Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 20:11:25 (9264)

2004-05-27 20:11:25# 130. lþ. 129.20 fundur 594. mál: #A vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum# (ernir, hreindýr, stjórnsýsla o.fl.) frv. 94/2004, Frsm. SAÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 130. lþ.

[20:11]

Frsm. umhvn. (Sigríður A. Þórðardóttir) (andsvar):

Frú forseti. Ég skal svara þessu mjög stutt. Í þingnefndinni var ekki rætt um að fela náttúrustofunni í Stykkishólmi þetta eftirlit en hins vegar er auðvitað mjög mikilvægt að þarna sé staðið vel að slíku. Náttúrufræðistofnun hefur annast það hingað til og það verður þannig áfram.

Ég vildi líka geta þess í þessu sambandi að nokkur gagnrýni kom fram á eftirlitsstörf Náttúrufræðistofnunar af hálfu æðarbænda. Sérstakur fundur var haldinn um þessi mál þar sem mættir voru fulltrúar frá umhvrn. og Náttúrufræðistofnun til að funda með æðarbændum. Ég veit ekki betur en að ágætt samkomulag hafi tekist á þeim fundi um að slíkt eftirlit yrði í samráði við æðarbændur.