Áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára

Föstudaginn 28. maí 2004, kl. 15:51:23 (9402)

2004-05-28 15:51:23# 130. lþ. 130.35 fundur 873. mál: #A áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára# þál. 29/130, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 130. lþ.

[15:51]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Það verða engar frekari breytingar á áætlun í jafnréttismálum sem hér liggur fyrir. En ég tek undir það með hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að grannt verður fylgst með því að áætluninni verði framfylgt. Hún er gerð samkvæmt lögum frá árinu 2000, um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla. Þar er kveðið á um að félmrh. beri að gangast fyrir áætlun af þessu tagi til fjögurra ára í senn.

Tillagan hefur tekið nokkrum breytingum frá því að hún kom fyrst fram. Ágætt samstarf tókst með stjórn og stjórnarandstöðu um það efni. Stjórnarandstaðan vildi ganga lengra á ýmsum sviðum. Hér eru skjalfestar í umsögnum minni hluta í nefndum þingsins þær áherslur sem stjórnarandstaðan hefði viljað sjá í áætluninni.

Hið jákvæða við þessa áætlun er að reynt skuli að setja tímamörk og koma henni í markvissan farveg. Ef þeim áformum sem hér er að finna verður framfylgt þá væri það gott. Það hefur nefnilega verið þannig á undanförnum árum að gefin hafa verið fyrirheit, t.d. um kjarakannanir hjá hinu opinbera, sem síðan hafa ekki verið uppfyllt.

Ég ætla ekki að reifa það sem er að finna í þessum gögnum. Ég vona að tillögur stjórnarandstöðunnar eigi eftir að verða efniviður, ekki aðeins stjórnarandstöðu heldur einnig stjórnarmeirihluta og ríkisstjórn á næstu árum.

En ég geri það að lokaorðum mínum að taka undir yfirlýsingu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur um að við munum fylgjast mjög vel með því að jafnréttisáætluninni verði framfylgt.