Fjölmiðlalög og þjóðaratkvæðagreiðsla

Mánudaginn 05. júlí 2004, kl. 15:06:40 (9477)

2004-07-05 15:06:40# 130. lþ. 133.92 fundur 627#B fjölmiðlalög og þjóðaratkvæðagreiðsla# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur, 130. lþ.

[15:06]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég vil hefja mál mitt á því að taka undir óskir hæstv. forsrh. um farsæld til handa þessu sumarþingi.

Þingi í vor lauk við næsta óvenjulegar aðstæður. Þá voru samþykkt lög, einhver óvinsælustu og umdeildustu lög sem hér hafa lengi verið samþykkt. Aldrei óraði mig hins vegar fyrir því að ríkisstjórn Íslands væri svo dauðhrædd við sín eigin fjölmiðlalög að hún þyrði ekki að leggja þau í dóm kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslu en það er nákvæmlega það sem nú birtist okkur í því frv. sem dreift var áðan og verður reifað síðar í vikunni. Ríkisstjórnin hefur ekki kjark til að fara með málið í úrskurð þjóðarinnar eins og stjórnarskráin mælir þó fyrir um að skuli gerast þegar forseti Íslands hefur synjað lögum staðfestingar. Hún er bersýnilega viss um að hún mundi koltapa þeirri kosningu og ég er sammála hæstv. ríkisstjórn um það. Þjóðin upp til hópa er á móti þessum lögum. Ég er hins vegar algerlega ósammála þeirri leið sem hæstv. ríkisstjórn hefur valið. Hún dregur til baka nýsamþykkt lög en hyggst jafnharðan láta samþykkja ný lög sem eru næstum alveg eins og hin gömlu. Þetta er sami grautur í sömu skál. Ég hef miklar efasemdir um að þessi aðferð sé í anda stjórnarskrárinnar. Ég tel að hún sé óverjandi frá sjónarhóli lýðræðisins.

Við lítum svo á að með synjun forsetans sé fjölmiðlamálið komið úr höndum þingsins. Nú er það samkvæmt stjórnarskránni í höndum þjóðarinnar og þjóðin á sinn lögverndaða rétt til að láta álit sitt í ljósi alveg eins þó að hæstv. ríkisstjórn sé þeirrar skoðunar að hún mundi koltapa þjóðaratkvæðagreiðslunni. Ríkisstjórn hverju sinni verður að hafa þrek til þess að hlíta æðsta dómi kjósenda.

Herra forseti. Stjórnarandstaðan hefur alltaf viljað fara leið sátta í þessu máli og það er enn þá hægt að fara sáttaleiðina. Hæstv. ríkisstjórn hefur lýst því yfir að hún ætli að endurlífga fjölmiðlanefndina og hleypa stjórnarandstöðunni að borði hennar. Guð láti gott á vita. En það er auðvitað tómur skrípaleikur nema nefndin komi að hreinu borði og því vil ég spyrja hæstv. forsrh. hvort hann telji ekki eðlilegt og sanngjarnt að taka í útrétta sáttarhönd stjórnarandstöðunnar (Forseti hringir.) og fresta samþykkt frv. þangað til í haust þegar nefndin hefur starfað.