Þinghaldið fram undan

Mánudaginn 05. júlí 2004, kl. 15:03:08 (9475)

2004-07-05 15:03:08# 130. lþ. 133.93 fundur 628#B þinghaldið fram undan#, Forseti HBl
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur, 130. lþ.

[15:03]

Forseti (Halldór Blöndal):

Fundir Alþingis eru að þessu sinni haldnir við óvenjulegar aðstæður í mörgu tilliti. Eins og tilkynnt var af forsetastóli við þingfrestun í lok maí standa nú í sumar yfir miklar framkvæmdir við endurbætur á Alþingishúsinu. Þær hófust þegar að loknum þingfundum og var áætlað að þeim lyki í september. Af þeim sökum er ýmislegt öðruvísi í þinghúsinu en alþingismenn eiga að venjast. Segja má að þingsalurinn einn sé í notkun í húsinu meðan á þinghaldi stendur en hliðarsalir, skrifstofusvæði og þingflokksherbergi eru lokuð vegna framkvæmdanna.

Gerðar hafa verið allar þær ráðstafanir sem tiltækar voru til að búa svo að þinghaldinu að það megi fara fram með réttum hætti. Ég vil þakka starfsfólki þingsins og verktökum í húsinu fyrir lipurð og þrautseigju við undirbúning þessa óvænta þinghalds. Reynt verður að halda áfram vinnu meðan á þingfundum stendur eftir því sem tök eru á svo að ekki verði verulegar tafir á verkinu og því ljúki í tæka tíð fyrir upphaf nýs þings í haust. Það kann að valda einhverjum óþægindum en ég bið alþingismenn að sýna starfsmönnum verktaka þolinmæði og tillitssemi. Sömu ósk beini ég til starfsfólks fjölmiðla.

Þá vil ég geta þess að atkvæðagreiðslur verða með gamla laginu, handauppréttingu, því kerfið sem notað hefur verið var tekið niður vegna framkvæmda. Ekki er hægt að hringja til þingfunda eða atkvæðagreiðslu svo þingmenn verða að hafa vara á sér. Ljós er ekkert í ræðupúlti né klukka og mun forseti hafa þá reglu við 1. umr. þegar tímamörk gilda að slá létt í bjölluna þegar mínúta er eftir af ræðutímanum. Sjónvarpsútsendingar héðan frá umræðum ættu hins vegar að vera eins og venja er. Ég ítreka svo þá ósk mína að alþingismenn og aðrir sem hér þurfa að vera við störf hafi skilning á því að aðstaðan í þinghúsinu er með óvenjulegum hætti.