Umgengni um nytjastofna sjávar

Föstudaginn 28. maí 2004, kl. 16:21:35 (9413)

2004-05-28 16:21:35# 130. lþ. 131.4 fundur 875. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (landanir erlendis, undirmálsfiskur) frv. 65/2004, KHG
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur, 130. lþ.

[16:21]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Ég vil gera grein fyrir fyrirvaranum við stuðning minn við málið, þ.e. við undirskrift minni á nefndarálitinu. Ég vísa einkum til tveggja atriða til útskýringar á þeim fyrirvara. Annars vegar tengist það 1. gr. frv., þar sem ráðherra er heimilað með reglugerð að heimila löndun erlendis á afla úr stofnum sem veiddir eru í efnahagslögsögu Íslands, stofnum sem halda sig að hluta í efnahagslögsögunni, þ.e. svokölluðum flökkustofnum.

Ég vil árétta það sem fram kemur í nefndarálitinu, að meginreglan í 5. gr. er sú að öllum afla sem íslensk skip veiða úr stofnum sem að hluta eða öllu leyti halda sig í efnahagslögsögu Íslands skuli landað innan lands og hann veginn í innlendri höfn. Þannig hljóðar meginreglan sem við höfum sett í lögin um umgengni um nytjastofna sjávar. Hún byggist auðvitað á því sjónarmiði að ætlun löggjafans er að þessir stofnar séu veiddir og nýttir innan lands, bæði til atvinnusköpunar og verðmætasköpunar. Frávik frá þessari meginreglu hljóta því að þurfa að vera afmörkuð og tiltölulega þröng. Að öðrum kosti, ef 1. gr. er skilin mjög rúmt, væri stoðunum kippt undan þeirri meginreglu.

Ég vildi árétta þá afstöðu mína að menn eigi að fara varlega í að opna fyrir frávik frá meginreglunni. Í nefndarálitinu er frávikið skilgreint þannig að í sjálfu sér, ef lagabókstafnum verður framfylgt með þeim hætti sem um getur í nefndarálitinu, geri ég ekki ágreining um þá framkvæmd. Hins vegar gefur lagatextinn tilefni til að beita honum opnar en álit nefndarinnar kveður á um. Ég vildi því árétta að stuðningur minn byggist á þeirri túlkun en ekki rýmri túlkun en í álitinu. Þetta er fyrirvari við framkvæmdina en ekki andstaða.

Í öðru lagi hef ég fyrirvara við 2. gr. frv. Þar eru lagðar til breytingar á ákvæðum 9. gr. laganna sem kveða á um að heimilt sé að landa fiski undir tiltekinni stærð að hluta utan aflamarks. Í frv. er lagt til að breyta því þannig að það miðist við þyngd og ekki bara stærð. Ég er alveg sammála þeirri breytingu en hins vegar er líka lagt til að breyta gildandi ákvæðum á þann veg að ekki verði lengur skylt að halda þessum undirmálsafla aðgreindum frá öðrum afla og vigta sérstaklega. Um það hef ég efasemdir og fyrirvara. Hins vegar er það ekki andstaða fremur en í fyrra tilvikinu. Það ræðst af framkvæmd laganna, hvort ég telji að hún sé samkvæmt því sem ég get sætt mig við. Ég vildi árétta það, koma á framfæri þessum sjónarmiðum í báðum þessum tilvikum og útskýra hvers vegna sá fyrirvari væri sem ég setti undir nefndarálitið. Ég vona svo að framkvæmdin á næstu árum verði í samræmi við þann vilja sem ég hef sett fram í málinu.