Rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 22:08:17 (9277)

2004-05-27 22:08:17# 130. lþ. 129.23 fundur 878. mál: #A rannsóknir í þágu atvinnuveganna# (Landbúnaðarháskóli Íslands) frv. 79/2004, Frsm. meiri hluta DrH
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 130. lþ.

[22:08]

Frsm. meiri hluta landbn. (Drífa Hjartardóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nál. um frv. til laga um breytingu á lögum um rannsóknir í þágu atvinnuveganna, nr. 64/1965, með síðari breytingum.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund gesti þá sem tilgreindir eru í nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um búnaðarfræðslu, nr. 57/1999, með síðari breytingum, (879. mál). Umsagnaraðilar eru í aðalatriðum þeir sömu og þar greinir.

Málin voru unnin samhliða en með frumvörpunum er stefnt að því að sameina Rannsóknastofnun landbúnaðarins og Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri í eina öfluga mennta- og rannsóknastofnun, Landbúnaðarháskóla Íslands. Markmiðið með sameiningunni er að efla kennslu og rannsóknir í landbúnaði með samþættingu stofnana sem hafa átt með sér samstarf.

Telur meiri hlutinn að með þessari sameiningu sé aðeins stigið fyrsta skrefið af mörgum í þá átt að styrkja þekkingarkerfi landbúnaðarins og efla tengsl þess við atvinnulífið.

Á fundum nefndarinnar komu fram tillögur um frekari sameiningu, t.d. Hagþjónustu landbúnaðarins, Leiðbeiningarþjónustunnar og Garðyrkjuskóla ríkisins að Reykjum. Meiri hlutinn leggur til að í þessum áfanga verði Garðyrkjuskólinn að Reykjum sameinaður hinum nýja Landbúnaðarháskóla þar sem þær rannsóknir sem unnar eru á Rannsóknastofnun landbúnaðarins tengjast fræðigreinum sem kenndar eru á Reykjum. Telur meiri hlutinn að með því verði starfsemi hinnar nýju stofnunar styrkt enn frekar og leggur til nauðsynlegar breytingar á frumvarpinu vegna þessarar sameiningar.

Það kom líka mjög glöggt fram í starfi nefndarinnar að bæði skólanefnd og skólastjóri Garðyrkjuskólans að Reykjum báðu um að fá að koma í þessa sameiningu. Við því var orðið.

Á fundum nefndarinnar hafa komið fram upplýsingar um að sameiningin gæti haft í för með sér kostnað umfram það sem rúmast innan fjárheimilda þeirra stofnana sem um ræðir vegna biðlaunaréttar sem stofnast við breytinguna og þá sérstaklega vegna starfsmanna Rannsóknastofnunar landbúnaðarins. Rannsóknir eru í eðli sínu langtímaverkefni og mjög sérhæfð og getur því reynst erfitt að fá nýtt fólk með nauðsynlega þekkingu til starfa og til að taka við rannsóknum sem eru langt á veg komnar. Þá er einnig hætta á að fresta þurfi rannsóknum vegna kostnaðar við biðlaun eða sameiningu og leggur því meiri hlutinn áherslu á að hin nýja sameinaða stofnun þurfi að fá fjármagn til þess að mæta stofnkostnaði ef með þarf.

Þá telur meiri hlutinn mjög mikilvægt að hin nýja stofnun þurfi einungis að vinna eftir einni reglugerð þó að starfsemi hennar sé ákveðin í tvennum lögum en það skýrist af skólastarfsemi og svo rannsóknastarfseminni. Talið er nauðsynlegt að um stofnunina gildi tvenn lög svo að hún hafi sömu möguleika á að afla fjármagns og aðrar rannsóknastofnanir.

Loks var upplýst á fundum nefndarinnar að búvísindadeild Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri væri ekki lengur til og leggur því meiri hlutinn til lagfæringu á einni grein frumvarpsins vegna þess.

Meiri hlutinn telur að þessi sameining verði til þess að efla landbúnaðinn í heild og leggur áherslu á að áfram verði unnið að hugmyndum um frekari sameiningu. Þá telur meiri hlutinn nauðsynlegt að móta framtíðarstefnu í skipulagi skólastarfs, rannsóknastarfsemi og samþættingu við atvinnulíf.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með nokkrum breytingum sem ég mun gera grein fyrir á eftir en undir þetta álit rita Drífa Hjartardóttir, Magnús Stefánsson, Kjartan Ólafsson, Guðmundur Hallvarðsson og Þórarinn E. Sveinsson.

Breytingartillögurnar eru fólgnar í eftirfarandi:

1. Við 2. gr. 1. mgr. c-liðar (31. gr.) orðist svo:

Landbúnaðarháskóli Íslands hefur umráð yfir þeim tilraunastöðvum á sviði landbúnaðar sem áður tilheyrðu Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri, Rannsóknastofnun landbúnaðarins og Garðyrkjuskóla ríkisins að Reykjum í Ölfusi.

2. Við 5. gr.

a. Orðið ,,búvísindadeild`` í b-lið 2. tölul. falli brott.

b. Við bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Eftirfarandi breytingar verða á lögum nr. 29/1981, um tilraunastöð Búnaðarsambands Suðurlands og Rannsóknastofnunar landbúnaðarins að Stóra-Ármóti:

a. Við 3. gr. laganna bætist: og lögum nr. 57/1999, um búnaðarfræðslu, ásamt síðari breytingum.

b. Í stað orðanna ,,Rannsóknastofnun landbúnaðarins`` og ,,Rannsóknastofnunar landbúnaðarins`` í 5. gr. laganna kemur viðeigandi beygingarfall Landbúnaðarháskóla Íslands.

c. Í stað orðanna ,,forstjóri Rannsóknastofnunar landbúnaðarins`` í 6. gr. laganna kemur: einn maður tilnefndur af Landbúnaðarháskóla Íslands.

d. Heiti laganna verður: Lög um tilraunastöð Búnaðarsambands Suðurlands og Landbúnaðarháskóla Íslands að Stóra-Ármóti.