Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 20:20:17 (9267)

2004-05-27 20:20:17# 130. lþ. 129.20 fundur 594. mál: #A vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum# (ernir, hreindýr, stjórnsýsla o.fl.) frv. 94/2004, KolH
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 130. lþ.

[20:20]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Frú forseti. Eins og fram hefur komið í ræðum hv. þm. Sigríðar Önnu Þórðardóttur og Rannveigar Guðmundsdóttur hefur umhvn. farið gaumgæfilega yfir þetta mál og hitt alla hlutaðeigandi aðila, fjöldann allan af umsagnaraðilum og átt gagnlegar viðræður við þá. Það er viðurkennt að upp hafa komið ágreiningsmál í þessu máli er lýtur að vernd og friðun arnarins og æðarbændur hafa komið til nefndarinnar og tjáð okkur áhyggjur sínar. Sömuleiðis hefur Breiðafjarðarnefnd sent nefndinni umsögn. Breiðafjarðarnefnd klofnaði reyndar í málinu og við fengum minnihlutaumsögn frá Ævari Petersen sem er fulltrúi Náttúrufræðistofnunar Íslands og náttúrustofu á Vesturlandi og Vestfjörðum í Breiðafjarðarnefnd. Það kemur í ljós að menn hafa beggja vegna víglínunnar þó nokkuð til síns máls og eins og kom fram í máli hv. formanns umhvn. hefur í framgangi þessa máls verið reynt að leita sátta milli aðila og ég held að það sé tilfinning okkar allra í nefndinni að samtal sé nú hafið milli Náttúrufræðistofnunar og æðarræktenda og við væntum þess að aukin sátt náist um þetta mál. Auðvitað eru það hagsmunir okkar allra að æðarvörpin verði ekki fyrir tjóni og að vernduð æðarvörp njóti alvöruverndar en það skiptir okkur líka jafnmiklu máli að arnarstofninn nái sér á strik. Við vitum það sem satt er að hann hefur verið í gífurlegri hættu. Við höfum haft þessa tegund, þennan konung fuglanna, á válista um árabil og nú skiptir verulegu máli þegar stofninn er farinn að rétta úr kútnum að við stöndum vaktina, gætum réttar arnarins og tryggjum að stofninn sem er að verða til hér komist almennilega á legg. En það þarf ekki að þýða ógn við friðuð æðarvörp við Breiðafjörð, svo sannarlega ekki. Auðvitað treystum við því öll sem eigum fulltrúa í umhvn. að það samtal sem nú er komið á leiði til þess að áframhaldandi geti náðst góð sátt um samstarf þessara aðila.

Einnig er rétt að ítreka það að breytingar þær sem hér er verið að leiða í lög eru fyrst og fremst til að taka af allan vafa varðandi réttaróvissu og eru atriði sem hafa hingað til verið í reglugerð. Hér er ekki verið að breyta í neinum meginatriðum einhverjum reglum sem hafa ekki verið í gildi. Þetta er auðvitað nauðsynlegt að öllum aðilum sé ljóst.

Reglugerðin sem hefur verið í gildi gerir ráð fyrir því að stugga megi við flökkuörnum í friðlýstum æðarvörpum og ákvæðið sem við erum nú að leiða í lög varðandi geldfugla er algerlega sambærilegt við reglugerðarákvæði. Í reglugerðinni er meira að segja talað um það hvaða tæki megi nota til að fæla geldfugl eða flökkuörn úr æðarvörpum. Þar er heimilt að nota reyk, hræður, fælur eða gasbyssur til að stugga við örnum í friðlýstum æðarvörpum en það hefur verið bannað og er bannað að reka niður póla í arnaróðul eða beinlínis að koma í veg fyrir að örn geti verpt á þeim óðulum þar sem vitað er til að hann hafi verpt áður.

Ef skort hefur á samráð stjórnvalda og samtök æðarbænda við undirbúning þessa frv. er það auðvitað verulega miður. Ég tel að umhvn. hafi lagt sitt af mörkum í þeirri vinnu að reyna að koma á sáttum og samtali þarna á milli og ég tel mjög vel að það skyldi hafa tekist.

Eitt er það atriði sem ég geri fyrirvara við í þessu frv. Hann varðar 7. gr. sem á við 1. málsl. 1. mgr. 11. gr. laganna. Gert er ráð fyrir að sá málsliður orðist svo, með leyfi forseta:

,,Allir sem stunda veiðar á villtum dýrum, öðrum en rottum, músum og minkum, skulu afla sér veiðikorts gegn gjaldi, sbr. 3. mgr.``

Þetta atriði kostaði talsverða umræðu í nefndinni því að hér er verið að nota tækifærið að því er virðist, úr því að lögin eru opin, til að bæta minkum á lista þeirra villtu dýra sem heimilt er að drepa án þess að hafa veiðikort. Við þessu vil ég vara. Ég er ósammála því að almenningi eigi að vera heimilt að drepa mink hvar sem hann finnst með hvaða tækjum sem fólk hefur til þess, skóflur eða barefli þar með talin. Ég er þeirrar skoðunar að leggja eigi til skipulegrar atlögu við minkinn og að honum beri að útrýma úr villtri náttúru Íslands. Ég tel hann mikið skaðræðisdýr og er ekki að tala fyrir því að minkurinn fái að ganga óáreittur um holt og móa, þvert á móti. Ég vil samt að þeir sem taka að sér að drepa mink geri það samkvæmt heimildum, vinni samkvæmt lögum og reglum og þar er auðvitað einfaldasta leiðin að gera það á þann hátt að viðkomandi hafi veiðikort til að stunda þær veiðar. Sjálf á ég ófagrar bernskuminningar um það að hafa séð mink drepinn með skóflu og ég óska engu barni þess að þurfa að upplifa slíka hluti. Ég hef sjálf gagnrýnt það þegar fjölmiðlar hlaupa upp til handa og fóta og birta myndir af hetju almennings sem hefur lagt til atlögu við minka úti í náttúrunni. Þetta tel ég ekki vera til eftirbreytni og ég tel allsendis óþarft að breyta þessari grein laganna í því frv. sem við hér fjöllum um sem er sett fram í allt öðrum tilgangi.

Það er þetta sem fyrirvari minn lýtur að en ég vona að öðru leyti að þessi ákvæði sem hér er verið að leiða í lög eigi eftir að reynast erninum okkar heilladrjúg. Konungur fugla á sannarlega skilið að skjaldborg sé slegin um hann og að sá stofn sem nú er í uppsveiflu komist á legg.