Úrskurður forseta um frumvarp um fjölmiðlalög

Miðvikudaginn 07. júlí 2004, kl. 11:08:38 (9491)

2004-07-07 11:08:38# 130. lþ. 134.91 fundur 631#B úrskurður forseta um frumvarp um fjölmiðlalög# (aths. um störf þingsins), LB
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 130. lþ.

[11:08]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég vil líkt og fyrri ræðumaður lýsa yfir ánægju minni með að hæstv. forseti skuli hafa úrskurðað í þessu máli en um leið lýsa mig algerlega andvígan niðurstöðu hæstv. forseta. Við vorum kallaðir til þings til að ræða framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu. Með það efni gaf forseti út bréf og sendi og það var verkefni okkar á hinu háa Alþingi. Þess í stað kemur ríkisstjórnin og leggur fram frv. sama efnis og það sem þingið afgreiddi síðast en þó að þingið sé búið að afgreiða frv. hefur það ekki fengið lagagildi og fær ekki lagagildi fyrr en forseti hefur staðfest það eða það hefur verið afgreitt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Um þetta tiltekna atriði hefur Gunnar G. Schram, fyrrv. alþingismaður Sjálfstfl. og prófessor í stjórnskipunarrétti við Háskóla Íslands, ritað og byggir rit hans fyrst og fremst á skrifum Ólafs Jóhannessonar, fyrrv. formanns Framsfl., en þar segja þeir ágætu menn, með leyfi forseta:

,,Þegar lagafrumvarp er endanlega samþykkt af Alþingi er það þar með komið úr höndum þingsins og verður eigi afturkallað af því. Endanlegt lagagildi hefur þó frumvarpið ekki enn þá fengið. Það á eftir að fara til hins löggjafaraðilans, forsetans, til staðfestingar. Ef hann synjar staðfestingar þá þarf að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu.``

Hvorugt hefur gerst og því er ljóst að e.t.v. okkar helstu spekingar á þessu sviði lýsa þessari skoðun sinni sem er algerlega andstæð niðurstöðu hæstv. forseta og miklum mun eðlilegri því þá ættum við ekki á hættu, ef menn afgreiddu svona frumvörp endanlega, þá vitleysu sem hugsanlega er í uppsiglingu, virðulegi forseti, að það þurfi að fara tvisvar sinnum í þjóðaratkvæðagreiðslu vegna málsins.