Náttúruverndaráætlun 2004--2008

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 21:34:47 (9274)

2004-05-27 21:34:47# 130. lþ. 129.21 fundur 477. mál: #A náttúruverndaráætlun 2004--2008# þál. 28/130, RG
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 130. lþ.

[21:34]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því sem hv. síðasti ræðumaður endaði ræðu sína á, orkuásælninni. Það sem ég ætla að nefna í sambandi við hana, og þetta tengist kannski ekki mjög mikið nákvæmlega því máli sem við erum að afgreiða hér þannig lagað, en það sem vantar mjög mikið er yfirsýn og farvegur, þ.e. einn farvegur. Hann er ekki til staðar og ég hef mjög miklar áhyggjur af því. Við t.d. heyrðum það bara í fréttum, í hittiðfyrra held ég, að byrjað væri að gera tilraunaboranir við Torfajökul. Þá kom í ljós að fréttamenn höfðu skoðað fundargerðir viðkomandi sveitarstjórnar og séð heimildina þar en annars vissi ekki nokkur maður að það var búið að veita heimild fyrir því að fara upp á Torfajökulssvæðið og bora uppi við Hrafntinnusker og annars staðar. Enginn hafði svigrúm eða tækifæri til að koma með athugasemdir eða segja: Heyrðu, ætlum við að gera þetta, hver hefur ákveðið það? Hvar hefur það verið ákveðið að við séum tilbúin að fara með vegagerð og umbrot inn á Torfajökulssvæðið?

Sama er að segja t.d. hvað varðar Langasjó, þessa bláu perlu inni á hálendinu. Miklar hugmyndir eru uppi hjá Landsvirkjun um að veita jökulvatni yfir í Langasjó við tilteknar orkuframkvæmdir og það er sveitarfélag sem hefur leyfi til að veita heimild fyrir þessu. Orkufrumvarpið var hér nefnt. Þegar við fórum yfir það var þar í greinargerð fjallað um hvernig hlutunum er komið fyrir í hinum ýmsu löndum og þar sést t.d. varðandi Noreg að allar virkjanaframkvæmdir koma til lokaafgreiðslu á Stórþinginu. Ákvarðanir um að fara inn á þeirra dýrmætu svæði eða minna eða meira dýrmæt til að virkja koma til þingsins. Og ekki er það nú það auðveldasta í heimi með hefðinni fyrir minnihlutastjórnum, og mjög oft með minnihlutastjórnir við stjórnvölinn.

Þarna er gífurleg trygging fyrir því að ekki sé vaðið yfir dýrmæt svæði af einhverjum tilteknum hópi fólks í að stugga við og brjóta upp þær náttúruperlur sem við eigum. Þetta vil ég bara segja í tilefni af orðum síðasta ræðumanns.

Síðan ætla ég, virðulegi forseti, að fara örfáum orðum um málið sjálft sem við erum að fjalla um hér. Þessi orðaskipti mín og þingmannsins tengjast ekki beinlínis þessu máli að öðru leyti en því að náttúra Íslands er alltaf undir í öllum þessum málum og að við eigum að gæta að henni. Ég benti á við 1. umr. málsins hvað það skiptir miklu máli að við erum aðilar að mjög mörgum alþjóðlegum samningum sem varða verndarákvæði, ýmist dýrategundir eða varðandi landið okkar, og t.d. að Evrópusambandið byggir stefnu sína á Bernarsamningnum. Ef við værum í Evrópusambandinu væri áætlunin sem við erum að afgreiða nú öðruvísi. Þá væri allt útfært í löggjöf meðan útfærsla þessarar áætlunar verður í raun og veru í reglugerð.

Fyrir 1. umr. vorum við í Samf. búin að setjast yfir málið og okkur fannst það ekki nógu góður kostur að koma hingað með losaraleg áform um 14 staði og ákveða að nú skyldi farið í vinnu við þessa 14 staði og allt væri þá eftir og það sem yrði gert yrði sett í reglugerð og síðan eftir fimm ár mundum við kannski fá næsta kafla o.s.frv.

Ég ætla að taka undir það að vinnan við náttúruverndaráætlunina er búin að vera mjög ánægjuleg og mikil fræðsla hefur verið fólgin í að fara yfir hana, mikil fræðsla fólgin í því að fara yfir þessar miklu umsagnir sem við fengum. Þetta er umfangsmikið mál og hægt að mæla í því að gögnin bara varðandi þetta eina þingmál fyllti eina hefðbundna möppu sem venjulega dugir fyrir öll mál vetrarins í hinum ýmsu nefndum Alþingis. Ég hlýt að nefna þetta og mæla það á fingrum mér.

Auðvitað hefur verið mikil fræðsla í því fólgin að fara yfir þessar umsagnir fram og til baka og átta sig á því hverjar eru þess eðlis að taka eigi tillit til þeirra, hverjar séu þess eðlis að --- ja, ég blandaði víst saman umhverfisáætluninni og náttúruverndaraáætluninni og sló þær saman í eina, ég sé það þegar stöllur mínar hlæja hér. Engu að síður voru þar reyndar miklar umsagnir sem eiga við um náttúruverndaráætlunina líka. Þegar ég hugsaði um vinnuna sem væri búið að fara í fannst mér allt þetta eiga heima í sömu möppunni. Það hefur þá a.m.k. verið leiðrétt að svo er ekki.

Að minnsta kosti hefur það gerst í yfirferð á þessu máli að við, þrír fulltrúar Samf. í umhvn., sú er hér stendur, hv. þm. Mörður Árnason og Bryndís Hlöðversdóttir, komumst að þeirri niðurstöðu að sú aðferð sem er ákveðin hér í þessari náttúruverndaráætlun er ásættanleg. Við höfum komist að þeirri niðurstöðu með því að fara yfir allar þessar umsagnir, með því að kynnast því hversu viðkvæm sum svæðin eru, til hversu margra ólíkra þátta þarf að taka tillit, hversu miklar viðræður þurfa að fara fram frá upphafi til enda varðandi ólíkar friðunaraðgerðir, algjöra friðun eða bara friðlönd eða hvað sem það er. Þetta eru ólíkir þættir, það er gífurleg vinna sem fer fram. Það höfum við þóst læra í þessari yfirferð að það sé vænlegri kostur að sækja til Alþingis heimild til að vinna við friðun og friðlýsingar á þessum tilteknu svæðum og hafa þá það bakland sem ákvörðun Alþingis og áætlun er, miðað við það að reyna að fara í þá vinnu af hálfu ráðuneytisins með ekkert á bak við sig. Það höfum við lært að nauðsynlegt er og mikilvægt að Alþingi setjist yfir það hvernig á að vinna. Hvað ætlum við að vernda og í hvaða vinnu viljum við að verði farið? Mér finnst það mikilvægt og það segir sitt um það hvernig hefur verið haldið á málum að þrátt fyrir allt höfum við fært okkur frá því að vilja að allt yrði útfært í löggjöf og sættast á og skrifa upp á það að þannig verði unnið eins og hér er lagt til.

Það er líka athyglisvert í þessari náttúruverndaráætlun að það er ekkert jafnt hvað við erum að fara í með þessi 14 svæði, hvort það eru tegundir lífvera eða vistgerðirnar eða jarðminjarnar. Það eru langflest svæðin sem taka mið af tegundum lífvera í þetta sinn. Næst getur vel verið að við verðum kannski að miklu leyti að fjalla um jarðminjar og það er ekkert óeðlilegt að þannig sé.

Hér var áðan talað um hvað fleira hefði þurft að vera í áætluninni. Ég var t.d. mjög upptekin af Brennisteinsfjöllunum. Ég er hrædd við það sem ég lýsti hér í upphafi máls míns. Ég er hrædd við að einhvers staðar sé hægt að leyfa, bara án þess að nokkurs staðar sé verið að ræða það opinskátt eða upphátt, að farið verði með einhvers konar vegagerð inn í Brennisteinsfjöllin til þess að komast þangað með tæki og tól til að prufubora, til að mæla og gá hvort ekki sé vænlegt að setja upp orkuver og vaða inn á þetta svæði sem er mjög dýrmætt. Reyndar lagði Umhverfisstofnun það til í umsögn sinni að Brennisteinsfjöllin yrðu skoðuð. Við tókum þau til umræðu, það er alltaf álitamál hversu mikið var skoðað en við tókum þau til umræðu og það sem hefur gerst í umfjöllun okkar í nefndinni er að við sættumst á þessi 14 svæði. Það að við sættumst á þau þýðir samt ekki að þetta séu einmitt þau 14 svæði sem við þingmenn Samf. hefðum viljað vinna við. Kannski hefðum við frekar viljað taka einhver þrjú út og setja þrjú inn en niðurstaða okkar --- og ég er náttúrlega að tala fyrir okkur í Samf. --- varð sú að ganga að þessu og sættast á þau svæði sem hér er lagt til.

Mér finnst það mikilvægt og mér finnst það skipta máli að þegar farið er af stað með þessa allra fyrstu náttúruverndaráætlun sé það gert í þeirri sátt sem það er gert í hér og nú, og eins og kemur fram í nál. Mér finnst það skipta mjög miklu máli. Við erum hér komin með fyrstu stefnumótandi ákvörðun Alþingis um friðun svæða og hún nær til ársins 2004. Ég vona bara að við berum gæfu til að fjalla um og vera vakandi fyrir því hver eigi að vera næstu svæði og að ekkert það sé í farvatninu eða að gerast sem hafi þau áhrif að við höfum misst af einhverju mikilvægu eða að það að við tókum það ekki hér og nú verði til þess að farið verði inn á kannski óbætanlega skert eða sködduð svæði sem við hefðum viljað vernda.

Það sem kom mér á óvart í þessari vinnu við náttúruverndaráætlunina er hversu flókið umfjöllunarefni hún reyndist vera og líka hvað það var óþægilegt og mikið umhugsunarefni að upplifa tortryggnina og óttann við breytingu. Margir komu á fund nefndarinnar og við auðvitað kynntumst því að næstum því allir sem eiga hlut að máli eru sannfærðir um að það sem verði gert sé til vansa fyrir þá hagsmuni sem þeir standa fyrir. Þetta heyrðum við líka þegar við sátum umhverfisþingið sl. haust, þá var mjög mikil umræða um það að hægt væri bæði að vernda og nýta en það þyrfti að finna þetta jafnvægi í vernduninni og nýtingunni til að það gæti farið saman. Sums staðar fer það alls ekki saman, sums staðar getur það farið vel saman og svo allt þar á milli.

Auðvitað fundum við það í umfjölluninni og vinnunni í nefndinni að þeir sem eru hræddir og halda að verið sé að skerða rétt þeirra eru vissir um að gripið verði til verstu hugsanlegra aðgerða gagnvart þeim. Þessu kynntumst við t.d. varðandi Geysissvæðið, þar er verið að ákveða fimm kílómetra radíus frá Geysissvæðinu þar sem ekki megi fara í framkvæmdir og þeir sem eiga þarna jarðir sem liggja upp við þetta eða inni á þessu fimm kílómetra svæði eru fólk sem er alveg visst um að verið sé að brjóta á því gífurleg réttindi, að þarna hefði það getað sótt jarðvarma og gert sér hann að --- ég vil ekki nota orðið féþúfu þótt það sé eiginlega orðið sem kemur í hugann, en svo neikvætt orð --- (Gripið fram í: Tekjustofni.) tekjustofni, og þá er fólk hrætt. Nú á að loka á að ég geti notað varmann, ég á varmann á minni jörð. Þetta er það sem við fáum að heyra aftur og aftur.

Í því sama lentum við í raun og veru þegar við fjölluðum um frv. sem var rætt hérna í gær, um Mývatn. Þar er það sama. Við getum ekki hreyft okkur, við þurfum að geta komist lengra, var sagt. Og þá eru það kannski þessi ,,við`` sem eru að létta af en sem eru hrædd við að létta of miklu, að ekki verði farið inn á einhver svæði.

Við verðum auðvitað að komast út úr þeirri upplifun að sumir vilji passa og aðrir vilji ráðast inn á svæðið. Ég held að stóra verkefnið fram undan í náttúruvernd sé að skapa alhliða hugsun í náttúruvernd þannig að ekki komi upp þessar andstæður, heldur verði sameiginlega reynt að líta á hvað það er sem þarf að gæta að og alltaf fyrst að reyna að ákveða hvað það er sem við viljum vernda. Ég held að þar séum við kannski mest sammála, fólk sem er mjög upptekið af því að gæta svolítið að og fara ekki of hratt fram og að ekkert sé eyðilagt í ógáti. Það er einmitt það að setja landið sjálft í öndvegi og gá að því hvað maður komist af með minnst ef maður fer inn á þetta svæði eða hitt. Sú hugsun er ekki ráðandi í okkar landi í dag: Hvað komumst við minnst af með eða getum við ekki gert það annars staðar þar sem við sköddum minna til að fá það sem við þurfum án þess að fara inn á þetta svæði? Þetta er gífurlega mikilvæg hugsun.

Mér finnst þetta líka koma svo mikið í ljós þegar rekast á þættir sem geta farið saman. Þarna er kannski orkuvinnslan eitthvert ógnarorð. Orkuvinnslan er eitthvað sem gerir náttúruverndarfólk hrætt. Það er alls staðar verið að rannsaka hvar hægt sé að fara, það er ekki búið að ákveða að það eigi að vinna orku einhvers staðar en það er verið að fara bara yfir næstum því allt landið og gá. Þarna er nú orka og þarna er á og þarna er foss og þarna er jarðhiti, skoðum þetta endilega.

Stundum hef ég haft á tilfinningunni að allt of margt fólk og sérfræðingar vinni hjá Landsvirkjun, að hún þurfi svo ofboðslega mikið á verkefnum að halda fyrir allt þetta lið að það verði bara nærri því að rúðustrika landið og setja það í bita svo að allir geti fengið sinn bita að vinna með. Auðvitað hlýt ég að hafa rangt fyrir mér í þessu en ég er svolítið hrædd einmitt við þessa orkuhugsun. Þó að ég viti betur finnst mér hún oft ganga þvert á náttúruverndarsjónarmið en ef allir mundu standa saman um að það sé faglega og vel á málum haldið geta þessir hlutir farið saman.

Við verðum að tryggja með þessa náttúruverndaráætlun, umhverfismatið sem við munum taka til við í haust og lögfesta væntanlega á næsta hausti og rammaáætlunina sem er mjög faglega unnin, að þetta allt saman séu tæki sem við notum saman, að við komum okkur saman um að þetta séu tæki sem eigi að vinna saman til þess að hættan sé sem minnst og eins lítil hætta og unnt er á slysi.

Virðulegi forseti. Það er alveg hægt að drekkja sér í umræðu um það hvernig svona áætlun ætti að vera og hvernig ætti að fara með landið. Ég ætla ekki að lengja umræðuna frekar en ætla þó að segja að það að við ákváðum að styðja þessi 14 svæði þýðir ekki að þau séu óskasvæði hvers okkar, alls ekki. Þegar maður fer af stað í fyrsta sinn með náttúruverndaráætlun og búið er að fara yfir það hvað eitt ráðuneyti með undirstofnunum ræður við og maður stendur frammi fyrir því að til að fá inn fleiri svæði verður að fella önnur út er það krafa um svo fagleg vinnubrögð að ég held að það hafi verið rétt hjá okkur í umhvn. að fallast á að nákvæmlega þessi 14 svæði yrðu þau fyrstu. Ef ný áætlun á eftir að koma inn meðan eitthvað af því fólki sem vann við þessa er enn þá á þingi, sem ég reikna frekar með af því að hún á að koma aftur innan fimm ára, verður hægt að vinna miklu betur að henni af því að þá er fólkið sem hefur verið í umhvn. að vinna með þessa málaflokka og þessar áætlanir komið með reynslu sem nýtist.

Virðulegi forseti. Við töluðum um það við 1. umr. --- Samf. hefur flutt um það sérstakt þingmál þar sem Bryndís Hlöðversdóttir var 1. flutningsmaður --- að það sé mjög mikilvægt að vinna að grunnkortum. Það hefur mjög oft komið fram í umsögnum að þörf sé á grunnkortum. Þegar Vegagerðin kom til okkar kom það fram að hún hefur notað gífurlegt fjármagn, ég held að það hafi skipt hundruðum milljóna sem hún er búin að eyða í grunnkort, og allir tala um að ef á að vinna vel og standa vel að málum í náttúruverndinni verði að vera til grunnkort og vistgerðarkort. Við höfum ekki fengið þetta frv. sem hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir flutti afgreitt úr nefnd en hins vegar kemur hérna inn í þetta nál. mikil áhersla á mikilvægi þess að vinna vistgerðarkortin. Og ég ætla að leyfa mér að líta svo á og halda því fram hér úr þessum ræðustól að það sé eins konar afgreiðsla á því þingmáli. Þegar öll umhvn. leggur svona gífurlega mikla áherslu á að verja þurfi meira fé til rannsókna og vinnu við gerð vistkorta og það kemur fram að þessi vinna er hafin og við höfum vitað það --- bara allt of lítið af peningum hefur komið inn, í nokkur ár 5 millj. hvert ár og það þarf að veita meira fé --- ætlast ég líka til þess að formaður nefndarinnar, verðandi umhvrh., tryggi að þetta verði eitt af forgangsmálunum í fjárlagagerðinni í haust.

Að lokum, virðulegi forseti, vil ég líka taka undir að það hefur verið gífurlega gott samstarf í umhvn. Þetta er minn fyrsti vetur þar og ég hef haft feikilega mikinn áhuga á og gaman af vinnunni í henni. Mér finnst að formaður nefndarinnar megi vera mjög ánægð með vinnuna og samvinnuna í nefndinni. Mér finnst gífurlega mikið og merkilegt veganesti fyrir formann sem hefur bara verið einn vetur formaður umhvn. að hafa þó náð að vinna við og skila inn í þingið þetta mörgum mikilvægum löggjöfum, ef það er hægt að nota fleirtölu þar, og að það sé áhugavert að setjast svo í stól félmrh. til að vinna samkvæmt löggjöf ... (Gripið fram í: Umhverfisráðherra.) Umhverfisráðherra. Já, það er tungunni tamast sem hjartanu er kærast. --- Það hlýtur að vera mjög áhugavert að setjast í stól umhvrh. og vinna samkvæmt þeirri löggjöf sem hefur verið tækifæri til að starfa við í nefndinni undir hennar forustu.

Að því loknu vil ég bara þakka mjög gott samstarf og áhugavert og flytja formanni nefndarinnar góðar óskir inn í stólinn.