2004-05-28 00:00:56# 130. lþ. 129.26 fundur 783. mál: #A jarðalög# (heildarlög) frv. 81/2004, Frsm. minni hluta JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 130. lþ.

[24:00]

Frsm. minni hluta landbn. (Jón Bjarnason):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti minni hluta landbúnaðarnefndar sem ég skipa. Ég vísa til ræðu minnar sem ég flutti við 1. umr. málsins þar sem málefnið var almennt reifað og fjallað um einstaka efnisþætti.

Samhliða framlagningu frumvarps til jarðalaga var lagt fram frumvarp til ábúðarlaga. Nefndin hefur á fundum sínum fjallað um bæði frumvörpin.

Í 1. gr. frumvarps til jarðalaga segir að markmið laganna sé, með leyfi forseta, ,,að setja reglur um réttindi og skyldur þeirra sem eiga land og nýta það og stuðla að skipulegri nýtingu lands í samræmi við landkosti, fjölþætt hlutverk landbúnaðar og hagsmuni sveitarfélaga og íbúa þeirra, svo og að tryggja svo sem kostur er að land sem vel er fallið til búvöruframleiðslu verði varðveitt til slíkra nota``. Markmið þetta er gott svo langt sem það nær, einkum ef farið væri eftir því.

Ég vil vekja athygli á því að hér er skýrt kveðið á um að verið sé að setja lagaumgjörð um réttindi og skyldur allra þeirra sem eiga land og nýta það.

Sjónarmið um meðferð lands og landgæða hafa breyst mjög á síðari árum og nú eru gerðar ríkar kröfur um að meðferð, varsla og nýting lands og landgæða lúti lögmálum um sjálfbæra þróun. Hafa íslensk stjórnvöld undirgengist alþjóðlega sáttmála sem kveða á um þá stefnumörkun auk eigin yfirlýsinga í þá veru. Telja verður því eðlilegt og sjálfsagt að í markmiðskafla þessara laga verði kveðið á um að meðferð og landnýting lúti lögmálum og kröfum um sjálfbæra nýtingu auðlindanna.

Í þessu markmiði skortir verulega á, frú forseti, enda sýnir það að meðferð nefndarinnar hefur verið mjög ómarkviss og mótast af tiltölulega gömlum hugsunarhætti.

Nú standa fyrir dyrum grundvallarbreytingar á stuðningskerfi stjórnvalda við landbúnað, vörslu, meðferð og nýtingu landgæða, búsetu og félagsauð í dreifðum byggðum landsins. Mun þróunin verða sú að hverfa frá framleiðslutengdum stuðningi til stuðnings við félagslega og náttúrulega grunnþætti landbúnaðar samkvæmt lögmálum um verndun gæðanna og sjálfbæra nýtingu þeirra. Það sjónarmið fær litla stoð í þessum lagafrumvörpum. Breytingar í þá átt gætu gjörbreytt afstöðu til lagaumgjörðar um meðferð og ráðstöfun lands og landgæða. Þetta frumvarp tekur ekkert tillit til þessara nýju og breyttu sjónarmiða.

Eitt megininntak frumvarpsins er að rýmka um öll ákvæði sem lúta að því að taka land úr landbúnaðarnotum og stuðla að svokölluðu ,,frelsi`` í viðskiptum með land og náttúruauðlindir, og litið er á jarðeignir sem forgengilega hluti eins og hús eða bíl. Minni hlutinn er andvígur þeirri nálgun. Land og landgæði eru í sjálfu sér félagsleg eign framtíðarinnar. Við erum gestir á ,,Hótel Jörð`` eins og Tómas Guðmundsson kvað. Það yrði varla vel séð ef hótelgestir hefðu mjög frjálsar hendur um nýtingu, meðferð eða sölu herbergisins meðan þeir dveldust þar. Nágrannaþjóðir okkar á Norðurlöndum halda þeirri grunnhugsjón mun hærra á lofti að land og landgæði hafi sérstöðu og þær horfa í mun meira mæli til framtíðarábyrgðar í lagaumgjörð sinni en gert er í þessu frumvarpi.

Réttur sveitarfélaganna til að grípa inn í ráðstöfun lands og meðferð þess er skertur verulega frá því sem áður var. Er það miður og alls ekki í samræmi við markmið laganna eins og ég las hér áðan. Eðlilegra hefði verið að auka skilgreindan rétt sveitarfélaga til afskipta af eignarhaldi og nýtingu lands. Sveitarfélög verða oft að grípa inn í og styðja við rekstur í öðrum atvinnugreinum sem myndar grundvöll byggðar og atvinnulífs á svæðinu. Því skyldu þau ekki mega það í sambandi við landbúnað? Það er til að mynda í hæsta máta eðlileg krafa sveitarfélaganna að þau eigi forkaupsrétt við sölu ríkisjarða þegar ekki er verið að selja samkvæmt rétti ábúenda. Á þetta hafa sveitarfélögin einnig lagt áherslu.

Bændasamtökin gera verulegar athugasemdir við frumvarpið og ekki hefur verið tekið tillit til margra veigamikilla breytingartillagna sem samtökin hafa lagt til. Vil ég m.a. sérstaklega benda á að í eldri jarðalögum var heimild til að sameina að nýju jarðarhluta sem skipt hafði verið út úr jörðum og ekki verið rekið bú á. Dæmi eru þess að sameign á jörðum þar sem einn sameigandi sitji jörðina hafi skapað erfiðleika til að búa á jörðinni fyrir bóndann og rekstur og framkvæmdir á jörðinni.

Þetta er í frumvarpinu t.d. fellt út. Bændasamtökin töldu það mjög óráðlegt og að það yrði til þess að veikja stöðu bænda í þeim tilvikum sem væri brýnt að nýta þetta ákvæði.

Frumvarpið hefur auk þess tekið verulegum breytingum í meðferð nefndarinnar sem hagsmunaaðilum og þeim sem eiga að fara að vinna eftir því hefur ekki verið gefið ráðrúm til að kanna hver áhrif hafa. Meiri hlutinn leggur t.d. til nýjar skilgreiningar á grundvallareiningum í landbúnaði, svo sem á hugtökunum lögbýli, eyðijörð, hlunnindi og nú síðast í ábúðarlögunum um fasta búsetu sem enginn veit hvað þýðir. Við þessar skilgreiningar eru margháttuð atvinnuréttindi og félagsleg kjaraatriði bænda tengd. Það er því afar mikilvægt að þegar gripið er til þess að breyta skilgreiningum á slíkum hugtökum sé það gert í samráði við þá sem eru að vinna eftir því. Það hefur hins vegar ekki verið gert.

Réttur ábúenda á leigujörðum er skertur en réttur jarðeiganda aukinn. Er þetta almennt andstætt siðvenjum og mun veikja búrekstrarstöðu leigjenda verulega. Áhrif þessara breytinga hafa ekki verið gaumgæfð.

Þjóðkirkjan er annar stærsti einstaki jarðeigandinn á eftir ríkissjóði. Ekkert samráð virðist hafa verið haft við forsvarsmenn hennar við samningu þessara frumvarpa, enda ber mikið í milli í túlkun þessara aðila, þ.e. annars vegar ríkissjóðs og hins vegar þjóðkirkjunnar, á eignar- og réttarstöðu fjölmargra jarða. Þrátt fyrir yfirlýsingu um að þessi frumvörp ættu í engu að breyta stöðu kirkjujarða er sú ekki raunin. Að mati minni hlutans ber að hafa samráð við þjóðkirkjuna um lagasetningu um meðferð og sölu jarðeigna. Brýnt er að leysa úr ágreiningi sem nú er milli ríkissjóðs og þjóðkirkjunnar um eignar- og ráðstöfunarrétt jarða og væri rétt að það væri gert áður en þessum lögum verður breytt eða þau unnin.

Nokkrar jarðir eru svokallaðar kristfjárjarðir og fátækrajarðir sem hvorki er hægt að líta á sem eign ríkisins né þjóðkirkjunnar og eru ekki nefndar á nafn í frumvarpinu en skv. 1. gr. þess eiga lögin að taka til allra jarðeigenda. Í frumvarpinu virðist litið svo á að ríkið fari með eignar- og ráðstöfunarrétt á öllum jörðum sem ekki eru skráðar á kennitölu einstaklinga eða fyrirtækja. Sú nálgun er alröng, samanber sérstöðu kirkjujarða og kristfjárjarða.

Þá er hvorki í frumvarpi til jarðalaga né ábúðarlaga sérákvæði er lýtur að takmörkun á rétti útlendinga eða hvernig með það skuli farið til kaupa á jörðum á Íslandi. Eðlilegt væri að kveða á um skilgreinda takmörkun, bann eða hindranir í þeim efnum. Veiking á forkaupsrétti sveitarfélaga á jörðum á markaði gerir slíka takmörkun enn brýnni.

Meiri hluti landbúnaðarnefndar leggur til umfangsmiklar breytingar á frumvarpi til ábúðarlaga og frumvarpi til jarðalaga. Minni hlutinn bendir á að frumvörpin hafi verið skamman tíma til umræðu í landbúnaðarnefnd, áhrif þeirra breytinga sem frumvörpin geta haft í för með sér hafi ekki verið könnuð til hlítar og ekki hafi verið tekið tillit til eðlilega athugasemda umsagnaraðila, svo sem Bændasamtakanna, þjóðkirkjunnar og margra sveitarfélaga. Á grundvelli þessa leggur minni hlutinn til að málunum verði vísað frá, vísað til ríkisstjórnarinnar, þau unnin betur og lögð fyrir næsta reglulega þing til meðferðar. Ekkert liggur á því sérstaklega að endurskoða lögin nú í dag frekar en í fyrra en þeim mun mikilvægara er að ábúðar- og jarðalög séu endurskoðuð og unnin af mikilli vandvirkni þannig að þau komi ekki í bakið á þeim sem eiga að búa við þau.

Frú forseti. Með þessu nefndaráliti fylgja mörg fylgiskjöl sem skýra betur út þessi atriði sem ég hef talið upp, minnisblað frá landbúnaðarráðuneytinu, löggjöf um jarðir annars staðar á Norðurlöndunum, meira að segja ræða hæstv. landbúnaðarráðherra frá 7. mars 2004, við setningu búnaðarþings þar sem kveðið var á um að taka yrði til endurskoðunar allt mat á gæðum lands, einmitt í ljósi þeirra breytinga sem við stöndum frammi fyrir nú á alþjóðavettvangi hvað varðar stuðning við landbúnaðarframleiðslu. Sú breyting getur krafist þess að við þurfum að leggja allt annað mat á meðferð, nýtingu og opinber afskipti af landi og ræktun. Inn á þetta kom einmitt landbúnaðarráðherra í sínu ágæta ávarpi við setningu búnaðarþings en ekkert tillit hefur verið tekið til þess við endurskoðun á frumvarpi til jarðalaga. Hefði þó átt að gera það því að jarðalögin eru stefnumarkandi í þeim efnum. Það sýnir hvað þessi vinna sem hér er verið að leggja fram af meiri hluta landbúnaðarnefndar er orðin gamaldags og úrelt og fylgir ekki einu sinni landbúnaðarráðherra eftir.

Þá er hér líka fylgiskjal þingsályktunartillögu um nýjan grundvöll búvöruframleiðslunnar sem þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs hafa flutt. Hún áréttar þessa nýju og breyttu stöðu í mati á gæðum lands og landkosta og það að sjálfbærri nýtingu auðlindarinnar beri að vera hluti af markmiðssetningu laga eins og jarðalaga. Á hana er hvergi minnst enda kannski ekki sterkasta hlið Framsóknar.

Þá er hér og umsögn Þórshafnarhrepps, bara sem dæmi um ábendingu sveitarfélaganna um að mótmæla því að réttur þeirra til að grípa inn í og beita forkaupsrétti er skorinn niður. Það er að mínu viti röng og alveg stórhættuleg aðgerð.

Þá er hér enn fremur umsögn kirkjuráðs þjóðkirkjunnar þar sem það mótmælir gerræðislegri framkomu ríkissjóðs og fulltrúa hans, landbúnaðarráðuneytisins, og annarra sem fara með jarðir, mótmæla því hvernig þeir hunsa ákvarðanir og samþykktir kirkjuráðs varðandi jarðir og hafa ekkert samráð við það.

Þá er líka hérna umsögn Búnaðarsambands Austurlands sem kveður á um sömu þætti, hvernig verið sé að kippa fótunum undan afskiptum heimaaðila að ráðstöfun jarða og jarðeigna.

Hér er líka mjög athyglisvert minnisblað frá prestssetrasjóði varðandi kristfjárjarðir og fátækrajarðir sem hafa alveg sérstæða réttarstöðu og er hvergi minnst á í frumvarpinu.

Einnig er hér minnisblað frá ráðuneytinu um réttaráhrif sem fylgja því að jörð sé lögbýli. Meiri hluti landbúnaðarnefndar var að krukka í endurskilgreiningu á hugtakinu ,,lögbýli`` án þess að átta sig nokkuð á því hvaða áhrif það hefði né bera sig saman við þá sem eiga að vinna eftir því.

Svona er hér áfram talið, frú forseti. Umsögn Náttúrufræðistofnunar bendir á að verðmæti lands og meðferð hefur breyst og breytist mjög hratt eftir nýjum sjónarmiðum. Ég ítreka að maður á að meta land og nýtingu þess út frá lögmálinu um sjálfbæra þróun. Í frumvarpi til jarðalaga er þó hvergi minnst á það sem sýnir að þetta frumvarp er þegar orðið 10--20 árum á eftir.

Frú forseti. Það er því allt sem styður það sjónarmið mitt að það hefði þurft að vinna frumvarpið algjörlega upp á nýtt út frá nýjum forsendum og nýrri hugsun sem nú ríkir og á að ríkja um meðferð, ráðstöfun og nýtingu lands og landgæða. Því legg ég til að frumvarpinu verði vísað frá og vísað til ríkisstjórnarinnar og það verði unnið betur fyrir næsta þing.