Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 28. maí 2004, kl. 17:54:53 (9431)

2004-05-28 17:54:53# 130. lþ. 131.2 fundur 996. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar báta, krókaaflamark o.fl.) frv. 74/2004, Frsm. minni hluta JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur, 130. lþ.

[17:54]

Frsm. minni hluta sjútvn. (Jóhann Ársælsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að væri ástæða til þess fyrir hv. þm. að láta reyna á þetta sem hann er að fullyrða hér, hvort það er meiri hluti fyrir þessu máli í sölum Alþingis. Það sýndi sig í vetur hvernig menn greiddu atkvæði. Mér heyrist á öllu að hv. þm. ætli ekki að taka þann möguleika og láta reyna á hann nú. Það virðist vera að honum hafi gjörsamlega brostið kjarkur í þessu máli og nú sé hann ákveðinn í því að tryggja framgang þessarar niðurstöðu. Þegar jafngildur kostur er boðinn á móti með okkar tillögu, þá ætlar hv. þm. greinilega að greiða atkvæði með tillögu meiri hluta sjútvn., eða sjútvrh. öllu heldur, því hún var nú náttúrlega samin af ráðuneytisstjóranum í samráði við sjávarútvegsráðherrann og troðið inn í nefndina með þeim hætti.

Ég held að menn eigi ekki að gefa sér eitt eða neitt í því, hver sannfæring manna er hvað þetta varðar. Ég spyr nú einfaldlega: Hvaða hagsmuna eru menn að gæta í þessu? Skiptir það ekki öllu máli hvað þessir bátar mega veiða mikið og að veiðinni sé stýrt? Skiptir það endilega öllu máli að færa þá yfir í kvótakerfið? Er það orðið aðalatriðið í þessu máli að þeir séu allir í kvótakerfi þar sem hægt er að kaupa og selja veiðiheimildir? Er það aðalatriði málsins? Við erum að bjóða hér upp á að það sé hægt að stjórna veiðunum með góðum reglum sem halda heildaraflanum í skorðum og hvers vegna skyldu menn þá vera svo uppteknir af því að það eigi að vera kvóti til staðar? Um hvað eru menn að velja? Eru menn ekki að velja fyrst og fremst á milli aðferðanna en ekki heildaraflamagnsins? Þeir sem hafa verið á móti því að koma til móts við þessa báta, hafa fyrst og fremst verið á móti því að þeir fengju auknar veiðiheimildir, en það stendur einfaldlega til að láta þá hafa þær.