Veiðieftirlitsgjald

Föstudaginn 28. maí 2004, kl. 16:11:57 (9410)

2004-05-28 16:11:57# 130. lþ. 131.3 fundur 787. mál: #A veiðieftirlitsgjald# (afnám gjalds) frv. 62/2004, Frsm. meiri hluta GHj
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur, 130. lþ.

[16:11]

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Guðjón Hjörleifsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta sjútvn. um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 33 5. maí 2000, um veiðieftirlitsgjald, með síðari breytingum.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón B. Jónasson frá sjávarútvegsráðuneyti. Þá hafa nefndinni borist umsagnir frá Hafrannsóknastofnuninni, Samtökum uppboðsmarkaða, Byggðastofnun, Vélstjórafélagi Íslands, Félagi dagabátaeigenda, Alþýðusambandi Íslands, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Landssambandi íslenskra útvegsmanna og Landssambandi smábátaeigenda.

Í frumvarpinu er lagt til að veiðieftirlitsgjald falli niður frá 1. september næstkomandi. Einnig er lagt til að innheimt verði sama gjald fyrir flutning á sóknardögum milli skipa og innheimt er fyrir flutning á aflahlutdeild og krókaaflahlutdeild.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Undir nál. rita auk mín hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, Guðlaugur Þór Þórðarson, Guðjón A. Kristjánsson, Ísólfur Gylfi Pálmason, Guðjón Guðmundsson.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að loknum umræðum um frv. verði því vísað til 3. umr.