Búnaðarfræðsla

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 23:24:29 (9289)

2004-05-27 23:24:29# 130. lþ. 129.24 fundur 879. mál: #A búnaðarfræðsla# (Landbúnaðarháskóli Íslands) frv. 71/2004, BjörgvS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 130. lþ.

[23:24]

Björgvin G. Sigurðsson (andsvar):

Frú forseti. Já, já, ég get alveg í sjálfu sér tekið undir það. Ég sagði líka áðan í ræðu minni að það væri ekkert í sjálfu sér sem lægi á akkúrat þessa mánuðina eða missirin að færa þessi málefni undir menntmrn. þó að ég teldi að til framtíðar væri þessum málum best fyrir komið í einu ráðuneyti, í ráðuneyti menntamála þar sem fram færi heildstæð og metnaðarfull stefnumótun fyrir landbúnaðarskólana eins og aðra skóla. Þar gætu menn unnið að einni samræmdri stefnumótun.

Ég er samt alveg sammála og tek undir með hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni. Það kom fram einnig í máli formanns hans, hv. þm. Guðjóns Arnars Kristjánssonar, við 1. umr. þar sem hann ræddi einmitt um stöðu mála hvað varðaði Sjómannaskólann og stýrimannamenntunina. Í því ljósi má alveg segja að sporin hræði því að illa hefur verið haldið á málum þar. En það er bara eins og svo víða annars staðar í menntakerfinu. Það ríkir metnaðarleysi á allt of mörgum sviðum íslenskra menntamála. Við megum samt ekki láta það hræða okkur frá því að vinna að þessum málum eins og við teljum að best sé fyrir komið af því að einhvern tíma birtir nú yfir íslenskum menntamálum og við fáum hér við stjórnvölinn stjórnmálaflokka sem hafa metnað og framtíðarsýn sem reisir þau við og verður þeim málum til framdráttar.

Eins og ég segi tek ég undir að okkur liggur ekkert á og við skulum klára þetta verkefni og efla búnaðarfræðsluna, vísindarannsóknir og kennslu á sviði landbúnaðarmála sem allra mest á næstu árum. Ég tel þó eindregið að við eigum að stefna að því að eftir ákveðinn tíma eigum við að vera búin að koma þessum málum, búnaðarfræðslunni eins og annarri fræðslu, undir þak menntmrn.