Raforkulög

Föstudaginn 28. maí 2004, kl. 09:36:59 (9341)

2004-05-28 09:36:59# 130. lþ. 130.27 fundur 740. mál: #A raforkulög# (flutningur raforku, gjaldskrár o.fl.) frv. 89/2004, Frsm. KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 130. lþ.

[09:36]

Frsm. iðnn. (Kristinn H. Gunnarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hugsanlegar breytingar á eignarhaldi Landsvirkjunar séu það stórt mál að þær verði aldrei leiddar til lykta nema að baki þeim breytingum sem menn kunni að gera standi drjúgur meiri hluti Alþingis sem styðji breytingarnar. Ef við skoðum einfaldlega þær fjárhæðir sem eru undir, a.m.k. samkvæmt hugmyndum Reykjavíkurborgar, þá eru þetta eitthvað á bilinu 12--20 milljarðar, eitthvað slíkt. Það eru gríðarlega fjárhæðir og það er enginn aðili sem getur keypt af Reykjavíkurborg þennan hlut nema þá ríkið eða þá einhver þriðji aðili sem ríkið og Reykjavíkurborg eru sammála um að standi að þessu. Lausn málsins verður því engin önnur en sú sem ríkið fellst á.

Það má margt segja um hversu mikið Reykjavíkurborg eigi að borga fyrir sinn hluta og menn eiga eftir að leiða þá umræðu til lykta. Við þekkjum hana úr þingsölum frá fyrri tíð um hversu mikið Reykjavíkurborg á raunverulega í Landsvirkjun. Á hún bara sína prósentutölu af áætluðu markaðsvirði fyrirtækisins eða ber að taka tillit til þess að eigið fé fyrirtækisins er fyrst og fremst byggt upp af viðskiptamönnum þess? Framlög Reykjavíkurborgar eru sáralítil. Eiginfjárframlög Reykjavíkurborgar eru nánast hverfandi í þessum fjárhæðum. Stærstur hluti eiginfjármyndunar hefur verið með viðskiptum við viðskiptavinina annars vegar og hins vegar með framlögum úr mótvirðissjóði sem var byggður upp með Marshall-aðstoð Bandaríkjamanna og má deila um það hvort Reykvíkingar eigi það eigið fé eða hvort það sé eign þjóðarinnar.