Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 28. maí 2004, kl. 19:52:51 (9459)

2004-05-28 19:52:51# 130. lþ. 131.2 fundur 996. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar báta, krókaaflamark o.fl.) frv. 74/2004, GÖrl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur, 130. lþ.

[19:52]

Gunnar Örlygsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Auðvitað verðum við að virða skoðanir hver annars og ég virði skoðun hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar í þessu máli þótt ég telji hann á villigötum með afstöðu sína til þessa frv. Ég færði rök fyrir því í ræðu minni hverjar afleiðingar frv. yrðu. Í því tilliti nefndi ég að nýliðunin fengi nú hengingarólina með þessu frumvarpi. Ég nefndi jafnframt að þetta mundi hafa slæmar efnahagslegar afleiðingar og áhrif á atvinnumál í Norðvest. Jafnframt talaði ég um áhyggjur af framboði á hráefni til fiskvinnslu yfir sumarmánuðina.

Ég vil hins vegar spyrja hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson út í framtíðina. Er það vilji hv. þm. að ná sátt um þetta kerfi? Ég þykist vita að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson er ekki sáttur við íslenska fiskveiðistjórn en með hvaða hætti vill hv. þm. ná fram breytingum í íslenskum sjávarútvegi? Með hvaða hætti telur hann sé hægt að ná sátt um sjávarútveg á Íslandi í dag?