sé samt ágæt leið sem var farin í bráðabirgðaákvæðinu, og var gerð grein fyrir af hv. formanni allshn., að kveða á um að þetta fyrirkomulag skyldi tekið til endurskoðunar í byrjun árs 2008. Það er ástæða til að fara í gegnum allan þennan markað eins og hann leggur sig til að byrja með og kannski kann að lokinni þeirri skoðun að vera ástæða til að draga úr eftirlitinu. Þess vegna skrifum við undir álitið og erum sammála því í öllum meginatriðum en fyrirvarinn er einungis þessi. Auðvitað treystum við því að tekið verði til skoðunar að ekki sé verið að gera óþarfaeftirlitsbatterí, gera slíkt batterí stærra en þörf er á. Allt kostar þetta peninga og fyrirhöfn.

Að öðru leyti erum við afar sátt við málið.