Búnaðarfræðsla

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 22:49:48 (9286)

2004-05-27 22:49:48# 130. lþ. 129.24 fundur 879. mál: #A búnaðarfræðsla# (Landbúnaðarháskóli Íslands) frv. 71/2004, Frsm. 2. minni hluta JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 130. lþ.

[22:49]

Frsm. 2. minni hluta landbn. (Jón Bjarnason):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nál. 2. minni hluta landbn. um frv. til laga um breytingu á lögum um búnaðarfræðslu.

Í athugasemdum með þessu frumvarpi eins og það var upphaflega lagt fram segir, með leyfi forseta:

,,Meginmarkmið með frumvarpi þessu er að efla kennslu og rannsóknir í landbúnaði með því að endurskoða stofnanaskipan landbúnaðarins og sameina undir eina yfirstjórn Rannsóknastofnun landbúnaðarins og Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri. Á undanförnum árum hafa Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri og Rannsóknastofnun landbúnaðarins átt með sér náið samstarf á ýmsum sviðum, enda er markmið beggja stofnana að efla íslenskan landbúnað. Samstarf stofnananna hefur gengið vel og farið vaxandi. Samruni þeirra er lykilatriði í þeirri samþættingu verkefna sem nauðsynleg er til þess að starfsemin eflist enn frekar. Kostir sameiningar felast m.a. í því að kennslu- og rannsóknastarfsemi verður heildstæðari, starfsfólki bjóðast fjölbreyttari verkefni og fjármagn nýtist betur. Á sama tíma ættu nemendum að bjóðast fjölbreyttari tækifæri til að afla sér menntunar og reynslu af þátttöku í rannsóknum.``

Hægt er að taka undir þessi markmið og röksemdafærslu að hluta. Að mati undirritaðs er ekki nauðsynlegt að sameina stofnanir til að njóta sameiginlegs styrks þeirra. Litlar stofnanir á sérhæfðum sviðum geta verið mjög virkar og miðlað ríkulega til annarra stofnana í samstarfi ef þær fá að njóta sjálfstæðis, innri metnaðar og styrks nærsamfélagsins.

Sameining Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri og Rannsóknastofnunar landbúnaðarins er tímabær en því miður er valin sú leið að leggja báðar stofnanir niður og búa til nýja stofnun, Landbúnaðarháskóla Íslands. Að mati undirritaðs væri mun skynsamlegra að sameina þessar stofnanir undir nafni Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri.

Samstarf Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri er orðið mjög náið nú þegar og þarf því að gæta þess að ótaktískar sameiningaraðgerðir spilli þar ekki fyrir.

Að mati 2. minni hluta átti að binda þessa lagasetningu alfarið við að sameina þessar tvær stofnanir í eina, festa heimili höfuðstöðvanna á Hvanneyri og blanda ekki öðrum þáttum inn í sameiningarferlið.

Ég lagði áherslu á þetta atriði, frú forseti, við 1. umr. Þegar frv. var lagt fram laut það líka einungis að því að sameina þessar tvær stofnanir. Frumvarpið kom fram nokkrum dögum fyrir áætluð þinglok og var settur slíkur hraði á afgreiðslu þess að ekki náðist að vinna það með eðlilegum hætti í nefndinni.

Fram kom á fundum nefndarinnar að ekki hafði verið haft samráð við stjórnendur stofnananna tveggja, Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri og Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, um samningu frumvarpsins en þeir hefðu örugglega getað gefið góð ráð um lagasetningu sem miðar að sameiningu þessara tveggja stofnana. Þessir forstöðumenn hafa leitt stofnanir sínar og fjölbreytt starf þeirra farsællega um áratugi.

Í miðri umfjöllun málsins í nefndinni er svo skyndilega tekin kúvending og ákveðið að kippa Garðyrkjuskóla ríkisins upp í sameiningarhringekjuna án nokkurs undirbúnings eða könnunar á því hvaða áhrif það hefði á sameiningarferli hinna stofnananna tveggja. Það er enn ein staðfestingin á því að landbúnaðarráðherra og meiri hluti landbúnaðarnefndar hafa ekki nægilega skilgreint markmið eða framtíðarsýn í þessari aðgerð að mínu mati.

Engin umræða hefur farið fram innan nefndarinnar um það hvernig fara skuli með núverandi verkefni Garðyrkjuskólans en einungis lagt til í breytingartillögum meiri hlutans að hinn nýi Landbúnaðarháskóli Íslands skuli starfrækja ,,sérstakar starfsmenntanámsbrautir á sviði garðyrkju``. Nú má vel vera réttlætanlegt að leggja Garðyrkjuskólann niður eða breyta rekstri hans og verkefnum frá því sem nú er en slíkar grundvallarbreytingar ber að gera að vel athuguðu máli og með skýrri framtíðarsýn sem því miður virðist ekki vera fyrir hendi, að mati þess sem hér talar. Hér er um svo viðkvæma hluti að ræða að ekki er hægt annað en að lýsa vanþóknun á handahófskenndum vinnubrögðum meiri hlutans.

Menntastofnanir landbúnaðarins á Hvanneyri, Hólum og að Reykjum í Ölfusi hafa verið einna öflugustu rannsókna- og kennslustofnanirnar í dreifbýli á Íslandi. Sérstaklega hafa menntastofnanirnar á Hólum og á Hvanneyri skipt afar miklu máli í byggðalegu tilliti, ekki aðeins fyrir næsta nágrenni staðanna heldur einnig fyrir styrk og sjálfsímynd hinna dreifðu byggða um allt land. Slíkt er ekki sjálfgefið og þeim mun meiri ástæða er til að fara varlega og stíga aðeins þau skref til breytinga sem sannarlega geta orðið til að efla þessar stofnanir og tryggja þær í sessi á skólastöðunum.

Í frumvarpinu eins og það var lagt fyrst fram var gert ráð fyrir að landbúnaðarstofnanirnar sem hér um ræðir væru sviptar heimilisfangi sínu og væri þar með stigið fyrsta skrefið í að veikja framtíð þeirra á stöðunum. Ef stofnun er heimilislaus í lögum er það á valdi ráðherra hverju sinni að ákveða heimili hennar og hvar yfirstjórn stofnunarinnar skuli staðsett. Aðstandendur Hólaskóla mótmæltu því harðlega að Hólaskóli yrði sviptur lögbundnu heimilisfangi sínu á Hólum í Hjaltadal og þar með settur á eins konar vergang. Jafnframt lögðu þeir áherslu á sjálfstæði hans og að lagabreytingin mætti í engu skerða vaxtarmöguleika hans og forræði á sérsviðum stofnunarinnar sem hún hefur markað sér og kveðið er á um í samkomulagi skólanna um verkaskiptingu. Ber að fagna því að við þeirri ósk hefur verið orðið og að í breytingartillögum meiri hlutans er lagt til að bundin sé áfram í lög heimilisfesti Hólaskóla á Hólum í Hjaltadal.

Þrátt fyrir ítrekaðar óskir Hvanneyringa fékkst ekki bundið í lög að hinn nýi Landbúnaðarháskóli Íslands ætti heima á Hvanneyri. Annar minni hluti telur mikilvægt að ekki sé nokkur vafi á að yfirstjórn Landbúnaðarháskóla Íslands og höfuðstöðvar séu á Hvanneyri og því eigi að binda það í lög.

Mikilvægt er að stjórn hins nýja háskóla sé í samræmi við það sem gerist hjá öðrum háskólum, þ.e. að fulltrúar nemenda og starfsfólks eigi þar eðlilega aðild að. Einnig verður að telja þá skipan óeðlilega, eins og lagt er til í frumvarpinu, að Háskóli Íslands skipi fulltrúa í háskólaráð Landbúnaðarháskólans. Annar minni hluti flytur breytingartillögu sem varðar skipan í háskólaráð.

Þá er og óeðlilegt að landbúnaðarráðherra ráði einn skipan háskólarektors. Fremur ber landbúnaðarráðherra að fara að tilnefningum háskólaráðs. Annar minni hluti flytur einnig breytingartillögu um þá skipan.

Í frumvarpinu og öðru frumvarpi sem flutt er samhliða, um Rannsóknastofnun atvinnuveganna, er gert ráð fyrir að við hina nýju stofnun starfi sérstakt rannsóknasvið sem hafi sjálfstæðan fjárhag og að um það megi setja sérstaka reglugerð. Er þar að mínu mati farið á svig við það markmið að búa til eina samþætta stofnun. Engar haldbærar skýringar fengust á því hvernig þetta átti að virka í reynd. Þó virðist starfsemi háskólans eiga að skiptast á tvö sjálfstæð fjárlaganúmer með aðskilinn fjárhag. Ekki fékkst upplýst hvort ráðinn verði sérstakur framkvæmdastjóri fyrir rannsóknasviðið og starfsfólk ráðið sérgreint á rannsóknasvið og kennslusvið. Erfitt er því að sjá hvernig þetta á að virka í reynd en ljóst er að hér er tekin mikil áhætta gagnvart því markmiði að móta eina samþætta stofnun.

Þegar Garðyrkjuskólinn hefur svo verið lagður niður og færður undirbúningslaust undir hina nýju stofnun verður framtíðaruppbygging hennar enn þá vandasamari.

Undirbúningur frumvarpsins miðaði alfarið að sameiningu stofnananna tveggja, Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri og Rannsóknastofnunar landbúnaðarins. Hvað þýðir sú tilhögun sem meiri hlutinn leggur til að hinn nýi Landbúnaðarháskóli Íslands skuli ekki aðeins starfa á tveim fjárhagslega sjálfstæðum sviðum heldur skuli hann einnig starfa deildaskipt? Annar minni hluti flytur breytingartillögu um að Landbúnaðarháskóli Íslands verði ein stofnun og á einum fjárlagalið.

Í ákvæðum til bráðabirgða er kveðið á um að starfsfólki framangreindra stofnana sem verða lagðar niður skuli boðin störf við hina nýju stofnun. Stéttarfélög starfsmanna hafa lagt þunga áherslu á að þessar fyrirhuguðu breytingar verði unnar í nánu samstarfi við starfsfólk og samtök þess og að ákvæði komi inn í lagafrumvörpin sem kveða á um að þeim skuli boðin sambærileg störf hjá hinni nýju stofnun, ekki aðeins störf heldur sambærileg störf.

Ljóst er að allmargir starfsmenn munu óska eftir starfslokasamningum við þessar breytingar og því mun reynast nauðsynlegt að ráða nýtt starfsfólk til að halda óbreyttri starfsemi. Reynslan hefur sýnt að sameiningar stofnana með þessum hætti eru viðkvæmar gagnvart starfsfólki. Þær eru einnig kostnaðarsamar og því er umsögn fjármálaráðuneytis, um að fjárútlát vegna starfsmannamála við sameininguna rúmist innan núverandi fjárlagaheimildar þeirra stofnana sem eiga í hlut, fullkomlega óraunhæf. Mikilvægt er að þessi yfirlýsing fjármálaráðuneytisins verði dregin til baka því að annars stendur þessi nýja stofnun frammi fyrir stórkostlegum niðurskurði og fjársvelti. Vonandi reynist sá grunur rangur að hér sé um beinar sparnaðaraðgerðir af hálfu ríkisins að ræða.

Frú forseti. Menntastofnanir landbúnaðarins gegna gríðarmikilvægu og margþættu hlutverki. Þær hafa verið stærstu mennta- og rannsóknastofnanir í dreifbýli á Íslandi um áratugi og sýnt í verki að hægt er að byggja upp slíkar stofnanir við þær aðstæður. Þær starfa í afar nánum tengslum við atvinnulífið og eru jafnframt þátttakendur í öflugu rannsókna- og menntasamstarfi við háskólastofnanir hér á landi sem og víða um heim. Á grunni sjálfstæðis og innri styrks hefur þeim verið gert þetta mögulegt. Fara þarf því mjög varlega í allar breytingar á stöðu og umgjörð þessara stofnana og þarf hvert skref til breytinga að vera rækilega rökstutt og með skýrri framtíðarsýn.

Því er hér fagnað að Hólaskóli skuli standa utan við þessa sameiningu og að meiri hlutinn hafi lagt fram breytingartillögu um að heimili Hólaskóla á Hólum í Hjaltadal verði áfram bundið í lög. Þó hefði verið ástæða til að setja ákvæði í lögin sem miðuðu að því að tryggja enn betur sjálfstæði, sérstöðu og verkefni Hólaskóla til frambúðar.

Frú forseti. Ég legg hér fram nokkrar breytingartillögur sem lúta að því sem ég hef gert grein fyrir í nefndaráliti mínu. Í fyrsta lagi er það að Landbúnaðarháskóli Íslands verði bundinn í lög með heimili á Hvanneyri.

Ég legg einnig til að skipan í háskólaráð verði með þeim hætti sem hefur verið við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri þar sem bæði starfsmenn og nemendur eiga aðild að eðlilegri þátttöku í því háskólaráði. Það hefði kannski þurft að kveða frekar á um það að fulltrúi starfsmanna þar gæti komið að báðum sviðum, bæði rannsókna- og kennslusviði skólans, en það er afar mikilvægt að háskólaráðið sé skipað starfsfólki og nemendum með eðlilegum hætti.

Líka er flutt breytingartillaga sem kveður á um að landbúnaðarráðherra skuli skipa rektor samkvæmt tilnefningu háskólaráðs.

Þá er hér einnig lögð áhersla á að kanna hvort ekki sé of bratt farið með gildistökuákvæði laganna þar sem gert er ráð fyrir að þau taki gildi 1. janúar nk. Þetta er skólastofnun, þetta er ekki bara fyrirtæki, og 1. janúar er á miðju skólaári. Mér fyndist miklu eðlilegra gagnvart stofnuninni og gagnvart þeirri starfsemi sem þarna fer fram, sérstaklega gagnvart kennslunni og nemendum, að gildistökuákvæðið yrði fært aftur til 1. júlí árið 2005, enda gæfist þá betri tími til að undirbyggja stofnunina fyrir þessar breytingar, ekki hvað síst að því viðbættu að Garðyrkjuskóli ríkisins komi þarna inn. Það veldur kannski enn meiri þörf á að gefa sér tíma til að láta þessa sameiningu eiga sér stað að samfellu í skólastarfi verði ekki á neinn hátt raskað. Þess vegna geri ég tillögu um það, frú forseti, að lögin öðlist gildi 1. júlí 2005 við eðlileg skil í skólastarfi.

Þá er og lögð áhersla á að kveðið verði á um í ákvæðum til bráðabirgða með lögunum að starfsfólki framangreindra stofnana skuli boðin sambærileg störf hjá Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri, ekki bara ,,störf``.

Frú forseti. Ég hef hér lokið við að gera grein fyrir nefndaráliti mínu og þeim breytingartillögum sem ég flyt við það. Ég vil ítreka stöðu þessara skóla. Það hefur komið greinilega fram í þeim umsögnum sem bárust um frumvörpin að mjög sterkir og mikilvirkir aðstandendur standa að þeim.

Ég minni t.d. á umsögn varðandi Hólaskóla þar sem það fór um næstu aðstandendur Hólaskóla yfir því að hann yrði sviptur heimilisfangi sínu og yrði ekki með lögbundið heimilisfang á Hólum í Hjaltadal þar sem hann hefur þó verið um árabil og jafnvel aldir. Þá komu mjög snörp viðbrögð frá sveitarstjórn Skagafjarðar, frá nemendum, frá starfsmönnum Hólaskóla, frá Hólamannafélaginu t.d. sem er mjög virkt félag, hollvinasamtök Hólaskóla. Þetta öfluga nærbakland hefur verið styrkur, veit ég, þessara skóla. Það hefur verið afar mikilvægt og það hefur í rauninni verið hinn sterki bakhjarl þessara stofnana, styrkur, sterkur bakstuðningur nærsamfélagsins. Það getur eiginlega ekkert komið í staðinn fyrir þann styrk.

Þess vegna er svo mikilvægt, frú forseti, að við röskum ekki þeim gríðarlega mikilvæga grunni sem starfsemi þessara stofnana og tilvist byggir á.

Þetta vil ég draga fram í lok máls míns. Ég vil þess vegna ítreka hér að ég hefði talið réttara að fara aðrar leiðir, kveða strax á um að þessi stofnun væri byggð upp á grundvelli einna laga og einnar reglugerðar og að menn hefðu mjög sterka sýn fyrir því að hérna væri verið að búa til eina sterka, samþætta stofnun.

Ég geri mér grein fyrir því að þetta sjónarmið getur þótt viðkvæmt gagnvart starfsmönnum stofnana sem eru að renna þarna inn í nýja stofnun en það yrði hvort eð er að fara mjög gætilega en af festu í þessa sameiningu, alveg sama hvernig þessir þættir eru. Þess vegna tel ég að það hefði verið rétt.

Ég legg áherslu á hversu mikilvægt það er fyrir þessar stofnanir að eiga sér fast heimili. Það hefur komið alveg skýrt fram, bæði í frumvörpunum, í umræðum í nefnd og hér í umræðunum í þinginu, að menn eru að styrkja Landbúnaðarháskóla Íslands og í nefndaráliti meiri hlutans er talið eðlilegt, ég man ekki nákvæmlega orðalagið, að höfuðstöðvar hans séu á Hvanneyri. Ég tel mikilvægt að það sé engin óvissa í því að höfuðstöðvar Landbúnaðarháskóla Íslands, sem verið er að stofna með þessum lögum, verði bundnar á Hvanneyri, Landbúnaðarháskóli Íslands á Hvanneyri, það leiki enginn vafi á því. Jafnframt þarf að tryggja að forstöðumenn, yfirstjórn og rektor þessarar nýju stofnunar verði með heimili á Hvanneyri.

Ég minnist umræðnanna þegar vígslubiskupsembættin á Hólum og í Skálholti voru stofnuð. Þá þurftum við að fara í gegnum þá umræðu að það skipti ekki máli þó að biskupinn sæti á Akureyri, hann þyrfti ekki að sitja á Hólum, það væri nóg bara að hafa biskupsembættið þar. Hið sama var með Skálholt, hann þyrfti ekki að sitja í Skálholti, það væri nóg að skrifstofan væri þar.

Ég tel mjög mikilvægt að þetta sé knýtt saman. Rektorinn er staðarhaldari á Hólum, hann er staðarhaldari á Hvanneyri og þess vegna óska ég eftir því við hæstv. ráðherra að hann geri okkur grein fyrir því, svari þessari beiðni minni um að það verði tryggt með þeim hætti sem hann geti lagt til að sú verði raunin.

Að lokum ítreka ég að samkvæmt þessu frumvarpi og breytingartillögunum sem hér eru lagðar fram verður Garðyrkjuskóli ríkisins að Reykjum í Ölfusi lagður niður sem slíkur en felldur inn í sameiningu Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri í nýja stofnun, Landbúnaðarháskóla Íslands. Fari svo er starfsfólki þessara þriggja stofnana þakkað mjög gott og óeigingjarnt starf í þágu íslensks landbúnaðar og þjóðarinnar allrar um áratugi.

Jafnframt er Landbúnaðarháskóla Íslands, starfsliði og nemendum á hverjum tíma óskað farsældar í starfi um ókomin ár.