Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 21:09:48 (9271)

2004-05-27 21:09:48# 130. lþ. 129.20 fundur 594. mál: #A vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum# (ernir, hreindýr, stjórnsýsla o.fl.) frv. 94/2004, EOK
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 130. lþ.

[21:09]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Það mál sem hér er til umræðu er mjög sérstakt. Það er um friðun arnarins og hefur valdið mönnum verulegum áhyggjum, sérstaklega æðarbændum um allt landið. Það er gengið mjög langt í þessu frv. og sérstaklega eru sektarákvæðin í því mjög sérkennileg. Það er trúnaðarmál hvar arnarhreiður eru en menn geta verið sektaðir fyrir það að koma í 500 metra fjarlægð frá þeim og dæmdir í allt að tveggja ára fangelsi líka. Það er ekki alveg vitað hvernig á að standa að þessu þannig að þetta er dálítið klaufaleg lagasetning.

Hins vegar held ég að allir séu sammála um að mjög nauðsynlegt sé að friða örninn, það er samstaða um það. Því er mjög mikilsvert að um framkvæmdina ríki sátt, sérstaklega við bændur. Þessi hörðu ákvæði koma mjög nærri landnýtingu fólks. Til að allir standi vel að þessum hlutum til framtíðar litið, að friða örninn sem hefur gengið svo vel síðustu hundrað árin, er nauðsynlegt að um þetta sé sátt.

Því skora ég á hæstv. umhvrh. að hún dragi þetta frv. til baka, noti sumarið til að ná um þetta sátt og komi svo með frv. aftur hér í haust. Ég held að þannig mundum við vinna betur og vinna mjög vel að því máli sem við erum öll sammála um.