Búnaðarfræðsla

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 23:27:39 (9291)

2004-05-27 23:27:39# 130. lþ. 129.24 fundur 879. mál: #A búnaðarfræðsla# (Landbúnaðarháskóli Íslands) frv. 71/2004, MÞH
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 130. lþ.

[23:27]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa mál mitt langt hér. Það mesta sem ég vildi sagt hafa um þetta mál sagði ég við 1. umr. Ég vil aðeins fá að árétta það að ég hef setið flesta fundi landbn. þar sem fjallað var um þessi mál og ég er í það heila nokkurn veginn sammála þeirri niðurstöðu sem við höfum náð hér. Ég tel að þetta sé bara eitt skref af mörgum sem við þurfum að taka til að koma landbúnaðarfræðslu og háskólamenntun í landbúnaði og rannsóknum í landbúnaði inn á nýjar brautir til framtíðar. Enn þá er mikið verk að vinna. Við þurfum að færa fleiri stofnanir undir þessa stofnun, Landbúnaðarháskóla Íslands, og búa til úr henni virkilega góðan, sterkan og öflugan háskóla sem sinnir bæði menntun og að sjálfsögðu rannsóknum.

Það má vel vera að það sem hér liggur fyrir hinu háa Alþingi og verður vonandi samþykkt núna sé ekki fullkomið verk, kannski ekki frekar en önnur mannanna verk. Í og með er þetta eins og ég sagði áðan eitt af mörgum skrefum sem við þurfum að taka á næstu árum, næstu missirum, og ég er sannfærður um að það verður hægur vandi að fínpússa þetta og laga til á þeirri vegferð sem bíður okkar.