Raforkulög

Föstudaginn 28. maí 2004, kl. 11:22:19 (9350)

2004-05-28 11:22:19# 130. lþ. 130.27 fundur 740. mál: #A raforkulög# (flutningur raforku, gjaldskrár o.fl.) frv. 89/2004, SJS
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 130. lþ.

[11:22]

Steingrímur J. Sigfússon:

Frú forseti. Ég er nú satt best að segja nokkuð hissa á þessari síðustu ræðu hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar og ég veit ekki hverjum hún var ætluð. Hann nefndi mig að vísu alloft á nafn í ræðu sinni en ég hafði það ekki á tilfinningunni að ég hefði gefið tilefni til ræðuhalda af þessu tagi og allra síst hér við þær aðstæður að ég vissi ekki betur en væri verið að reyna að ljúka umræðum um þetta mál á afmörkuðum tíma.

Ef hv. þm. má vera að því að hlusta, hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson lagði hér sérstaka lykkju á leið sína til þess að vanda um við mig vegna málflutnings míns og viðhafði þar ýmis orð --- sem ég vísa algjörlega til föðurhúsanna --- af því tagi að ég hafi verið með málflutningi mínum hér og með því að lýsa afstöðu minni til þessa máls að sá tortryggni, valda mönnum einhverju öryggisleysi, grafa undan málinu. Síðan var talað eins og það hefði verið einhver málflutningur hér uppi um að allt ætti að vera óbreytt og menn gætu lifað einangraðir í sinni heimasveit og notað þumlunga og tommur og ég veit ekki hvað og hvað.

Allt svo, ég bið hv. þm. bara að gjöra svo vel að hætta þessu. Ég gaf engin tilefni til þess. Þó að ég sé andvígur markaðs- og einkavæðingu af þessu tagi á almannaþjónustu þá hefur hv. þm. engin efni til þess að vera með slíkar lummur sem hv. þm. var hér með. Og þó að ég hafi notað orðið ,,móverk`` um þetta fyrirbæri, frú forseti, þá á hv. þm. ekki að lesa út úr því einhvern altækan tímamælikvarða eða eitthvað í þeim dúr. Veit hv. þm. ekki hvað orðið ,,móverk`` þýðir á íslensku? Er það orðið of gamalt orð fyrir hv. þm. til þess að það megi nota það?

Orðið ,,móverk``, miðað við þann skilning sem ég legg í það, er einhvers konar hrúgald, eitthvert fyrirbæri úr lélegum byggingarefnum. Og ég held því fram að þetta sem hér er verið að gera sé einmitt hrúgald af því tagi úr lélegum byggingarefnum því að þetta er illa unnið og er mikil samsuða, eins og hv. þm. veit vel, og margir lausir endar í þessu máli. Sú málsvörn að menn megi ekki tala út frá því sem við þeim blasir og því sem fram undan er, heldur eigi menn bara að lifa í hinni góðu trú að þetta muni allt blessast og að til séu úrræði sem grípa megi til ef illa fari og menn keyri út af, og eftir sex ár megi menn koma hér og ræða um það hvernig til hafi tekist, sem sagt einhvers konar svona tilraunaleiðangur.

Þá segi ég við hv. þm.: Ja, öðruvísi mér áður brá. Ég hélt að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson vildi vera maður þeirrar gerðar að hann spyrði grundvallarspurninganna áður en lagt er upp í ferðalag, áður en farið er í leiðangur: Er það í þessa átt sem við viljum fara? Er það þetta sem við viljum gera eða eitthvað annað? Viljum við kannski að einhverju leyti hafa annað grundvallarskipulag á hlutunum en þetta?

Nú er það auðvitað hið besta mál ef hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson ásamt flokkssystkinum sínum í Framsfl. er orðinn það mikill markaðs- og einkavæðingarsinni að hann er sáttur við það að undirbúa einkavæðingu með markaðsvæðingu íslenska raforkukerfisins, þá er það bara gott. Þá erum við þingmaður í grundvallaratriðum ósammála og við það skal þá sitja og standa.

Nú er það þannig að ég hef alveg sérstaklega góða stöðu til þess að vísa til föðurhúsanna þessum ummælum hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar vegna þess að ég á það hér á prenti, frú forseti, í þingtíðindunum og í formi þingmála frá umliðnum árum að ég hef margoft tekið hér upp í ræðu og tillögum þörfina á því að gera breytingar á grundvallarfyrirkomulagi raforkumála í landinu. Það skipulag sem við höfum búið við undanfarin ár og reyndar nokkra áratugi hefur alls ekki verið gott. Það hefur verið sérstaklega óhagstætt hinum dreifðu og afskekktu byggðum landsins. Það hefði verið meiri manndómur í því að ráðast í að gera þar grundvallarbreytingar á heldur en að fara að troða inn þessari evrópsku tilskipun og markaðsvæða raforkukerfið. Ég hef t.d. oft á umliðnum árum nefnt þörfina á því að stokka upp verkaskiptingu og skipulag Rafmagnsveitna ríkisins og Landsvirkjunar og taka landshlutana og sveitarfélögin inn í þá mynd, t.d. þannig að Rarik yrði eftir atvikum skipt upp, framleiðsluþátturinn sameinaður, það sem eftir er af honum sameinað Landsvirkjun eða einu framleiðslufyrirtæki en vinnslan og dreifingin í landshlutunum færð í hendur svæðisbundinna, landshlutabundinna orkufyrirtækja. Ég held að það hefði verið miklu vænlegra skipulag og við hefðum fyrir löngu átt að reyna að leita þeirra leiða.

Ég held að í Orkubúi Vestfjarða hafi verið hið besta fyrirkomulag og hefði það fengið að vera í friði, en Vestfirðingar ekki hraktir til þess að selja það af höndum sér, þá hefðu þeir áfram getað notið góðs af því að eiga sitt fyrirtæki sem var að færa þeim lægra raforkuverð en öðrum, framleiddi talsverðan hluta eigin notkunar sjálft og dreifði um eigið kerfi. Betur að sama fyrirkomulag hefði komist á t.d. fyrir norðan og austan þannig að menn hefðu átt öflug svæðisbundin fyrirtæki, því efniviðurinn er til, ef rétt hefði verið að málum staðið. Tökum dreififyrirtæki Akureyringa og Húsvíkinga, tökum eignir Rariks í þeim landshluta og búum til úr því öflugt svæðisbundið fyrirtæki sem hefði bæði framleiðslu og dreifingu þar á sínum höndum.

Það sem ég er að tala hér fyrir er það að við gerum breytingarnar á okkar forsendum og eins og við viljum hafa þær sjálf en þeim sé ekki troðið upp á okkur af formúlum frá Evrópu sem eru miðaðar við samkeppnismarkaði á heilu meginlandi þar sem búa hundruð milljóna manna. Það ætti ekki að þurfa að útskýra það fyrir hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni að það geta verið efnisleg rök, sem eru engin forneskja, sem eru ekkert gamaldags, að horfast í augu við það að veruleikinn er öðruvísi á norðausturhorni landsins og á Vestfjörðum heldur en í þríhyrningnum inni í Evrópu þar sem menn eru að selja rafmagn yfir landamæri Lúxemborgar, Belgíu eða Hollands eða hvar það nú er.

Já, varðandi hækkun á raforkuverði þá segi ég einfaldlega þetta: Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson veit það vel að það komu fram hjá gestum sem komu til nefndarinnar og eru engir aukvisar á þessu sviði, eins og forstjóri Landsvirkjunar og margir fleiri, mjög rökstudd sjónarmið um það að þetta muni leiða til hækkunar raforkuverðs. Það liggur fyrir, við erum með það í pappírum, það kom fram í máli gesta, þannig að hv. þm. verður auðvitað að horfast í augu við það, hvað sem verður, reynslan ein mun skera úr um það. En rökstudd sjónarmið manna sem er ástæða til þess að taka mark á liggja fyrir um þetta.

Að síðustu um dreifikerfið og afhendingaröryggið. Hv. þm. segir og það er rétt: Það er ekki ástæða til að óttast að þetta hrynji allt saman bara í hvelli og við förum að fá á okkur rafmagnsleysi og óáran eins og gerst hefur sums staðar í nágrannalöndunum þar sem menn eru komnir lengra inn á þessa götu. Af hverju er það? Jú, það er auðvitað af því að fyrstu árin munum við njóta þess tiltölulega vel uppbyggða og vel rekna dreifikerfis sem er til staðar í landinu, það gufar auðvitað ekki upp. Það mun væntanlega endast, þó að það fái ekki mikið viðhald, um eitthvert árabil. Það er lengra inn í framtíðina sem við erum að velta fyrir okkur hvernig staðan verður.

Það er mörgum spurningum ósvarað um það hver staða manna verður, bæði þeirra sem lenda innan Landsnetskerfisins, eru með dreifikerfið í 66 kV og meira en ekki síður hinna sem lenda utan við það.

Ég ætla að nefna eitt dæmi fyrir hv. þm. til að hugsa aðeins um. Það var byggð lína frá Kópaskeri að Brúarlandi í Þistilfirði til að færa rafmagn í austanverða Norður-Þingeyjarsýslu og áfram austur til Bakkafjarðar. Rarik byggði þessa línu. Þetta var lína sem lá skáhallt frá Kópaskeri, um Stíg eða Hólaheiði suður á Öxarfjarðarheiði, um Einarsskarð og niður í Þistilfjörð. Hún lá skáhallt og þvert á norðaustanáttina.

Hver varð útkoman? Þessi lína reyndist geysilega dýr og erfið í viðhaldi og ísingar slitu hana niður aftur og aftur, vegna þess að þarna var um að ræða veðrasamt svæði sem lá alveg þvert á óhagstæðustu vindátt og mestu ísingarátt. Eftir um það bil 15 ár, 15 ára barning við að halda uppi þessari línu, hvað gerðu menn þá? Menn lögðu jarðstreng, grófu streng alla þessa löngu leið, frá Kópaskeri og að Brúarlandi í Þistilfirði. Síðan hafa menn búið við nokkuð gott, nánast fullkomið afhendingaröryggi á raforku á þessu svæði, sem er geysilega dýrmætt, þannig að hvorki atvinnulíf né heimili þurfa að sæta því sem áður var að missa alveg rafmagnið eða búa við rafmagnsskömmtun þegar eingöngu var varaafl til staðar á svæðinu.

Ég spyr: Er hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson öruggur um það að markaðsvætt fyrirtæki hefði lagt í þennan mikla kostnað til að tryggja afhendingaröryggi fyrir svona lítinn markað með arðsemiskröfurnar á herðunum, samkeppnissjónarmiðin og þá hugsun að kannski sé nú meira virði að fjárfesta þar sem markaðurinn er stærstur? Hefur hv. þm. aldrei velt því fyrir sér að það sé kannski ekki sjálfgefið að menn muni með sama hugarfari jafnvel leggja í miklar fjárfestingar fyrir lítil viðskipti í þessu nýja framtíðarlandi hans? Ég er ekki viss um það.

Og hver verður staða þeirra sem lenda á svæðum dreifikerfis sem liggur undir 66 kV? Verður það kannski þannig að byggðakjarni eins og Kópasker, sem er á slíkum enda, búi við allt aðra stöðu heldur en Raufarhöfn, Þórshöfn og Bakkafjörður sem lenda inni í hinu kerfinu? Þetta eru alveg gildar spurningar, hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, og það er sko ekkert að því að þeim sé velt upp hér. Ég veit ekki hvers konar teboðsumræður eiga að verða um þessi mál ef það má ekki nefna þessa hluti, og menn eru þá orðnir viðkvæmir ef það er orðið að sá einhverri óskaplegri tortryggni, efasemdum, grafa undan o.s.frv., eins og hv. þm. tók sér í munn hér áðan. Ég mótmæli þessum málflutningi hv. þm. í seinni ræðu hans og mér finnst hann ekki hafa lagt mikið af mörkum til þess að menn eigi hér svona sæmilega málefnaleg og uppbyggileg orðaskipti við þær knöppu aðstæður sem okkur eru skammtaðar.