Úrskurður forseta um frumvarp um fjölmiðlalög

Miðvikudaginn 07. júlí 2004, kl. 11:13:43 (9494)

2004-07-07 11:13:43# 130. lþ. 134.91 fundur 631#B úrskurður forseta um frumvarp um fjölmiðlalög# (aths. um störf þingsins), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 130. lþ.

[11:13]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Það frv. sem nú hefur verið sett á dagskrá verður til þess að afstýra, ef það verður samþykkt, því að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla á grundvelli 26. gr. stjórnarskrárinnar í skugga fullkominnar réttaróvissu um form atkvæðagreiðslunnar sjálfrar (ÖJ: Hver bjó þá óvissu til?) og fyrirkomulag. (Gripið fram í.) Um form atkvæðagreiðslunnar sjálfrar og fyrirkomulag ... (MÁ: Hver bjó til þessa óvissu?) Það hefur verið í ljós leitt að 26. gr. stjórnarskrárinnar er svo vanbúin af hálfu stjórnarskrárgjafans að það er ekki óhætt að fara út í þjóðaratkvæðagreiðslu á grundvelli þeirra ákvæða. (Gripið fram í.)

Spurning hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar um það hvort málið sé komið í óafturkræft ferli með synjun forseta Íslands er enn frekari staðfesting þess hversu óljóst þetta ákvæði er. Það að menn skuli spyrja spurningar sem þessarar, sem ég tel ekki óeðlilegt að gert sé, staðfestir enn frekar hversu vanbúin ákvæði 26. gr. stjórnarskrárinnar eru í raun um þetta mál allt saman. Ég tel að úrskurður forseta sé réttur. Ég tel að það sé ekkert athugavert við það að afturkalla lögin með þeim hætti sem hér er lagt til, alls ekkert athugavert við það, enda hefur það verið nefnt af hálfu bæði fræðimanna og ýmissa þingmanna úr stjórnarandstöðunni að eðlilegt væri að gera það.