Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 28. maí 2004, kl. 19:09:26 (9444)

2004-05-28 19:09:26# 130. lþ. 131.2 fundur 996. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar báta, krókaaflamark o.fl.) frv. 74/2004, KHG
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur, 130. lþ.

[19:09]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Það er eðlilegt að menn ræði þetta mál töluvert, sérstaklega í ljósi þess að það eru að verða vatnaskil í löggjöf um þetta efni að því leyti að til stendur að taka úr lögum ákvæðið um sóknarstýringu á veiðum tiltekins flota sem verið hefur lengi í löggjöf. Það er því ekki að furða þó mönnum verði tíðrætt um það við þessa umræðu og fyrri umræður málsins. Ég gerði grein fyrir afstöðu minni til frumvarpsins við 1. umr. um það og þarf engu að bæta við það sem þá kom fram.

Ég reyni að nálgast málið á þeim forsendum að ná sem bestri niðurstöðu í málið fyrir þá sem það varðar, hv. þm. Sigurjón Þórðarson. Það hefur oft verið rifjað upp hér í þessari umræðu að það hefur verið sjónarmið mitt og fleiri þingmanna að það bæri að viðhalda sóknarstýrðu kerfi fyrir smábáta og að það væri rétt að reyna að tryggja það kerfi sem er í lögum. Ég vil rifja það upp að það var m.a. fyrir mína tilstuðlan árið 1999 í janúar að þetta kerfi sem er í lögnum í dag var dregið upp, en ég var þá formaður sjútvn. Fyrir henni lá frv. þáv. ríkisstjórnar um að allar veiðar yrðu kvótabundnar.

Mér hefur hins vegar orðið ljóst að menn gætu ekki búið við óbreytta sóknarstýrða veiði. Það hefur m.a. komið fram í því að ég og reyndar margir fleiri höfum sagt að til þess að ná stöðugleika í sóknarstýrða veiðikerfið, þannig að dögunum hætti að fækka, þá yrði að setja frekari sóknartakmarkanir á flotann. Það hefur einkum verið nefnt til að takmarka fjölda á handfærarúllum á hverjum bát og hitt að takmarka eða tengja saman vélarafl og þá daga sem hver bátur hefur. Þannig að vaxandi vélarafl leiðir af sér fækkun á dögum.

Þetta er auðvitað til komið vegna þess að miklar breytingar hafa orðið á þessum flota. Útgerðarmenn eru útsjónarsamir og fljótir að sjá þær leiðir sem í boði eru, eða opnar samkvæmt lögum, til þess að auka veiði sína og fara þær leiðir ef þær eru á annað borð arðvænlegar. Það er þess vegna eðlilegt að menn hafi fært umræðuna úr sóknarstýrðum veiðum yfir í sóknarstýrðar veiðar með takmörkunum sem eiga að stefna að því að ná jafnvægi í veiðunum. Það kemur m.a. fram í tillögu minni hluta sjútvn. að hún byggist á því að það sé jafnvægi í veiðunum. Það er út af fyrir sig grundvallarbreyting í afstöðu til sóknarstýringar, vegna þess að hún hefur ævinlega byggst á því að veiðin væri breytileg eftir fiskigegnd frá einu ári til annars, en menn væru ekki að keppa að því að það magn sem veitt væri með þeirri aðferð væri stöðugt.

Grundvallarbreyting hefur orðið í afstöðunni til sóknarstýrðra veiða á undanförnum árum, þannig að nú tala allir um það að sóknarstýrð veiði eigi að vera á þeim forsendum að árlegt magn veiðinnar sé konstant; sé föst tala. Það birtist m.a. í þeim tillögum sem liggja fyrir þinginu frá minni hluta sjúvtn.

Við megum ekki gleyma því að fiskveiðiárin 1998 og 1999 hafði flotinn 23 daga til veiða. Þá veiddi hann 5.500 tonn. Fiskveiðiárið 2001--2002 veiddi hann 12.400 tonn á jafnmörgum dögum. Veiðin hafði liðlega tvöfaldast, eða um 140% sýnist mér svona fljótlega reiknað. Á sama tíma jókst veiðin um 140%. Á síðasta fiskveiðiári, sem var aðeins 21 dagur, þá var veiðin 11.000 tonn, eða tvöfalt meiri en fjórum árum áður þegar dagarnir voru 23. (GAK: Þá hafði bátunum fjölgað um 84 ...) Þannig að veiðigetan hefur vaxið mjög mikið. Þess vegna eru menn komnir að þeirri niðurstöðu og það er enginn sem sker sig úr í því að ef einhver von eigi að vera um að sóknardagakerfið geti lifað, þá verði að setja frekari takmarkanir á getu þeirra og stefna að því að árleg veiði sé sem næst tiltekinni viðmiðun sem menn setja sér.

[19:15]

Nú stefnir í það á þessu fiskveiðiári þegar dagarnir eru ekki nema 19 að veiðin verði um 10 þús. tonn og hugsanlega meiri, þannig að menn sjá það að flotinn hefur breyst. Getan til að veiða hefur vaxið mjög mikið og endurspeglast í því hvernig málin eru rædd núna, sem er mjög ólíkt því hvernig menn hafa alltaf rætt um sóknarstýringu. Við stöndum líka frammi fyrir því að þeir sem hafa fjárfest í sóknardagakerfinu eru órólegir yfir því ef afli minnkar, vegna þess að þeir hafa keypt báta og þeir hafa keypt daga. Það er nefnilega þannig í sóknarstýrikerfinu, það er líka um það að ræða að menn geti keypt og selt veiðiheimildir; brask eins og sumir ónefndir þingmenn kalla það. Það á sér stað í sóknarkerfinu sem þeir telja að eigi að vera áfram. Menn geta keypt einstaka daga eða heimildir fyrir einstök ár eða varanlega, alveg eins og í aflamarkskerfinu. Menn hafa því fjárfest og menn hafa fjárfest miðað við ástandið á undanförnum árum sem hefur verið mjög gott fyrir þennan veiðiskap. Menn hafa veitt mjög mikið og þess vegna er verðið á hverjum degi mjög hátt.

Útgerðarmennirnir í þessum flota eru mjög viðkvæmir fyrir breytingum á veiði vegna skuldsetninga sinna. Gefum okkur að það gerist sem ég hygg að muni örugglega gerast, að veiði innan grunnslóðar muni dragast verulega saman um eitthvert árabil. Þá er þessi floti afar illa settur og sérstaklega þeir sem hafa verið að fjárfesta á síðustu árum, þeir standa frammi fyrir því að afli þeirra verður miklu minni en þeir þurfa til að standa undir sínum fjárfestingum. Þetta er staða sem menn standa frammi fyrir. Hvernig ætla hv. þingmenn að bregðast við því? Þetta er eitt af því sem við þurfum að svara. Þeir sem eru í þessum atvinnurekstri koma með sín vandamál, leggja þau á borðið fyrir okkur og spyrja: Hvaða lausnir hafið þið fyrir okkur til þess að við getum stundað okkar útgerð?

Ég vil segja, herra forseti, að ég hef ótrauður stefnt að því að ná fram þeirri niðurstöðu sem ég hef lengi stefnt að að það yrði gólf í dögum sóknardagakerfisins, 23 dagar. Hins vegar er mér það alveg ljóst að það er enginn þingmeirihluti fyrir því. (Gripið fram í: Nú?) Það er enginn þingmeirihluti fyrir því. Þannig að það mun ekki ná fram að ganga. (Gripið fram í: Væri þá ekki ...) Það mun ekki ná fram að ganga, herra forseti. Þá stöndum við frammi fyrir því hvað sé best að gera í þeirri stöðu. Eigum við að gera ekki neitt? Fyrir þingið var lagt frumvarp frá hæstv. sjútvrh. Það er það sem ríkisstjórnin náði samstöðu um. Sóknardagaútfærslan í því frumvarpi er miklu lakari heldur en óbreytt sóknardagakerfi, þannig að val manna er tiltölulega auðvelt ef valið er milli þessa tveggja kosta. Menn velja þá óbreytt dagakerfi. (Gripið fram í: Manni fyndist langbest ...) Óbreytt dagakerfi þýðir einfaldlega að dögunum mun fækka um einn á ári jafnt og þétt þar til við erum komnir niður í níu. Það er staða sem útgerðarmenn í dagakerfinu vilja ekki sjá, vegna þess að þeir hafa ekki efnahagslegar forsendur til að rísa undir því. Þeir hafa skuldbundið sig, fjárfest og þeir þurfa að hafa sínar tekjur. Þannig að óbreytt dagakerfi er ekki valkostur fyrir þennan hóp. Dagakerfið í frumvarpi sjútvrh. er ekki valkostur heldur.

Í ljósi þess þá var það mín afstaða að segja sem svo: Það er rétt að leggja að sjútvrh. hæstv. að reyna að ná samkomulagi við forsvarsmenn þessa hóps, Landssambands smábátaeigenda, og vita hvort þeir nái samkomulagi um það sem þeir telja þeirra hóp fyrir bestu í ljósi þeirrar stöðu sem uppi er. Það var niðurstaðan. Það fóru í gang viðræður á milli ráðherrans annars vegar og forsvarsmanna Landssambands smábátaeigenda hins vegar. Þeir náðu niðurstöðu. Þeir komu með tillögur til meiri hluta sjútvn. um útfærslu á frumvarpinu sem fólu í sér að allir bátar skyldu fara í krókaaflamarkið, þannig að handfærabátarnir yrðu hluti af krókaaflamarkinu.

Það lá alveg fyrir, herra forseti, að ef það var mat forsvarsmanna Landssambands smábátaeigenda á stöðunni sem uppi var, það væri best fyrir hagsmuni þeirra umbjóðenda að semja á þessum nótum, þá mundi ég styðja við bakið á því. Það lá alveg ljóst fyrir og ég gerði mönnum grein fyrir því að þeir gætu treyst því. Því til viðbótar er það ljóst eins og ég hygg að flestir hv. þingmenn sem hafa tekið þátt í umræðunni um þetta mál viti, að langflestir þeirra útgerðarmanna sem starfa í dagabátakerfinu vilja að þessi kostur verði ofan á. Það er kannski ekki vegna þess að það sé ósk þeirra. Þeir segja margir: ,,Við sjáum eftir dagakerfinu.`` Það segi ég líka. Ég sé eftir því. En þeir segja: ,,Miðað við okkar hagsmuni, við erum að gera út. Það erum við sem erum í atvinnurekstrinum, höfum tekið á okkur skuldbindingarnar. Það erum við sem ætlum að reyna að gera þetta út með hagnaði, hafa tekjur af því fyrir okkur og skapa vinnu fyrir aðra, þá er þetta skásta niðurstaða sem völ er á.`` Það er þeirra mat.

Ég hygg að hv. þingmenn geti verið mér sammála um að þannig liggur landið í þessum hópi. Hvað ætla hv. þingmenn þá að gera ef þeir vilja ekki þá leið sem lögð er til af hálfu þessara aðila? Hvað ætla þeir að bjóða upp á? Þeir bjóða ekki upp á 23 daga, minni hluti sjútvn. Þeir bjóða ekki upp á gólf í dögunum. Þeir bjóða upp á kerfi þar sem nýjustu bátarnir geta aukið veiði sína á kostnað hinna, með tilflutningi í veiði milli bátanna innbyrðis, þannig að þeir sem eru á bestu bátunum þeir geta aukið sinn hlut, en hlutur hinna mun rýrna. Þeir hafa sínar skuldbindingar líka, (LB: Viltu hafa þetta svoleiðis?) en þeir hafa sínar skuldbindingar líka, herra forseti. Þeir verða auðvitað að horfa á málin út frá því hvort mögulegt sé að þeir geti gert út á þessi kerfi.

Það væri fróðlegt að hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar upplýstu okkur um það í þessari umræðu hvaða undirtektir hafi verið við tillögu þeirra. Eru fjöldaáskoranir úr hópi dagabátamanna til þeirra um að samþykkja þetta? (Gripið fram í: Umsagnirnar.) Eru fjöldaáskoranir um það? (Gripið fram í: Lastu ekki umsagnirnar?) Ég er ekki viss um það að hv. þingmenn geti borið fram svo marga útgerðarmenn sem leggja eindregið að Alþingi að samþykkja þennan valkost umfram þann sem niðurstaða varð úr viðræðunum sem ég gat um áðan. Þannig liggur málið einfaldlega og ég er sammála mati forsvarsmanna Landssambands smábátaeigenda að niðurstaðan úr viðræðum þeirra við sjútvrh. er skásti kosturinn. Hún er ekki sá kostur sem ég vildi, en hún er skásti kosturinn af þeim sem eru raunhæfir í stöðunni.

Ég vil aðeins reyna að átta mig á því hvernig menn meta málið í ljósi þessa. Hér hafa menn haft mörg orð um það hvernig þróunin mundi verða ef þetta yrði niðurstaðan. Á það er bent að mikið af aflanum er veitt og landað á öðrum stað en báturinn er gerður út frá og það hafi tiltekin áhrif. Ég vil fyrst nefna að ef við skoðum það sem er líklegt að verði úthlutaður kvóti þessara báta í einstökum byggðarlögum og berum það saman við unninn afla á þessum stöðum, að á velflestum af þeim stöðum þar sem mest er landað er úthlutaður kvóti dagabátanna meiri en unninn afli. Þannig að það er ekki líklegt að vinna í landi muni minnka vegna þess að kvóti þeirra báta sem gerðir eru út rýrni svona mikið. Það er ekki líklegt. (LB: ... allar líkur á því.) Það er ekki líklegt. Þá benda menn á að á sumum stöðum er landað mun meira en selt frá stöðunum. Það eru til staðir sem þannig háttar, eins og Skagaströnd og Bolungarvík, en þeir tveir eru langstærstir hvað það varðar, og Suðureyri. Þeir bátar sem ekki eru lengur handfærabátar á dögum, verða þá handfærabátar í krókaaflamarki og þeir eiga kost á að gera út eins og krókaaflabátar. Mér finnst líklegt að útgerðarmynstur þessara báta muni líkjast því sem er í krókaaflamarkinu. Ég hef ekki fulla vissu fyrir því, enda hefur það enginn, en ég er að reyna að átta mig á því miðað við þær upplýsingar sem fyrir liggja hvað er líklegt í þessum efnum.

Ef við skoðum dreifingu á lönduðum afla eftir höfnum í krókaaflamarkskerfinu, þá kemur í ljós að í því kjördæmi sem menn hafa oftast nefnt, Norðvesturkjördæmi, að yrði fyrir skakkaföllum vegna þess að sóknarbátar mundu ekki landa sínum afla eins á þeim höfnum eftir en áður, eru átta af tólf hæstu löndunarhöfnum í krókaaflamarkinu. Fjórar hæstu af sjö efstu eru á Vestfjörðum. Þannig að útgerðarmynstrið í krókaaflamarkinu er mjög mikið í Norðvesturkjördæminu og langsamlega hæst. Við getum nefnt sem dæmi að sú höfn sem er langsamlega hæst er Bolungarvík með 2.300 tonn landað á síðasta fiskveiðiári. Hún er líka hæst í sóknardagakerfinu með 1.600 tonn. Sandgerði er í öðru sæti í krókaaflamarkinu, Flateyri í þriðja sæti, Ólafsvík í fjórða, Tálknafjörður í fimmta, Grímsey í sjötta, Suðureyri í sjöunda sæti o.s.frv. Hvers vegna ætti það að vera að dreifingin á aflanum veiddum á bátum í krókaaflamarkskerfi verði verulega frábrugðin þessu sem er í dag í krókaaflamarkskerfinu? Það væri fróðlegt að fá rök fyrir því. Ég sé ekki að það sé mjög líklegt að sú dreifing verði mjög frábrugðin.

Ég vil svo benda á annað, að jafnvel í sóknardagakerfinu verða breytingar á löndunarmynstri eftir árum, vegna þess að dagabátaflotinn er svo kvikur; hann fer þar sem best veiðist á hverjum tíma. Á einu árinu er það hér, á öðru árinu þar. Þetta breytist mjög hratt. Það að vera í sóknardagakerfinu gefur því enga vissu fyrir því að landaður afli í tilteknum höfnum verði óbreyttur um ókomin ár. Menn geta ekki gefið neitt garantí fyrir því. (Gripið fram í.) Það getur enginn gefið neitt garantí fyrir því.

Ég vil nefna nokkrar hafnir sem dæmi um það hversu mikið hefur breyst á milli fiskveiðiára á lönduðum afla. Ef ég byrja á Snæfellsneshöfnunum þá var 777 tonnum landað í Ólafsvík á síðasta fiskveiðiári en á árinu þar á undan 885 tonnum. Í Stykkishólmi var á síðasta fiskveiðiári landað 164 tonnum, en þar áður 346 tonnum. Svo ég tali nú ekki um Rif, þar sem var landað 196 tonnum í staðinn fyrir 384 tonnum árið þar áður, það er um helmings samdráttur á lönduðum dagabátaafla á þessum höfnum á Snæfellsnesi.

Á Tálknafirði minnkaði landaður afli úr 540 tonnum í 353 tonn. Á Patreksfirði minnkaði landaður afli dagabáta úr 1.143 tonnum í 783 tonn á milli fiskveiðiáranna 2001/2002 annars vegar og 2002/2003 hins vegar.

Ef við færum okkur á Þingeyri, þá minnkaði landaður afli úr 125 tonnum í 26 tonn. Og á Flateyri þá minnkaði landaður afli dagabáta úr 717 tonnum í 318 tonn. Á öllum þessum höfnum varð veruleg breyting á lönduðum afla á milli ára.

Þess vegna mega menn ekki gefa sér í umræðunni um hugsanleg áhrif af þessari breytingu að þau verði að landaður afli dragist saman sem nemur niður í það sem kvóti eigin báta verður. Menn geta ekki gefið sér þá forsendu.

[19:30]

Þetta segir okkur að breytingarnar á lönduðum afla ráðast ekki endilega af kerfinu, heldur af fiskgengd, hvar hún er á hverjum tíma. Ef það veiðist mest út af Langanesi á komandi sumri verður aflinn þar og landað í nærliggjandi höfnum og lítið á Vestfjarðahöfnum, þótt það verði í sóknardagakerfi. Ég bið menn að hafa þetta í huga þegar þeir reyna að gera sér grein fyrir því hvernig áhrifin kunna að verða af þessari breytingu.

Herra forseti. Ég hef farið yfir helstu atriðin í málinu en ég vil bæta því við að kvóti dagabáta verður langsamlega mestur í Norðvest., svo ég haldi því til haga. Hann verður rúmlega 5 þús. tonn af þessum 9.500 tonnum. Þannig er augljóst að þau áhrif sem menn hafa verið að draga upp, að muna muni um þúsund tonna á fáum höfnum landsins, eru verulega ofmetin. Ég tel það verulega ofmetið. Ég held að menn þurfi að finna betri rök en þeir hafa fært fram til að það sé líkleg niðurstaða.

Ég vil minna á það sem fram kom hjá hæstv. sjútvrh. í umræðunni í gær eða fyrradag. Það verður litið til þess í sumar, þegar menn ganga frá reglum um hvernig eigi að dreifa þeim kvóta sem er í 9. gr. laganna, hvaða áhrif kunni að verða af breytingunni. Ef þau verða umtalsverð á litlum stöðum eins og Skagaströnd, Bolungarvík eða Flateyri þá verður tekið tillit til þess. (LB: Já, já.) Þannig að það (MÞH: Verða menn að betla?) ég heyri að hv. þm. er órólegur yfir því hve illa honum gengur að rökstyðja að áhrifin verði jafnslæm og hann hélt fram. En þá tökum við bara málefnalega umræðu um það, herra forseti. Ég skora á hv. þm. að láta mig finna fyrir því, eins og hann sagði fyrr í dag, í málefnalegri umræðu. Ég er alveg tilbúinn í að halda henni áfram.

Þá kem ég að því sem hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson nefndi í ræðu sinni, að menn mundu selja kvótann og flytja brott. Hvert selja þeir kvótann í krókaaflamarkinu? Þeir geta ekki selt hann í aflamarkskerfið vegna þess að það er óheimilt. (LB: Ekki enn þá.) Þeir verða að selja hann til annarra báta í krókaaflamarkinu. Ég hef rakið hvar þeir eru. Sá kvóti sem kann að skipta um hendur mun því að mestu leyti lenda í Norðvest. að öllu óbreyttu.

Eitt vil ég nefna enn sem komið hefur fram í umræðunni, vegna þess að menn hafa sagt að mönnum séu færðir miklir peningar, að þessir dagabátamenn fái eignir sem séu meiri í kvótanum heldur en í dagakerfinu. Það þýðir eitt sem menn mega ekki horfa fram hjá, að útgerðarmaður sem fær meira eigið fé hefur þar með efnahagslega stöðu til að styrkja útgerð sína. Hann getur keypt til sín meiri veiðiheimildir. Ef það reynist rétt að eigið fé þeirra aukist svo mikið verður sömu útgerðarmönnum í lófa lagið að afla sér aukinna veiðiheimilda og styrkja útgerð sína. Það styrkir þá byggð sem þeir gera út frá. Ég held að menn megi ekki gleyma þessu. (Gripið fram í.) Hvað segirðu? (MÞH: Lægri vextir eins og formaður nefndarinnar minntist á.)

(Forseti (BÁ): Ég bið hv. þingmenn að fara ekki í tveggja manna tal.)

Þeir sem gera út taka ákvarðanir um rekstur fyrirtækja sinna. Ef þeir geta bætt rekstur sinn held ég að menn ættu að fagna því en tala ekki eins og það sé slæmt og því fylgi eitthvað slæmt fyrir viðkomandi útgerð og viðkomandi byggðarlag ef útgerðin styrkist. Ég hefði talið að menn mundu tala eins og það væri fagnaðarefni ef slíkt gerðist, fremur en hið gagnstæða. (Gripið fram í.) Veiðiheimildir eyðast ekki, herra forseti. Ef þær færast á milli útgerða þá fara þær frá einum stað á annan. Þær týnast ekki á leiðinni. Ef menn selja og flytja brott felur það í sér einhverja breytingu en einhverjir njóta góðs af á móti.

Menn verða að reyna að gera sér grein fyrir því sem líklegt er að gerist. Ég dreg þetta fram, herra forseti, til að mönnum sé ljóst að niðurstaðan leiðir ekki til þess að svartnætti sé fram undan. Mér finnst sumir hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar tala eins og fram undan sé ekkert annað en eintómt svartnætti. Það tel ég fjarri lagi.

Ég vil, herra forseti, að endingu beina fyrirspurn til hæstv. sjútvrh. varðandi ákvæði í brtt. Þar er tekið fram að til að mæta þeim útgerðum sem hafa nýlega fjárfest geti þær fengið allt að 20 lestum aukalega á hvern bát, aukið endanlegan kvóta sinn sem því nemur, til að gefa mönnum kost á að afla sér tekna til að standa undir þeim skuldbindingum sem þeir hafa tekist á hendur. Við svona breytingar verður að gæta að því. Það er ábyrgðarhluti að setja lög sem kippa fótunum undan fjárfestingum manna miðað við þau lög sem áður hafa verið í gildi. Er það ekki rétt skilið hjá mér að þetta ákvæði eigi við líka um þá útgerðarmenn sem hafa keypt sér bát á þessum tíma, alveg eins og þá útgerðarmenn sem hafa bætt bát sinn og fjárfest þess vegna eða skipt um bát? Það eru sambærilegar aðstæður og hjá manni sem hefur nýlega hafið útgerð og keypt bát og daga. Það eru miklir peningar í því líka, herra forseti, sem menn þurfa að takast á hendur að borga ef menn hefja útgerð í dagabátakerfinu. Menn þurfa auðvitað að hafa útgönguleið fyrir fjárfestingar sínar við þær aðstæður. Ég spyr því hvort sé ekki rétt skilið hjá mér að þetta ákvæði í tillögunum eigi við um þessar aðstæður.

Ég held ég láti þessu lokið að sinni, herra forseti. Ég vona að breytingarnar, sem ég er viss um að eru hinar skástu sem menn geta gert miðað við þær ástæður sem eru uppi, leiði til þess að útgerð slíkra báta muni styrkjast fremur en veikjast. Ég hef alla trú á því að það muni leiða til þess að þeir staðir sem helst byggja á þeirri útgerð muni eflast fremur en hitt.