Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 28. maí 2004, kl. 16:58:20 (9424)

2004-05-28 16:58:20# 130. lþ. 131.2 fundur 996. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar báta, krókaaflamark o.fl.) frv. 74/2004, JGunn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur, 130. lþ.

[16:58]

Jón Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Þetta voru skrýtin svör. Breytingartillagan um gildistökuna frá 26. maí til 28. maí er vegna þess að bátur lenti úti. Vita menn ekkert hvaða bátar hafa verið í þessu dagakerfi? Detta bátar allt í einu inn í þetta kannski svona á seinustu stigum? Hvernig í ósköpunum geta einhverjir bátar lent úti? Maður fer að efast um hvers konar skráningarkerfi er í gangi hjá sjávarútvegsráðuneytinu ef þetta er raunin. Maður hlýtur líka þá að spyrja sig að því: Bíddu við, getur það verið að það sé að koma einhver nýr bátur inn í kerfið? Hvað eru bátarnir margir núna? Eru þeir 292 eins og okkur hefur verið sagt hingað til, eða eru þeir 293? Er hægt að taka upp símann núna og hringja og panta breytingar og stækkun á bátum af því gildistíminn er ekki kominn? 26. maí átti að gilda. 28. maí gildir nú. Á að taka upp símann þá og panta breytingar? Hve margir bátar geta gert það á þessum tíma?

Þetta eru furðuleg svör og kannski í samræmi við það hvernig þetta mál hefur verið unnið. Það er verið að hlaupa á eftir hagsmunum einhverra ákveðinna aðila og breyta lögunum eftir því. Og meira að segja breytingartillögunum, sem er verið að leggja fram, er verið að breyta til að koma til móts við hagsmuni einhverra örfárra aðila og jafnvel eins báts eins og hér er sagt.

Það lenti bátur úti. Hann var ekki inni. Hvers konar skýringar eru þetta á breytingartillögum sem verið er að leggja fram hér á hinu háa Alþingi?