Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins

Föstudaginn 28. maí 2004, kl. 13:17:31 (9372)

2004-05-28 13:17:31# 130. lþ. 130.32 fundur 881. mál: #A Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins# (Stofnsjóður, framtakssjóðir) frv. 92/2004, BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 130. lþ.

[13:17]

Björgvin G. Sigurðsson:

Virðulegi forseti. Hér er ágætt og merkilegt mál á ferðinni sem hefði verið gaman að hafa tíma til að fara svolítið yfir en við höfum sett okkur knöpp tímamörk um að ljúka málinu fyrir atkvæðagreiðslu eftir nokkrar mínútur þannig að ég ætla að stikla á því allra stærsta í afstöðu minni.

Við fórum ágætlega í gegnum málið í iðnn. og fengum á okkar fund Svein Þorgrímsson og Gunnar Örn Gunnarsson sem við fengum hjá ágætar upplýsingar um hvað liggur þessum hugmyndum til grundvallar og eins hvort almennt sé þörf á slíkum sjóði, hvort hið opinbera þurfi að halda úti Nýsköpunarsjóði til að fjárfesta í frumfjárfestingum hvers konar og hver staðan er eftir fjárfestingar síðustu ára og kom þar margt athyglisvert í ljós. Fullyrti Gunnar Örn Gunnarsson, framkvæmdastjóri sjóðsins, t.d. að um byltingu hefði verið að ræða með tilkomu sjóðsins þar sem þeir hefðu fjárfest í um 100 fyrirtækjum á síðustu fjórum árum og af þeim lifðu nú um 70. Spurður út í eðlilega þróun slíkra nýsköpunarfjárfestinga gaf hann þær upplýsingar að þumalputtareglan væri sú að af hverjum 100 færu 60 á hausinn á næstu sex til átta árum, 40 stæðu eftir og af þeim yrðu fjögur til sex nokkurs konar stjörnur, eins og hann orðaði það, skiluðu arði og yrðu að stórum og öflugum fyrirtækjum. Það er náttúrlega ekki komin reynsla á þetta enn þá, það vantar þrjú, fjögur eða fimm ár upp á að hægt sé að sjá þróun mála hjá Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins, hvort hann standist þetta, en allt bendir til þess að svo verði.

Eftir að netbylgjan gekk yfir og bakslag kom í þau mál öll hefur dregið mjög úr almennum nýsköpunarfjárfestingum hefðbundinna fyrirtækja og stórfyrirtækja og því mjög brýn þörf á því að mati þessara sérfræðinga að slíkur opinber nýsköpunarsjóður sé til staðar. Annars verði ekki um fjárfestingu í slíkum frumgreinum að ræða. Taldi Gunnar Örn að það þyrfti um milljarð á ári til að spila inn í slíka nýsköpunarstarfsemi auk þess sem kemur úr einkageiranum sem var að skilja að væri ekki of mikið.

Til samanburðar komu þær upplýsingar fram í nefndinni að 60% af slíkum frumfjárfestingum í Bandaríkjunum kæmu frá opinberum aðilum og stór hluti fyrirtækja sem komast á markað kæmi úr þeim geira. En það tekur tíu ár að sjá fyrir endann á því hvernig þeim málum verður háttað hérna. Því þyrftu þær breytingar að ganga eftir sem hér er gerð grein fyrir og hv. flutningsmaður gerði grein fyrir áðan. Það styður þetta að aðilar atvinnulífsins, bæði Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins, styðja breytingarnar á frv. og þar með tilvist Nýsköpunarsjóðsins, styðja tilvist opinbers sjóðs með þessum hætti, og hefði verið gaman að taka þessa umræðu í samhengi við hlutverk annarra opinberra fjárfestingarsjóða eins og Byggðastofnunar o.fl. Var það rætt í nefndinni og var það mál manna að hlutverk þeirra væri svo gjörólíkt að þeir þyrftu að vera aðskildir, enda væri hlutverk þessa sjóðs fyrst og fremst að standa við bakið á hvers kyns nýsköpun hvar sem væri á landinu en ekki með sérstökum byggðatengdum aðgerðum.

Samtök atvinnulífsins segja t.d., með leyfi forseta:

,,Samtök atvinnulífsins styðja frumvarpið enda afar mikilvægt að Nýsköpunarsjóður hafi bolmagn til að styðja við frumkvæði þeirra sem hrinda af stað atvinnurekstri, ekki síst í ljósi þess að fjölbreyttari atvinnustarfsemi eykur almennt möguleika atvinnulífsins til að vaxa.

Samtök atvinnulífsins vilja minna á sérstöðu þessa sjóðs vegna tilurðar hans og þess forræðis sem atvinnulífinu ber að hafa um málefni hans.``

Í umsögn frá ASÍ segir m.a., með leyfi forseta:

,,Eins og fram kemur í athugasemdum með frumvarpinu miða breytingarnar sem lagðar eru til að því að gera Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins kleift að sinna hlutverki sínu til hagsbóta fyrir frumkvöðla og nýsköpunarfyrirtæki. Annars vegar með því að bæta eiginfjárstöðu Nýsköpunarsjóðs. Hins vegar með því að heimila Nýsköpunarsjóði að leggja fé í framtakssjóði með öðrum sjóðum og skapa þannig aukið fjármagn til nýrra fjárfestinga.

Alþýðusamband Íslands styður framangreind markmið frumvarpsins og leggur til að það verði samþykkt.``

Eftir umræður og vinnu í hv. iðnn. er ég þess fullviss að við þurfum enn um sinn a.m.k. á slíkum opinberum sjóði að halda, nýsköpunarsjóði sem hið opinbera stendur að, þó svo að það sé freistandi tilhugsun að komast á þá skoðun að einkageirinn og einkaaðilar ættu að standa í slíkum fjárfestingum og væru til þess bærir og þaðan kæmi nægilegt fjármagn til að standa við bakið á nýsköpun í landinu, en samkvæmt þeim upplýsingum sem fram komu í nefndinni er svo alls ekki og fer raunar víðs fjarri.

Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson spurði Gunnar Örn sérstaklega að þessu á þeim fundi nefndarinnar sem síðast var fjallað um málið, minnir mig, og einum fundi þar áður. Kom þá fram að að hans mati væru stóru og öflugu fyrirtækin, Baugur og hvað þau öll heita, ekki að sinna því hlutverki. Þau væru ekki að fjárfesta í nýsköpun og því væri mjög brýn þörf á þessum sjóði. En það hefði verið gaman, virðulegi forseti, ef við hefðum haft rýmri tíma til að rökræða þetta því að ég veit að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson hefur sjálfsagt önnur sjónarmið sem hann mun viðra á eftir og hefði verið gaman að skiptast á skoðunum við hann. Sjálfur var ég ekkert fráhverfur því að það væri freistandi að draga hið opinbera út úr slíkum umsvifum sem nýsköpun er með þessum hætti. En eftir umfjöllun í nefndinni er ég þess fullviss að hið opinbera þarf að sinna þessu hlutverki a.m.k. enn um sinn og áfram og því séu lagabreytingarnar nauðsynlegar. Því styðjum við þær, fulltrúar Samf. í iðnn., án nokkurs fyrirvara og teljum að þörf sé á slíkum sjóði. Sjóðurinn þurfi að fá þær heimildir og ganga í gegnum þær breytingar sem hér eru lagðar til þannig að hann geti sinnt þessu hlutverki sínu áfram. En það er a.m.k. svo sannarlega umræðunnar virði --- og ég hlakka til að heyra sjónarmið þingmannsins sem ég nefndi áðan en hann undirritaði málið með fyrirvara og mun sjálfsagt gera grein fyrir honum á eftir --- af því að þetta er mjög brýnt mál og mikilvægt að nýsköpunarfjárfestingum sé sinnt með myndarbrag og að ekki sé þurrð á slíku fjármagni, enda stæði það atvinnulífi okkar og uppbyggingu þess verulega fyrir þrifum ef ekki væri verið að fjárfesta í slíkum sprotum með áhættufjármagni, þolinmóðu áhættufjármagni sem lagt væri inn í fyrirtæki í því augnamiði.

Þetta er því eitt af þeim mikilvægu málum sem hefði verið skemmtilegt að ræða í betra tómi í þinginu en ég ætla að hleypa næsta ræðumanni að og heyra sjónarmið hans í málinu.