Úrskurður forseta um frumvarp um fjölmiðlalög

Miðvikudaginn 07. júlí 2004, kl. 11:18:16 (9497)

2004-07-07 11:18:16# 130. lþ. 134.91 fundur 631#B úrskurður forseta um frumvarp um fjölmiðlalög# (aths. um störf þingsins), EKG
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 130. lþ.

[11:18]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Það kemur mjög á óvart hversu stjórnarandstaðan tekur þessu frv. illa því það er auðvitað þannig þegar maður skoðar málið í sögulegu samhengi að þá blasir það við að hér er fyrst og fremst verið að bregðast við óskum stjórnarandstöðunnar sjálfrar sem er búin að vera að kalla eftir því alla vordagana og sumarið að löggjöfin yrði felld úr gildi.

Það er ekki svo að þetta mál sé nýtt. Sigurður Líndal lagaprófessor hvatti bókstaflega til þess í blaðagrein 2. júní að fella lögin úr gildi til þess að Alþingi gæti síðan tekið til við það að semja nýja löggjöf. Það er einmitt það verkefni sem við höfum núna fyrir framan okkur, það er verkefni þessa dags að fara yfir þá löggjöf. Nú liggur fyrir frv. og við erum að vinna að því að búa til nýja löggjöf af því að við erum að fella þá gömlu úr gildi miðað við það frv. sem hér liggur fyrir.

Þegar maður skoðar viðbrögð stjórnarandstöðunnar við þessari hugmynd Sigurðar Líndal þá blasir við að stjórnarandstaðan er að krefjast þess að nákvæmlega svona sé farið í málið. Ég hef undir höndum útskrift af frétt Bylgjunnar á miðvikudaginn var, fyrir viku síðan, og þar segir svo, með leyfi virðulegs forseta:

,,Sá möguleiki er fyrir hendi að ríkisstjórnin afturkalli fjölmiðlalögin og geri þannig þjóðaratkvæðagreiðslu óþarfa. Stjórnarandstaðan segir að ef svo fari sé hún reiðubúin til samstarfs um að semja nýtt frumvarp.``

Það er auðvitað það sem við erum að gera. (Gripið fram í.) Við erum að vinna að þessari löggjöf. Vitaskuld hefur ríkisstjórnin forræði á þessu máli og vitaskuld ber ríkisstjórninni skylda til að leggja fram frv. af þessu tagi, en bera hlátrasköll stjórnarandstöðunnar vitni um það að hún ætlar ekki að vinna að málinu í þinginu? Ætlar hún bara að vera í endalausum upphlaupum? Ætlar hún ekki að vinna efnislega að málinu eins og hún á að gera í nefndinni sem nú er búið að tilkynna sérstaklega að það sé búið að ryðja dóminn, það sé búið að ryðja nefndina til þess að hv. þingmenn Steingrímur J. Sigfússon, Össur Skarphéðinsson og Guðjón A. Kristjánsson komist þar inn? Er kannski verið að boða það að þeir ætli ekki að vinna vinnuna sína (Forseti hringir.) við að búa til þá löggjöf?

Ögmundur Jónasson hvetur sérstaklega til þess í fréttinni (Forseti hringir.) að það sé farið að þessum málum nákvæmlega með þessum hætti. Hann er (ÖJ: Þetta er útúrsnúningur.) hugmyndafræðingurinn að málinu.