Jarðalög

Föstudaginn 28. maí 2004, kl. 14:28:10 (9386)

2004-05-28 14:28:10# 130. lþ. 130.9 fundur 783. mál: #A jarðalög# (heildarlög) frv. 81/2004, JBjarn (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 130. lþ.

[14:28]

Jón Bjarnason (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Sjónarmið um meðferð lands og landgæða hafa breyst mjög á síðari árum og á allra síðustu tímum og nú eru gerðar mun ríkari kröfur um meðferð, vörslu og nýtingu lands og landgæða og að þau lúti lögmálum um sjálfbæra þróun. Hafa íslensk stjórnvöld undirgengist alþjóðlega sáttmála sem kveða á um þá stefnumörkun auk eigin yfirlýsinga í þá veru. Telja verður því eðlilegt og sjálfsagt að í markmiðskafla þessara laga verði kveðið á um að meðferð og landnýting lúti lögmálum og kröfum um sjálfbæra nýtingu auðlindanna. Það skortir algjörlega og hvergi er minnst á þann þátt í þessu frv. til jarðalaga en væri þó ærin ástæða til.

Það má benda á að nú standa fyrir dyrum grundvallarbreytingar á stuðningskerfi stjórnvalda við landbúnað, vörslu, meðferð og nýtingu landgæða, búsetu og félagsauð í dreifbýli landsins. Mun sú þróun væntanlega verða sú að horfið verði frá framleiðslutengdum stuðningi til stuðnings við félagslega og náttúrulega grunnþætti landbúnaðar ásamt lögmálum um verndun gæðanna og sjálfbæra nýtingu þeirra.

Þetta sjónarmið fær afar litla eða enga stoð í þessu lagafrv. Breytingar í þá átt geta gjörbreytt afstöðu til lagaumgerðar um meðferð og ráðstöfun lands og landgæða.

Frú forseti. Réttur sveitarfélaganna til að grípa inn í ráðstöfun lands og meðferð þess er skertur verulega í þessu frv. frá því sem áður hefur verið. Eitt einkenni frv. er að rýmka um öll ákvæði sem lúta að því að taka land og landbúnað úr notum og stuðla að svokölluðu frelsi í viðskiptum með land og náttúruauðlindir og litið er á jarðeignir sem forgengilega hluti eins og hús og bíla.

Minni hlutinn er andvígur þessari nálgun. Land og landgæði eru í sjálfu sér félagsleg eign framtíðarinnar. Við erum gestir á hótel jörð, eins og Tómas Guðmundsson kvað, og yrði það varla vel séð að hótelgestir hefðu mjög frjálsar hendur um nýtingu og meðferð eða sölu herbergisins meðan þeir gistu þar.

Meiri hluti landb. leggur til umfangsmiklar breytingar á frv. til ábúðarlaga og frv. til jarðalaga en minni hlutinn bendir á að frumvörpin hafa verið mjög skamman tíma til umræðu í landbn. Áhrif þeirra breytinga sem frumvörpin geta haft í för með sér hafa ekki verið könnuð til hlítar og ekki hefur verið tekið tillit til athugasemda umsagnaraðila svo sem Bændasamtakanna, þjóðkirkjunnar og margra sveitarfélaga.

Á grundvelli þessa leggur minni hlutinn til að málunum verði vísað frá, þau unnin betur og vísað til ríkisstjórnarinnar og hún annist það að þau verði unnin betur fyrir næsta reglulega þing. Verði ekki samþykkt að vísa málinu frá, frú forseti, munu þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs sitja hjá við atkvæðagreiðslu um tillögurnar sem frv. hefur að geyma.