Ábúðarlög

Föstudaginn 28. maí 2004, kl. 14:20:45 (9383)

2004-05-28 14:20:45# 130. lþ. 130.8 fundur 782. mál: #A ábúðarlög# (heildarlög) frv. 80/2004, DrH (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 130. lþ.

[14:20]

Drífa Hjartardóttir (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Með frv. þessu er stefnt að því að færa löggjöf um jarðir í nútímahorf og samræma eignarrétt og umsýslu jarða eins og unnt er þeim meginreglum sem gilda um aðrar fasteignir í íslenskri löggjöf. Meiri hlutinn leggur til nokkrar breytingar sem hann telur samræmast vel markmiðum frv. en ganga lengra í frjálsræðisátt. Of miklar hömlur á samningsfrelsi einstaklinga, sem er meginregla í íslenskum rétti, geta komið í veg fyrir að jarðir séu nýttar eins og hægt er. Því leggur meiri hlutinn til breytingu á 10. gr. frv. þess efnis að jarðeigendum og ábúendum verði í sjálfsvald sett hvernig þeir semja sín á milli um nýtingu á jörð eða réttindum sem henni fylgja. Þannig geti eigandi undanskilið frá leigu ákveðin réttindi, svo sem réttindi til beitar, veiði eða nýtingar æðardúns. Meiri hlutinn telur að sú tilhögun auki líkur á því að sem flestar jarðir haldist í ábúð og séu nýttar eins og kostur er. Jarðeigandi getur haft þá sérþekkingu sem þarf til að nýta hlunnindi en ábúandi ekki. Þess vegna þykir rétt að þeir geti samið sín á milli um nýtingu einstakra réttinda.

Meiri hlutinn leggur þó áherslu á að með þessu er ekki verið að undanskilja réttindi frá jörð heldur einungis gert ráð fyrir samningi um nýtingu á þeim.