Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 28. maí 2004, kl. 19:40:13 (9448)

2004-05-28 19:40:13# 130. lþ. 131.2 fundur 996. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar báta, krókaaflamark o.fl.) frv. 74/2004, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur, 130. lþ.

[19:40]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég tek mið af niðurstöðunni hjá Landssambandi smábátaeigenda. Það liggur alveg fyrir. En ég framsel þeim ekki ákvörðunarvald mitt eða afstöðu mína. (Gripið fram í.) Auðvitað er það alltaf ég sem að endingu tek ákvörðun í málinu.

Ég held að hv. þm. verði að átta sig á því að þeir sem málið varðar eru útgerðarmenn. Það byggist allt á þeim. Ef þeir eru ekki til staðar þá hafa aðrir enga atvinnu af útgerð, vinnslu eða umsvifum þar í kring. Þess vegna er það ábyrgðarhluti að láta hjá líða að finna lausn á vanda sem uppi er og setur nú þegar afkomu margra útgerða í voða, vegna þess að kerfið er eins og það er. Þess vegna þurfa menn að reyna að ná þeirri niðurstöðu að breyta gildandi fyrirkomulagi þannig að útgerðarmennirnir geti staðið undir skuldbindingum sínum og haldið áfram að gera út. Á því hvílir málið.