Jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku

Föstudaginn 28. maí 2004, kl. 12:08:52 (9359)

2004-05-28 12:08:52# 130. lþ. 130.29 fundur 747. mál: #A jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku# frv. 98/2004, SigurjÞ
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 130. lþ.

[12:08]

Sigurjón Þórðarson:

Frú forseti. Ég er á þessu nefndaráliti án fyrirvara m.a. vegna þess að ég tel breytingarnar á frv. hafa verið mjög til góðs.

Hvað varðar tillögur Vinstri grænna þá hef ég ekki kynnt mér þær náið en þær eru eflaust ágætar, þó tel ég þær vera svona fljótt á litið ekki nægjanlega einfaldar til þess að maður geti samþykkt þær einn, tveir og þrír.

Það eru ýmsar aðrar leiðir til að jafna orkuna. Það má sjá þá þróun að Orkuveita Reykjavíkur er alltaf að teygja sig lengra og lengra út á land og landsmenn hinna dreifðu byggða þar sem Orkuveita Reykjavíkur kaupir dreifiveitur virðast njóta þess í einhverjum mæli. Það mætti þess vegna hugsa sér að Orkuveitan teygði sig víðar um landið og eignaðist nær allar dreifiveiturnar og það væri í rauninni ekkert sem mælti á móti því þar sem hér er um að ræða einokunarstarfsemi og þá gætu landsmenn allir búið við sambærilegan kostnað vegna dreifingar orku.

Hvað varðar jöfnun á raforkukostnaði með því að tefla fram sjónarmiðum landsbyggðarinnar gegn höfuðborgarsvæðinu og búa til einhverja slíka póla þá er ég algjörlega á móti því. Ég held að menn ættu að horfa til þess að um er að ræða um sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar og það ætti að vera sameiginlegt markmið sem flestra að fólk fengi að njóta þeirra á sambærilegu verði.

Einnig verður að líta til byggðasjónarmiða. Það er ein af forsendum þess að fyrirtæki njóti sambærilegrar samkeppnisaðstöðu að þau greiði fyrir orkuna sambærilegt verð. Það er einfaldlega svo að orkan sem fyrirtæki á landsbyggðinni greiða er allt að 30% dýrari og það tekur í og rýrir samkeppnisstöðu fyrirtækjanna og er einn af þeim þáttum sem valda því að rekstrarskilyrði fyrirtækja eru ekki sambærileg og á höfuðborgarsvæðinu. Það ætti því að vera mjög jákvætt og kappsmál sem flestra á hinu háa Alþingi að jafna þann kostnað og vera liður í byggðastefnu og ein af almennum aðgerðum að halda þessari jöfnun á raforkukostnaði sem mestri og verja til þess ákveðnu fjármagni.

Ég ætla ekki að lengja umræðuna mikið meira og læt lokið máli mínu.