Búnaðarfræðsla

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 23:29:11 (9292)

2004-05-27 23:29:11# 130. lþ. 129.24 fundur 879. mál: #A búnaðarfræðsla# (Landbúnaðarháskóli Íslands) frv. 71/2004, landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 130. lþ.

[23:29]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. landbn. öflugt starf að þessum stóru málum sem hér er verið að afgreiða. Ég er sannfærður um að þetta mál, um Landbúnaðarháskóla Íslands, er stærsta mál gagnvart íslenskum landbúnaði sem afgreitt hefur verið sem löggjöf frá þinginu í áratugi. Það er tímamótamál sem mun hafa mikil áhrif á kennslu landbúnaðarins, á rannsóknir í landbúnaði og skapa hér mikla sérstöðu til að afla rannsóknum styrkja, bæði innan lands og erlendis. Hér er mikið mál fyrir íslenska þjóð og íslenskan landbúnað að líta dagsins ljós.

Ég hef sótt mörg ráð bæði í Háskóla Íslands og fleiri háskóla og fundið styrk í landbúnaðarháskólanum og ég minnist þess hérna vegna þeirra orða sem ávallt koma hér fram um að landbúnaðarháskólinn skuli fara undir menntmrn. Hér er verið að stíga skref til að gera Landbúnaðarháskóla Íslands að atvinnuvegaháskóla, sterkum atvinnuvegaháskóla. Ég minnist þess hér við 1. umr., þá var það hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson sem sterklega tók til orða og taldi að skólarnir væru betur settir undir landbrn. og vitnaði til þess með skýrum hætti hvernig farið hefði fyrir sjávarútveginum í þeim efnum. Ef ég veit rétt er aðeins verið að útskrifa frá Sjómannaskóla Íslands t.d. núna 14--15 nemendur.

Nemendur landbúnaðarháskólans í minni tíð hafa u.þ.b. tvöfaldast. Aðsóknin hefur vaxið gríðarlega. Nemendafjöldinn hefur tvöfaldast, ég fullyrði það, ég hef þær tölur að vísu ekki alveg á hreinu. Aðsóknin er því mikil og eftirspurnin eftir þessu námi sömuleiðis.

Ég minnist þess þegar ég hitti rektorinn á Bifröst, Runólf Ágústsson. Þá sagðist hann telja að í þeirri háskólaflóru sem nú er verið að stofna hér á Íslandi, nýjum og nýjum háskólum, ætti landbúnaðarháskólinn einhver mestu tækifærin. Hvanneyrarskólinn mundi alltaf búa að sinni sérstöðu sem landbúnaðarháskóli, eftirsóknin eftir rannsóknum í náttúrunni væri svo mikil og sérstaða landbúnaðarins yrði alltaf mikil.

Margir hafa styrkt mig í þeirri trú og ég hef auðvitað sótt ráð til margra manna í þessum efnum. Háskólaprófessorar hafa setið að störfum fyrir mig með mörgum í nefndum um þessi mál. Ég verð einnig að segja hér þegar það er gagnrýnt að fulltrúi komi inn í háskólaráð landbúnaðarháskólans frá Háskóla Íslands og ítreka enn og aftur: Háskóli Íslands er hvað sem hver segir bæði faðir og móðir hinna háskólanna. Þar liggur gríðarleg þekking og reynsla og yfirburðir á mörgum sviðum þannig að sá þráður inn í háskólann er í mínum huga mikill og stór.

Hér hefur líka verið rætt um yfirstjórn og höfuðstöðvar. Ég tek undir með meiri hluta landbn. en hún segir í áliti sínu, með leyfi forseta:

,,Meiri hlutinn leggur áherslu á að yfirstjórn Landbúnaðarháskóla Íslands verði áfram á Hvanneyri þótt ekki sé kveðið á um staðsetningu skólans í frumvarpinu, enda skólinn með starfsstöðvar á nokkrum stöðum á landinu.``

Ég tek undir þessa skoðun og svara hv. þm. Jóni Bjarnasyni því til að ég tel auðvitað sjálfgefið að rektor Landbúnaðarháskóla Íslands hafi aðsetur að Hvanneyri eftir nýjum lögum og að þar verði þessar höfuðstöðvar um leið og það kemur hér glöggt fram að þetta er deildaskiptur skóli með starfsstöðvar víða. Þetta vil ég taka undir.

Ég vil segja að lokum hvað Hólaskóla varðar, sem bæði hefur komið hér til umræðu og einhver titringur farið um menn út af honum, að hann er ekkert með í þessu núna. Hann hefur mikla sérstöðu, hann hefur sterk svið sem hann einn er með, ferðaþjónustuna í sveitum, hestamennskuna alla og síðan fiskeldið og er að sækja út á þeim sviðum, sjávardýr einnig. Þar býr mikið afl. Hver gæti fært Hólaskóla frá Hólum? Það er sjálfsagt að taka það fram að hann sé á Hólum en í huga heimsins er hann á Hólum. Skólinn er frægur meðal hestamanna um allan heim, og hann er á Hólum og hann verður aldrei annars staðar en á Hólum. Starfsstöðvar hans eru hins vegar að rísa líka annars staðar eins og Hvanneyrarskólans því að það er útrás í þeim skóla.

Ég ætla þá ekki að hafa þessi orð fleiri en þakka hv. landbn., bæði meiri hlutanum gott starf og einnig minni hluta og stjórnarandstöðunni sem hér hefur lagt sig einnig fram. Ég er þakklátur, og menntmn. fékk málið og það var prýðilegt. Ég mælti með því (Gripið fram í: Og þakka þeim sem hlýddu.) þannig að nú þakka ég þeim sem hlýddu og lýk máli mínu.