Náttúruverndaráætlun 2004--2008

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 21:58:56 (9276)

2004-05-27 21:58:56# 130. lþ. 129.21 fundur 477. mál: #A náttúruverndaráætlun 2004--2008# þál. 28/130, KolH
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 130. lþ.

[21:58]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Frú forseti. Það er kannski ekki ástæða til að lengja þessa umræðu enda ætluðum við okkur svo sem að fara að ljúka henni. Samt brenna á mér örfá atriði sem mig langar að nefna áður en umræðunni lýkur.

Það eru þessir hagsmunir sem við erum ævinlega að vinna með sem stangast svo á, þ.e. annars vegar verndarhagsmunirnir og hins vegar nýtingarhagsmunirnir. Það gengur afar erfiðlega hjá okkur að þroska þá umræðu, það er mitt mat, og ég held að við verðum að fara að leita að alvarlegum leiðum, alvöruleiðum til að ná árangri í því samtali sem auðvitað þarf að eiga sér stað á milli bæði stofnana og einstaklinga í þeim efnum. Mér hefur auðvitað fundist halla verulega á náttúruverndarsinnana í þeim málum. Mér hefur fundist ásælni orkufyrirtækjanna í krafti stærðar, fjármagns og umfangs hafa náð undirtökunum í náttúruverndarumræðunni. Mér finnst það óréttlátt og alls ekki rétt að umhvn. taki á nokkurn hátt lit af því hvernig orkufyrirtækin keyra sína pólitík.

Við í umhvn. Alþingis og hæstv. umhvrh. í ríkisstjórninni verðum auðvitað að skilja að við erum málsvarar náttúruverndarinnar, við erum málsvarar hinnar ósnortnu íslensku náttúru sem er ein af okkar öflugustu auðlindum. Ósnortin íslensk náttúra er kannski sú auðlind sem á eftir að fleyta okkur lengst inn í framtíðina, ekki bara í fagurfræðilegu eða abstrakt tilliti heldur hreinlega í efnahagslegu tilliti. Hvaða atvinnugrein er í örustum vexti á Íslandi? Það er ferðamennska, og vísindarannsóknir koma þar ekki langt á eftir. Vísindastarf og menningarstarf sem tengjast náttúru Íslands eru gjöfular atvinnugreinar og auðvitað eiga Íslendingar að byggja atvinnulíf sitt í auknum mæli á þessum auðlindum, hinni ósnortnu íslensku náttúru og rannsóknum á henni.

Meðan við setjum svona mikinn pening og mikið afl í það að búa til orkumannvirki, ég tala nú ekki um þegar þau mannvirki eru eingöngu til þess að búa til hráefni sem er ál í álbræðslur, erum við að mínu mati á miklum villigötum. Þær villigötur birtast auðvitað í umfjöllun svona máls þegar við komumst að raun um það að ríkisstjórnin skuli ekki ætla sér að taka mark á því sem stendur í rammaáætlun hennar sjálfrar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Ég tek undir með hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur að áætlunin er afar merkilegt plagg þar sem gífurlega mikil vinna hefur farið fram. Sannarlega má hrópa húrra fyrir því fólki sem vann þá vinnu og við höfum gert það hér í þessum ræðustóli en það er ekki forsvaranlegt að ríkisstjórnin hunsi hana. Það plagg liggur bara á borðhorni hæstv. iðnrh. og enginn veit hvaða lagalega status það á að hafa. Að öllum líkindum engan.

Hvernig eigum við að standa að náttúruvernd og bremsa af ásælni orkufyrirtækjanna meðan við tökum ekki af alvöru þá umræðu hér í þessum sal? Orkufyrirtækin fara sínu fram og eyðileggingin heldur áfram. Það er mjög miður þegar hæstv. umhvrh. og hv. umhvn. ná ekki að verða alvörumálsvarar öflugrar náttúruverndar í landinu.

Það er afar merkilegt að við erum nýbúin að kveðja góðan gest, Íslendingar, sem við fengum til okkar í þessari viku, Louise Crossley frá Tasmaníu, konu sem hefur sagt okkur frá baráttu fyrir náttúruvernd í Tasmaníu. Það er mjög merkilegt að heyra þær sögur sem hún hefur að segja þar sem baráttan stóð áratugum saman milli orkufyrirtækja og þeirra sem vildu vernda mjög verðmæt svæði. Náttúruverndarsinnarnir höfðu sigur í Tasmaníu þar sem framkvæmdunum um Franklin-stífluna var hrundið og núna blómstra ferðaþjónustan, vísindarannsóknirnar og atvinnuvegir sem þeim tengjast sem aldrei fyrr. Þetta er auðvitað stór ákvörðun að taka, að setja náttúruverndina ofar hagsmunum orkufyrirtækjanna en það er ákvörðun sem Íslendingar, þjóða helst, eiga að ganga fram fyrir skjöldu og taka með stolti, hnarreistir og bera höfuðið hátt.

Varðandi þau svæði sem hér hafa verið nefnd, sem auðvitað ættu að heyra undir þessa áætlun, gleymdi ég áðan að nefna Grændal og Reykjadal en það skiptir verulegu máli að það svæði njóti verndar. Eins og ég sagði áðan á það við um háhitasvæðin okkar, og Grændalur og Reykjadalur sem eru hér í nágrenni höfuðborgarinnar eru þvílíkar náttúru- og útivistargersemar að það skiptir okkur verulegu máli að þeim verði bjargað frá ásælni orkufyrirtækja. Sjáið hvað það eru mörg svæði sem við þurfum að vernda gegn orkufyrirtækjunum. Meðan náttúruverndaráætlun virðist draga taum orkufyrirtækjanna erum við á hálum ís, frú forseti.

Það er sömuleiðis tímabært að við tökum landslag á Íslandi til umfjöllunar. Ég hefði gjarnan viljað sjá í þessari náttúruverndaráætlun að litið væri til landslags sem sjálfstæðrar náttúruauðlindar. Við höfum svo sem fundið í umsögnum ýmissa aðila og þá ekki hvað síst umsögn Landverndar að landslag á Íslandi sé kannski ein helsta ástæðan fyrir því hversu margir ferðamenn sækja Ísland heim. Landslagsvernd er þar af leiðandi afar mikilvæg forsenda í náttúruverndarmálum sem ekki er horft til í þeirri náttúruverndaráætlun sem hér er verið að fjalla um.

Það má segja að stjórn Landverndar hafi líka hitt naglann á höfuðið þegar hún lagði það til við okkur í umsögn sinni að þau svæði sem tilgreind eru í stóru áætluninni, þau 75 svæði sem Umhverfisstofnun tilgreinir í stóru áætluninni, ættu í sjálfu sér að fá sérstaka stöðu, fá einhvers konar ígildi þess að þau séu skráð í náttúruminjaskrá. Stjórn Landverndar telur að hægt sé að tryggja þeim lágmarksvernd sem dregur úr líkunum á því að þeim verði raskað nema að vel athuguðu máli og þá einungis ef ríkir hagsmunir séu í húfi. Ég held að þetta atriði verði líka að taka til skoðunar og það er miður að við skulum ekki í umhvn. hafa gert það í umfjöllun um þessa náttúruverndaráætlun.

Að lokum vil ég, með leyfi forseta, vitna beint í umsögn Landverndar sem sér ástæðu til að ,,minna á að reynslan sýnir að ekki er nægjanlegt að friðlýsa svæði og vernda. Svo vernd á friðlýstum svæðum sé markviss og árangursrík þarf að ráðstafa til hennar nægjanlegs fjár til að merkja svæðin, til að veita upplýsingar og til að sinna eftirliti. Einnig verða verndunarskilmálar að vera með þeim hætti að ekki sé auðsótt að aflétta vernd þó upp komi áform um framkvæmdir á viðkomandi svæði. Hafa ber í huga að náttúruvernd er byggð með langtímahagsmuni að leiðarljósi en framkvæmdir oft á tíðum vegna stundarhagsmuna``.

Frú forseti. Þessi orð eru eins og töluð út úr mínu brjósti. Það er auðvitað þyngra en tárum taki hversu auðvelt virðist vera fyrir stjórnvöld að aflétta vernd á friðlýstum svæðum. Það er skammarlegt þegar það er gert og nægir að nefna Kringilsárrana orðum mínum til staðfestu. Ég vil taka undir með stjórn Landverndar þegar hún segir: Við verðum að hafa það í huga að náttúruvernd byggir á langtímahagsmunum og hefur langtímahagsmuni að leiðarljósi á móti framkvæmdunum sem verja einungis stundarhagsmuni.

Frú forseti. Nú veit ég að margir eru orðnir óþolinmóðir eftir því að við ljúkum þessari umræðu, það líður að lokum þinghaldsins. Ég hefði gjarnan viljað hafa rýmri tíma til að ræða hér náttúruverndaráætlunina, hún er eitt af mínum hjartans málum. Ég hefði haft efni í miklu lengri ræðu en læt staðar numið.