2004-05-28 16:07:14# 130. lþ. 131.92 fundur 616#B skýrsla um áhrif hvalveiða á ímynd Íslands sem ferðamannalands og svar við fyrirspurn um hrefnuveiðar# (aths. um störf þingsins), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur, 130. lþ.

[16:07]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Þegar ég óskaði eftir þessum svörum hæstv. ráðherra í desember í fyrra þá taldi nauðsynlegt að hafa þær upplýsingar þegar til umræðu kæmu hvalveiðar sem líklega yrðu leyfðar á árinu sem nú er hafið. Ég stóð alltaf í þeirri meiningu að hæstv. ráðherra mundi með einhverjum hætti gefa til kynna hvernig yrði staðið að fyrirhuguðum vísindaveiðum ársins áður en Alþingi lyki störfum. En það hefur ekki gerst.

Hæstv. ráðherra er enn svarafár um fyrirætlanir sínar en vísar til samþykktar Alþingis um að í hvalveiðar skuli farið. Það er hins vegar full ástæða til að Alþingi, sem ber ábyrgð á þeirri ályktun, fái upplýsingar um framgang mála. Nú liggur t.d. fyrir að mjög lítil neysla er á hvalkjöti og við það vakna spurningar um með hvaða hætti veiðarnar verði fjármagnaðar á þessu ári fari þær í gang. Ég geri ekki ráð fyrir því að þeir sem hafa tekið þátt í þessum veiðum séu tilbúnir að sitja uppi með kjötið af dýrunum.

Þá er komið að hinu, að ef veiðarnar eiga að halda áfram þurfi ríkissjóður að bera kostnaðinn hvað þetta varðar. Mér finnst því full ástæða til að hæstv. ráðherra gerir þinginu grein fyrir því með hvaða hætti hann telur að hvalveiðar geti orðið í sumar og hvernig þær verði fjármagnaðar.