Meðferð opinberra mála

Föstudaginn 28. maí 2004, kl. 13:45:14 (9374)

2004-05-28 13:45:14# 130. lþ. 130.1 fundur 871. mál: #A meðferð opinberra mála# (rannsóknargögn, símhlerun o.fl.) frv. 86/2004, BH (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 130. lþ.

[13:45]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Virðulegur forseti. Í upprunalegri mynd var málið algjörlega óásættanlegt. Þá fólust m.a. í því hugmyndir um að heimila símhleranir án dómsúrskurðar. Eins var gert ráð fyrir að gögnum mætti halda ótímabundið frá verjanda ef rannsóknarhagsmunir krefðust þess.

Ekki var nægilega vandað til undirbúnings málsins í upphafi, t.d. ekki haft samráð við réttarfarsnefnd sem hefur þó á að skipa okkar færustu sérfræðingum á sviði réttarfars. Þá voru tillögurnar illa rökstuddar, sem verður að teljast óviðunandi í ljósi þess hversu miklu þær gátu varðað fyrir hagsmuni og réttindi borgaranna.

Breytingartillögur meiri hlutans eru allar til bóta en í ljósi þess að þær fengu ekki allar ítarlega yfirferð í hv. allshn. og í ljósi slæmra vinnubragða við undirbúning málsins mun Samf. sitja hjá við atkvæðagreiðslu um frv. og allar brtt. meiri hlutans.