Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 28. maí 2004, kl. 18:54:20 (9441)

2004-05-28 18:54:20# 130. lþ. 131.2 fundur 996. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar báta, krókaaflamark o.fl.) frv. 74/2004, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur, 130. lþ.

[18:54]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Mér er nú nokkuð létt eftir að hafa fengið þær útskýringar að hv. þm. átti ekki við það að hann ætlaði að beita handafli á okkur, láta okkur finna fyrir því með þeim hætti eins og mér fannst eiginlega liggja í orðunum en trúði ekki. Þess vegna spurði ég og sem betur fer reyndist það ekki á rökum reist að slíkt stæði til. Ég óttast ekkert að finna fyrir því í þeim skilningi að takast á um málefnið á málefnalegan hátt í umræðum. Það skulum við gera, herra forseti, og ég ber engan kvíða fyrir því.

Það liggur fyrir, herra forseti, að eina frv. frá þingmönnum Frjálsl. varðandi málið er það sem er inni í sjútvn. Það kveður á um 23 daga og engar takmarkanir á veiðigetu bátanna. Það liggur líka fyrir að núna eru þeir aðilar að brtt. þar sem gert er ráð fyrir að setja verði takmarkanir á veiðigetu. Ég er út af fyrir sig alveg sammála því að það verði að gera en þar með hafa þingmennirnir tekið U-beygju í afstöðu sinni og geta því ekki lengur stutt sitt eigið frv. óbreytt. Ég vil bara vekja athygli á því, herra forseti.

Ég vil svo segja eitt um annað sem kom fram í máli hv. þm. Hann sagði að menn mundu selja kvótann og flytja burt. Þeir sem eru í dagakerfinu munu verða í krókaaflakerfinu. Ef þeir selja kvótann fer hann til einhverra báta sem eru í krókaaflakerfinu. Hvar eru þeir? Ef við skoðun löndunarhafnir þeirra báta sem eru í krókaaflakerfinu kemur í ljós að fjórar hæstu löndunarhafnirnar af sjö eru á Vestfjörðum. Átta hæstu af tólf eru í Norðvest. Það má því leiða líkur að því að verði um kvótasölu að ræða innan krókaaflakerfisins í kjölfar þessara breytinga muni kvótinn fyrst og fremst renna í það kjördæmi.