Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 28. maí 2004, kl. 18:23:55 (9438)

2004-05-28 18:23:55# 130. lþ. 131.2 fundur 996. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar báta, krókaaflamark o.fl.) frv. 74/2004, MÞH
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur, 130. lþ.

[18:23]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Hæstv. forseti. Þann 13. september á síðasta ári var haldinn fjölmennur fundur á Ísafirði. Kjörorð fundarins var ,,Orð skulu standa``. Á þann fund mættu nokkur hundruð manns, mest Vestfirðingar en líka fólk sem kom frá öðrum stöðum á landinu. Á fundinn mættu líka sveitarstjórnarmenn, allir þingmenn Norðvest., eða svo til allir, auk fleiri þingmanna. Fundurinn var haldinn til að ganga á eftir loforðum stjórnarflokkanna frá því í kosningabaráttunni, loforðum sem stjórnarflokkarnir virtust ætla að svíkja. Menn boðuðu til fundar undir kjörorðinu ,,Orð skulu standa`` til að knýja á um það að stjórnarflokkarnir stæðu við það sem þeir höfðu lofað í kosningabaráttunni. Á fundinum voru fluttar margar merkilegar ræður sem eftir var tekið mjög víða um land því það var nú einu sinni svo, hæstv. forseti, að mjög margir Íslendingar trúðu þá, jafnfurðulegt og það hljómar, orðum stjórnarliða og treystu því að það væri eitthvað að marka sem þeir segðu, það væri eitthvað að marka allan fagurgalann um umhyggju þeirra fyrir hag hinna dreifðu byggða landsins, fyrir hag sjávarbyggðanna. Fólk trúði því að það væri eitthvað að marka loforð um línuívilnun sem síðan voru svikin því sú línuívilnun sem kom loksins fram á borðið eftir mikið japl, jaml og fuður, var hvergi lík því sem fólk hafði gert sér í hugarlund eða vaktar höfðu verið væntingar um að yrði.

Á þessum fundi voru til að mynda þrír þingmenn eða allir þingmenn Norðvest. spurðir að því hvað þeir hygðust gera fyrir hina svokölluðu dagabáta. Hvað þeir hygðust gera fyrir þá báta því þeir hafa skipt miklu máli fyrir atvinnulífið vítt og breitt í kringum landið og sóknardögum þeirra hefur stöðugt verið að fækka á undanförnum árum. Það hefur verið sótt hart að þessum bátum.

Ég var á fundinum og ég man hvað þessir þingmenn sögðu allir sem einn, man það mjög vel því ég hljóðritaði allt sem þeir sögðu og skrifaði það síðan upp og lagði út á netið. Þar eru orð þeirra enn í dag og þar munu þau verða. Þau orð munu verða hv. þingmönnum Kristni H. Gunnarssyni, Einari K. Guðfinnssyni og Einari Oddi Kristjánssyni til ævarandi skammar því allir sem einn sögðust þeir styðja það að sett yrði gólf fyrir þessa dagabáta. Þeir lofuðu því og sögðu að þeir væru að vinna að því og þeir mundu sjá til þess að þessi floti yrði varinn í því kerfi sem hann var í. Það verður svikið síðar í dag þegar frv. sem nú liggur fyrir fer í gegnum þingið og verður samþykkt.

Undanfarna daga hef ég verið að skoða ýmislegt sem þessir þrír hv. þingmenn, mennirnir sem eru nú að bregðast á ögurstundu, hafa látið frá sér á undanförnum missirum, bæði í ræðu og riti. Ég hef hvergi fundið þess stað að þeir væru nokkurn tímann á neinum tímapunkti að íhuga það að þessi floti ætti að fara í kvóta. Hvergi. Ekkert einasta orð. Hins vegar hef ég fundið mikið af alls kyns fagurgala og froðusnakki. Það sér maður í dag þegar maður skoðar það sem liggur eftir þessa hv. þingmenn. Þetta er ekkert annað en froðusnakk. Alls kyns froðusnakk um hvað smábátaútgerðin sé mikilvæg, hvað hún sé atvinnuskapandi, hvað það sé mikilvægt að verja þann flota. Ég get m.a. vitnað hér dæmi mínu til stuðnings í tilvitnun eftir hv. þm. Einar Odd Kristjánsson í Morgunblaðinu þann 8. nóv. árið 2002. Hann segir, með leyfi forseta:

,,Uppbygging smábátaflotans er eina vörn sjávarbyggðanna og það smáræði sem smábátarnir hafa verið að fiska hefur þó bjargað því sem bjargað hefur verið í sjávarbyggðum.``

Þetta er dæmið um fagurgala hjá hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni sem nú hefur lyppast niður og lýsti hér úr ræðustól yfir algerri uppgjöf þegar málið var til 2. umr.

Hvað segir hv. þm. Einar K. Guðfinnsson? Hann segir við blaðið Bæjarins besta, með leyfi forseta, þann 2. nóvember árið 2000:

,,Á það var bent fyrir skömmu að smábátar sköpuðu liðlega fimm prósent af heildarverðmætinu í landinu. Getur það virkilega verið að það séu þessi fimm prósent sem séu að valda vandræðum í stjórnkerfi fiskveiða? Getur það virkilega verið að það séu þessi fimm prósent af heildaraflaverðmætinu sem skekki heildarsamkeppnisstöðu annarra sem starfa í sjávarútvegi í dag? Ég trúi því ekki.``

Þetta er bara eitt af mörgum ummælum sem hann hefur látið fara frá sér þar sem hann hefur verið að berja sér á brjóst og útmála sjálfan sig sem einn fremsta varnarmann fyrir þennan flota. Hann hefur hreykt sér hátt eins og hani á haug yfir því hvað hann hafi verið duglegur að verja þennan flota, hvað hann hafi unnið mikið og gott starf fyrir þennan flota, m.a. með störfum sínum í sjútvn. þingsins. Ja, heyr á endemi, segi ég.

[18:30]

Það setur að manni sorg þegar maður les skrif og ummæli þessara hv. þingmanna. Hvað sagði t.d. Einar Kristinn Guðfinnsson í fyrra í kosningabaráttunni þegar hann réðist harkalega á forstjóra Samherja? Jú, hann sagði m.a. þetta, með leyfi forseta:

,,Við munum líka fagurgalann um að útgerðin vestra yrði efld og aukin viðskipti við fyrirtækin á norðanverðum Vestfjörðum. Þetta sagði Þorsteinn Már ekki einasta mér, heldur hafði hann þetta allt saman yfir mannskapnum á skipinu, á fundum og í fjölmiðlum.

Það þarf ekkert að rekja þetta frekar. Það stóð ekki eitt einasta orð hjá forstjóranum. Ekki eitt einasta orð. Flóknara er það nú ekki.``

Svo segir hann hér síðar, með leyfi forseta:

,,Nú er öldin önnur. Nú reynir samherjaforstjórinn ekki lengur að sýna á sér mjúku hliðina. Hann stritast stöðugt við að níða skóinn niður af Vestfirðingum með naggi sínu og heitingum. Það virðist sem fleinn í holdi hans að smábátasjómenn eigi veiðirétt sem hann getur ekki læst klóm sínum í og nú síðast grípur hann til þess lúalega óyndisúrræðis að reyna að etja sjávarbyggðunum í landinu gegn Vestfirðingum! --- Þvílík lágkúra og þvílíkt dæmi um lítilmótlegt viðmót slíks höfðingja.

Allt virðist þetta stafa af því að á Vestfjörðum eins og víðar á landinu er nú blómleg útgerð smábáta. Þökk sé löggjöf sem hefur fært þeim veiðirétt. Og enn ýfir það skap Þorsteins Más að vita til þess að við sjálfstæðismenn höfum ákveðið að beita okkur fyrir því að treysta betur stöðu strandveiðiflota sem tryggir sjávarbyggðunum um land allt hráefni. Þannig að fólkið sem þar býr, vinnufúsar hendur, geti fengið störf í atvinnugrein sem er og hefur verið forsenda byggðanna við strandlengjuna.``

Þetta sagði Einar Kristinn Guðfinnsson í grein sem varla er orðin eins árs gömul. Þetta var sá boðskapur sem hann fór með inn í kosningabaráttuna, þessi hugrakki riddari og boðberi atvinnustefnu landsbyggðarinnar. Boðberinn fyrir líf sjávarbyggðanna. Þingmaðurinn frá Bolungarvík. (Gripið fram í: Hann verður ekki kosinn aftur.) Hann verður ekki kosinn aftur. Ég tel að þessir menn séu núna að gera afdrifaríkustu mistökin sem þeir hafa nokkurn tímann gert á sínum pólitíska ferli. Það sem er að gerast nú í dag á eftir að hafa svo víðtækar og grafalvarlegar afleiðingar að mann óar við því. Þessar trillur fara í kvóta. Gott og vel. En hvað mun gerast?

Nú síðdegis hringdi í mig einn af þessum mönnum, útgerðarmaður í Ólafsvík. Hann sagði: ,,Hér í Ólafsvík eru menn hundóánægðir. Menn eru hundóánægðir með þetta frumvarp. Það er ekki að skila neinu. Þetta er engin lausn og það er ekkert að marka þó að nokkrir menn hafi komið hér úr þorpinu og farið á fund sjávarútvegsnefndar og talað fyrir því að allir vildu fara í kvóta. Það er ekki rétt. Það er ekki satt. Þetta er blekking. Hér munu flestir fá það lítinn kvóta að þeir sjá fram á það að þeir muni ekki geta lifað af honum. Þeir munu selja frá sér kvótana, pakka saman og flytja suður.`` Þetta sagði þessi ágæti útgerðarmaður við mig í dag og ég trúi honum. Mjög stór hluti þessara manna mun selja veiðiheimildir sínar, pakka saman og flytja á brott. Þetta verða afleiðingarnar.

Það er tregara en tárum taki að þessir þrír þingmenn, hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, skuli hafa brugðist núna á ögurstundu því nú er runnin upp ögurstund.

Ég er alveg sannfærður um að það var alveg hægt að finna pólitískan meiri hluta fyrir því á Alþingi að verja dagakerfið, gera ákveðnar endurbætur á löggjöfinni en verja dagakerfið. Það er afskaplega þreytandi að hlusta á Kristinn H. Gunnarsson, manninn sem svo margir höfðu treyst og trúað, koma hér upp í pontu hvað eftir annað til að reyna að níða niður breytingartillögur minni hluta sjútvn. Það er mjög svo dapurlegt að hlusta á þann málflutning.

Það er hægt að búa til góð sóknarkerfi. Það er mjög auðveldur leikur en að sjálfsögðu er lykillinn að því sá að menn verða að gera eitthvað sem takmarkar veiðigetu flotans. Sóknarstýring --- það felst í orðinu. Menn stjórna sókninni. Það hefði hæglega verið hægt að gera með því að setja gólf hjá þessum bátum og setja síðan skýrar reglur um hver veiðigeta bátanna ætti að vera. Þær reglur hafa aldrei verið settar og ég er alveg viss um að það hefur verið gert af ráðnum hug. Það hefur verið gert af ráðnum hug af stjórnvöldum vegna þess að þau vildu þetta kerfi feigt. Þau vildu geta staðið eins og þau standa núna og sagt: Það verður að koma böndum á þessa menn, það verður að koma böndum á þennan flota, hann verður að fara í kvóta. Þetta er stóra samsærið. Hæstv. sjútvrh. hefði að sjálfsögðu átt að setja skýrar reglur fyrir löngu um það hvernig hægt er að stjórna veiðigetu þessa flota. En það hefur hann ekki gert. Það hefði verið hægt að setja ákvæði um rúllufjölda, þessa vegna vélarstærðir, hvaðeina. Það eru ótal breytur sem hægt er að beita í fiskveiðistjórn til að hafa áhrif á veiðigetu skips. Ótal breytur. Svæðalokanir, tímatakmarkanir. Það eru miklir möguleikar til að gera slíkt. En það var ekki gert.

Ég hlakka til þess að heyra ræðu hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar á eftir. Það verður athyglisvert því ég hef undanfarna daga verið að lesa greinar hans sem hafa hina ýmsu titla. Hér t.d. ein sem heitir Dramb er falli næst. Hún fjallar um vestfirskar sjávarbyggðir og mikilvægi þeirra og hvernig á að styrkja þær. Hér er önnur grein sem heitir Sjávarplássið er auðlind. Auðlind, hæstv. forseti, sem nú á að eyðileggja. Hér er enn ein greinin Veikar byggðir gerðar veikari. Og hér er enn ein Að tryggja atvinnugrundvöll sjávarbyggða. Enn einn ,,klassíkerinn``. (Gripið fram í: Þetta eru góðar greinar.) Þetta eru góðar greinar ef það væri eitthvað að marka sem í þeim stendur, hv. þm., en því miður sér maður það núna þegar maður les þær að það er ekkert að marka eitt einasta orð í þeim. Þær eru góðar. Þær eru margar hverjar mjög vel skrifaðar og maður getur hrifist af þessum greinum þegar maður les þær. Að sjálfsögðu. En þetta eru bara orðin tóm, það sér maður í dag. Hér er ein sem heitir Samherji og byggðakvóti. Þar er lagt í herferð gegn Samherja, því vonda fyrirtæki sem stal Guggunni frá Vestfirðingum, eins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hefur margoft bent á. Hér er enn ein grein sem heitir Þeir einir fengu kvóta sem til þess höfðu unnið. Þar er þingmaðurinn að spyrja sig að því: Af hverju fengu hinir ekki líka kvóta? Hvar er réttur fólksins í sjávarbyggðunum? Hvar er réttur allra hinna? Af hverju fengu þeir ekki líka kvóta? Hvaða réttlæti er því að þeir séu skildir eftir? Þetta eru mjög góðar spurningar. Að sjálfsögðu. Hvar er réttur þeirra sem nú verða skildir eftir? Hvar er réttur þeirra sem nú eru að veiða kvótalaust, hinna svokölluðu leiguliða, sem eru að borga sægreifunum okurpeninga fyrir það að fá að stunda veiðar? Af hverju fá þeir ekki kvóta líka núna? Af hverju eiga trillurnar að fá kvóta? Hvaða rétt hafa trillurnar til að fá kvóta? Þær hafa ekki nokkurn einasta rétt til að fá kvóta. Engan. Þær hafa nýtingarrétt á auðlindinni, ég skal taka undir það, og ég vil ekki taka hann frá þeim. Þessir menn eiga að halda áfram að veiða fisk. En að segja það að þeir eigi óveidda fiskinn í sjónum, ég tek aldrei undir þá fásinnu. Aldrei.

Mig langar til að koma með þá spurningu núna og menn ættu að íhuga hana. Hvers vegna fá þeir sem eru kvótalausir í dag, hafa verið að harka í kerfinu árum saman við mjög erfiðar aðstæður, hafa spilað með kerfinu og greitt sinn skatt til sægreifanna, heldur betur, kannski 70% af öllu því sem þeir draga úr sjó rennur heilt og óskipt í vasa þeirra sem eiga kvótana --- af hverju fá þessir menn ekki kvóta í dag? Af hverju látum við þá ekki hafa kvóta? Í þeim hópi eru margir af duglegustu sjómönnum Íslands, menn sem lifa af við gríðarlega erfiðar aðstæður, menn sem eru að basla í fátækt en eru samt að róa til fiskjar og skapa þjóðinni gjaldeyristekjur. Þeir ættu að fá kvóta. Hér hjólar hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson í LÍÚ: Hrokinn hjá framkvæmdastjóra LÍÚ.

Hér er svo síðasta greinin, hún birtist haustið 2003 og hefur titilinn Gefið, logið og svikið. Og hver eru upphafsorðin?:

,,Atvinna er undirstaða byggðar. Á Vestfjörðum er það sjávarúrvegur sem ber uppi atvinnulíf og hefur gert alla tíð.`` (Forseti hringir.) --- Með leyfi forseta.

(Forseti (BÁ): Forseti minnir hv. þm. á að biðja um leyfi forseta.)

Já, með leyfi forseta. Ég held áfram, með leyfi forseta.

,,Síðasta áratug hefur mikið gengið á þar vegna mikils samdráttar í þorskveiðum, en þær veiðar eru uppistaðan í atvinnugreininni. Mörg fyrirtæki stóðu ekki af sér samdráttinn og frá fjórðungnum hafa flust um 40% af veiðiheimildum. Enginn annar landshluti hefur mátt þola annan eins samdrátt. Alþingismenn kjördæmisins brugðust við með því að fá opnaðan möguleika fyrir nýja aðila inn í atvinnugreinina með útgerð smábáta. Þeirri leið hefur nú verið lokað.``

Og nú er verið að læsa hurðinni og það er ekki nóg með að henni sé læst, heldur er hún negld aftur og síðan múrað fyrir. (Gripið fram í: Og lyklinum hent.) Og lyklinum hent á sextugt hafdýpi. Að þessu ætlar hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson að standa. Þetta er alveg með ólíkindum og í raun og veru mjög sorglegt. Því það er alveg ljóst að núna munu Vestfirðingar missa aflaheimildir. Þetta mun færast til. Þetta mun allt saman riðlast. Og margar af þessum byggðum fyrir vestan sem hafa byggt afkomu sína á þessum veiðum á undanförnum árum munu veikjast enn frekar. Hið sama gildir um margar aðrar byggðir því menn munu núna fara að braska með óveiddan fiskinn í sjónum eins og þeir hafa alltaf gert þegar þeim hefur verið réttur kvóti.

Núna er verið að láta einstaka trillusjómenn hafa kvóta fyrir fleiri tugi milljóna. Maður sem fær 40 tonna kvóta getur sennilega selt hann fyrir 30 milljónir, 40 tonn, og stungið þeim peningum beint í vasann.

Hér er annar þingmaður sem ég hef nefnt, hv. þm. Einar K. Guðfinnsson. Gerð er könnun haustið 2002. ,,Flestir kjósendur í Norðvesturkjördæmi hafa mest álit á Einari Kristni`` er titillinn, mest álit á Einari Kristni. Hvernig skyldi hann fara út úr slíkri könnun í dag? Hann skrifaði í vor, fyrir nokkrum vikum síðan, með leyfi forseta:

,,Öryggisleysinu sem verður þegar ótti skapast við að aflaheimildir hverfi og að veiðirétturinn verði afnuminn. Það hefur orðið hlutskipti margra. Ekki þarf að nefna dæmin, þau eru í fersku minni fólksins. Nauðvörnin var eins og menn vita oft á tíðum, veiðikerfi smábátanna.``

Nauðvörnin. Þetta skrifaði þingmaðurinn 29. mars sl. Nú er hann búinn að venda sínu kvæði í kross og ætlar að senda þennan flota á bálið. Stóran hluta af þeim flota beint á bálið fyrir skammtímagróða. Það er það sem gerist. Menn munu selja atvinnutækin og nýtingarréttinn fyrir skammtímagróða. Það er eins og að pissa í skóinn sinn. Eftir sitja byggðirnar, atvinnustigið í byggðunum mun minnka, verðmæti húseigna og annað þar fram eftir götunum mun rýrna. Það verður eignamissir hjá flestum en örfáir útvaldir fá allt í einu mikið af peningum í vasana, en hinir munu fá að líða fyrir þetta, fólkið í þessum byggðum.

Hér er grein eftir hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson frá 1. maí árið 2003 og þar stendur, með leyfi forseta:

,,Við höfum styrkt dagakerfið --- þeir vilja ekki sjá það.

Við höfum hins vegar á þessu kjörtímabili verið að styrkja forsendur þessa kerfis. Horfið hefur verið frá því að mæla sóknareiningarnar í dögum. Nú eru þær mældar í klukkustundum. Þetta fyrirkomulag er manneskjulegra og betra fyrir þá sem þessar veiðar stunda. Hópi sjómanna var síðan gefinn kostur á að stunda útgerð sína innan þessa fyrirkomulags.`` --- Svo ræðst hann á Samf.:

,,Það var þetta kerfi sem þeir samfylkingarmenn vildu afnema og setja inn á uppboðsmarkaðinn. Sem betur fer var því afstýrt.``

Nú er liðið eitt ár frá því að þessi grein var skrifuð. Nú hefur taflborðið heldur betur snúist við því nú er Samf. að taka þátt í örvæntingarfullri tilraun stjórnarandstöðunnar til að reyna að bjarga þessum flota. Því það er svo að við í stjórnarandstöðu, minni hlutanum ef svo má segja, gerum okkur fulla grein fyrir því hvað hér er að gerast.

[18:45]

Hæstv. forseti. Þetta kerfi mun leiða til byggðaröskunar. Það mun leiða til þess að atvinnustigið í byggðunum minnkar. Það mun líka leiða til þess að við sjáum aukningu í til að mynda slæmri umgengni um auðlindina. Það verður aukning í brottkasti.

Ég vil í lok máls míns fá að vitna í þingræðu þar sem einn af þeim þingmönnum, sem ég ekki hef nefnt enn þá í ræðu minni, sem fóru um með fagurgala og slógu sér á brjóst til að mynda í kosningabaráttunni, sagðist heldur betur ætla að verja smábátaflotann og hefur útmálað sjálfan sig sem einn af helstu forsvarsmönnum fyrir þann flota á hinu háa Alþingi. Það er hv. þm. Hjálmar Árnason, riddarinn hugumstóri frá Suðurnesjum þar sem gerðir hafa verið út margir smábátar. Hvað sagði sá hv. þm. í þingræðu árið 1995 þegar verið var að tala um að setja ætti trillur á kvóta? Hann sagði svo, með leyfi forseta:

,,Ég vil að auki lýsa yfir áhyggjum mínum. Fari margir krókabátar yfir á aflamark mun það auka smáfiskadráp. Þá munu þeir bátar frá og með þeim degi að þeir hefja sókn á aflamarki hætta að veiða smáfisk. Við vitum að smáfiski er hent í dag hjá þeim bátum sem eru á aflamarki og er ekki á bætandi.``

Þetta vissi þingmaðurinn árið 1995. En einhvers staðar á vegferð sinni frá því hann flutti þessa ræðu úr þeim sama stól og ég stend í núna virðist hann hafa týnt þessum vísdómi, eða kannski kýs hann að gleyma honum og lætur í dag eins og hann hafi aldrei búið yfir þeirri vitneskju.

Ég sakna þess, hæstv. forseti, að sjá ekki þrjá af þeim fjórum hv. þingmönnum sem ég nefndi í ræðu minni hér í þingsal Alþingis til að hlusta á ræður okkar þar sem við erum að gera örvæntingarfulla lokatilraun til að fá menn til að snúa af villu síns vegar, að þeir skuli ekki sitja hér og hlusta á ræðurnar, taka þátt í andsvörum og halda sjálfir ræður, því þessir menn þurfa að standa reikningsskil gerða sinna og þeir munu verða látnir standa reikningsskil gerða sinna. Þeir verða að útskýra fyrir kjósendum sínum og fólkinu í landinu af hverju þeir sviku það. Þeir verða að útskýra þau svik. Þeir verða að útskýra hvernig þeir gátu árum saman farið með þennan fagurgala, það froðusnakk sem ég hef nefnt svo, árum saman, bæði í ræðustól á hinu háa Alþingi og líka úti í þjóðfélaginu, á fundum, í fjölmiðlum, með greinaskrifum, í viðtölum. Ég öfunda ekki þá þingmenn af því hlutskipti að þurfa að útskýra það. Ég tel að það muni verða þeim þingmönnum dýrt sem farið hafa þar fremstir í flokki og staðið að þessu. Hv. þm. Guðjón Hjörleifsson, formaður sjútvn., á eftir að finna fyrir því. Því get ég lofað. Ég get líka lofað því að þeir fjórir þingmenn sem ég nefndi áður, hv. þingmenn Hjálmar Árnason og Kristinn H. Gunnarsson, báðir frá Framsfl., og hv. þingmenn Einar Oddur Kristjánsson og Einar K. Guðfinnsson, munu líka finna fyrir því að þetta verður ekki gleymt.

Hvernig stendur á því að þessir hv. þingmenn eru ekki í salnum núna fyrir utan hv. þm. Kristin H. Gunnarsson? Hvar eru hv. þingmenn Einar K. Guðfinnsson og Einar Oddur Kristjánsson? Ég geri það heyrinkunnugt úr þessum stól og ég vona að fólkið í heimabyggðum þeirra horfi á það sem nú er að gerast, og þó að það geri það kannski ekki núna gerir það þá vonandi á morgun, og gerir sér grein fyrir því að þessir menn eru nú á þessari ögurstundu einhvers staðar allt annars staðar en þar sem þeir ættu að vera.