Fjölmiðlalög og þjóðaratkvæðagreiðsla

Mánudaginn 05. júlí 2004, kl. 15:20:57 (9483)

2004-07-05 15:20:57# 130. lþ. 133.92 fundur 627#B fjölmiðlalög og þjóðaratkvæðagreiðsla# (aths. um störf þingsins), MÞH
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur, 130. lþ.

[15:20]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Hæstv. forseti. 26. gr. stjórnarskrárinnar hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Ef Alþingi hefur samþykkt lagafrumvarp, skal það lagt fyrir forseta lýðveldisins til staðfestingar eigi síðar en tveim vikum eftir að það var samþykkt, og veitir staðfestingin því lagagildi. Nú synjar forseti lagafrumvarpi staðfestingar, og fær það þó engu að síður lagagildi, en leggja skal það þá svo fljótt sem kostur er undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar með leynilegri atkvæðagreiðslu. Lögin falla úr gildi, ef samþykkis er synjað, en ella halda þau gildi sínu.``

Herra forseti. Þessi grein stjórnarskrárinnar er alveg skýr. Hún gefur skýr fyrirmæli um að lög skuli borin undir forseta Íslands til staðfestingar. Synji forseti því skulu lögin fara í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er ömurlegt að verða vitni að því hvernig ríkisstjórnarflokkarnir reyna að koma sér undan því að fara eftir stjórnarskrá, með því hreinlega að brjóta hana.

Spyrja má: Hvernig er hægt að nema lög sem ekki hafa fengið endanlega staðfestingu úr gildi? Þótt fjölmiðlalögin hafi öðlast lagagildi á enn eftir að staðfesta þau. Þessi lög hafa ekki hlotið fullnaðarafgreiðslu hjá löggjafarvaldinu, sem er Alþingi, forseti lýðveldisins eða þjóðin sjálf í þjóðaratkvæðagreiðslu. Nei, ríkisstjórnarflokkana skortir kjark til að leggja fjölmiðlafrumvarpið í dóm þjóðarinnar. Þeir vita að þeir mundu tapa þjóðaratkvæðagreiðslunni því meiri hluta landsmanna ofbýður þau ólýðræðislegu vinnubrögð sem viðhöfð voru þegar lagafrv. var böðlað gegnum þingið.

Stjórnarflokkarnir geta ekki hugsað sér að leyfa þjóðinni að kveða upp úrskurð sinn. Þeir óttast afleiðingarnar ef fólkið í landinu fær að komast upp á bragðið með að ákveða sjálft hvað því er fyrir bestu með þjóðaratkvæðagreiðslu. Þeir óttast að glata völdum í hendur fólksins.

Hæstv. forseti. Hér er verið að traðka á lýðræðinu og Frjálslyndi flokkurinn mun ekki taka þátt í þeim gjörningi.