Landsnet hf.

Föstudaginn 28. maí 2004, kl. 11:38:17 (9353)

2004-05-28 11:38:17# 130. lþ. 130.28 fundur 737. mál: #A Landsnet hf.# frv. 75/2004, Frsm. KHG
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 130. lþ.

[11:38]

Frsm. iðnn. (Kristinn H. Gunnarsson):

Frú forseti. Iðnn. fékk til umfjöllunar frv. til laga um stofnun Landsnets, sem gerir ráð fyrir að ríkið hafi forgöngu um að stofna hlutafélag sem annist raforkuflutning og kerfisstjórnun samkvæmt ákvæðum III. kafla raforkulaga sem sett voru á síðasta ári. Í frv. er síðan nánar tilgreint hvernig skuli staðið að því, hverjir verði eigendur og annað sem máli skiptir.

Iðnn. hefur lokið athugun á þessu frv. og skilað af sér svofelldu nál., með leyfi forseta:

,,Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund gesti sem tilgreindir eru í nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003 (þskj. 1690 -- 740. mál). Umsagnaraðilar eru í aðalatriðum þeir sömu og þar greinir. Málin voru unnin samhliða frumvarpi til laga um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku (747. mál).

Með frumvarpinu er lagt til að stofnað verði hlutafélag til að annast raforkuflutning og kerfisstjórnun samkvæmt ákvæðum III. kafla raforkulaga sem verði að fullu í eigu ríkisins með þriggja manna stjórn sem iðnaðarráðherra skipar. Félagið taki við rekstri flutningsvirkja og eignum sem lagðar verða til þess og þegar endanlegt mat þeirra liggur fyrir verði þeim sem leggja eignirnar til heimilt að endurgreiða hlut ríkisins.

Nefndin vísar til umfjöllunar í nefndaráliti iðnaðarnefndar um frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum og frumvarp til laga um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku og til þeirra breytinga sem nefndin leggur til á þeim.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.``

Undir nál. rita Kristinn H. Gunnarsson, Einar Oddur Kristjánsson, Kjartan Ólafsson, Kristján L. Möller, Einar Karl Haraldsson, Sigurjón Þórðarson, með fyrirvara, Guðlaugur Þór Þórðarson, Guðmundur Hallvarðsson, Björgvin G. Sigurðsson.