2004-05-28 15:58:33# 130. lþ. 131.92 fundur 616#B skýrsla um áhrif hvalveiða á ímynd Íslands sem ferðamannalands og svar við fyrirspurn um hrefnuveiðar# (aths. um störf þingsins), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur, 130. lþ.

[15:58]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Það er kannski ágætt að ég hafi fengið orðið á undan hæstv. ráðherra. Mig langar að bæta svolitlu við það sem hv. þm. Mörður Árnason ræddi um.

Ég fékk svar frá hæstv. ráðherra við fyrirspurn um hrefnuveiðar. Þá fyrirspurn bar ég fram 6. desember í fyrra og svarið kom fyrir þingið fyrir nokkrum dögum. Til svarsins hefur örugglega verið vandað því að langur tími var í það tekinn. Þar kemur fram að við hrefnuveiðar sem stundaðar voru í vísindaskyni árið 2003 féllu til 35 tonn af kjöti og 4 tonn af rengi. Þar kemur fram að enn séu óseld 23 tonn af kjöti og 900 kg af rengi. Það er greinilegt að ársneyslan eða sú neysla á kjöti frá því að veiðar hófust eða sala var hafin er um það bil 12 tonn.

Mér finnst ástæða til þess að spyrja hæstv. ráðherra hvað hann hyggist fyrir, þegar og ef hrefnuveiðar verða leyfðar í vor, varðandi það að koma þessu kjöti á markað. Telur hann raunhæft að Íslendingar veiði meira af hrefnu en gert var í fyrra? Hvað hefur verið kannað varðandi það að koma þessum afurðum á einhvers konar markað? Þetta hlýtur að vera mjög mikilvægt atriði eigi veiðar á hrefnu að eiga einhverja framtíð á Íslandi.