Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 07. júlí 2004, kl. 11:42:23 (9502)

2004-07-07 11:42:23# 130. lþ. 134.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 130. lþ.

[11:42]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Við höfum heyrt hæstv. ráðherra gera grein fyrir brellunum sem ríkisstjórnin ætlar að nota til að skjóta sér undan því að leggja fjölmiðlalögin í dóm þjóðarinnar. Það kom fram í máli hæstv. ráðherra að ríkisstjórnin er svo hrædd og hún er sjálf svo sannfærð um að hún sé með koltapaðan málstað að hún þorir ekki að leyfa þjóðinni að nota þann rétt sem stjórnarskráin gefur henni til að segja álit sitt á hinum vondu fjölmiðlalögum sem hér voru sett í vor.

Það frumvarp sem hæstv. ráðherra mælti hér fyrir er ekkert annað en löng yfirlýsing um að ríkisstjórnin þori ekki í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það var hæstv. dómsmálaráðherra sem sagði á dögunum að það væri brella að ætla að kippa nýsamþykktum lögum um fjölmiðla til baka og koma þannig í veg fyrir að fólkið fengi að kveða upp sinn dóm í þjóðaratkvæðagreiðslu. En það er nákvæmlega það sem nú er að gerast með þessu brellufrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Hér er í orði kveðnu verið að leggja til að fjölmiðlalögin frá í vor séu felld úr gildi. En þau eru jafnharðan borin fram lítt breytt og ríkisstjórnin er meira að segja svo ósvífin að hún er aftur búin að bæta inn í þau ákvæði sem búið var að fella út og formaður Framsóknarflokksins taldi meira að segja brot á stjórnarskránni í vor. Hæstv. ráðherra undirstrikar það svo rækilega að hér er um sama frumvarpið að ræða að hann vísar til þeirra nefndarálita og þeirra skýrslna og gagna sem lögð voru fram með hinu fyrsta frumvarpi. Hæstv. ráðherra bítur því höfuðið af skömminni með því að koma hingað og staðfesta eins rækilega og hægt er að frumvarpið sem hér er verið að leggja fram aftur er í reynd sama frumvarpið og það er þetta sem hæstv. dómsmálaráðherra kallaði fyrr í sumar brellu. Ríkisstjórnin er að beita brellum til að svipta þjóðina rétti sínum til að fella dóm yfir ólögum hennar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Mér finnst þetta sorgleg niðurstaða. Mér finnst þetta vera dapur dagur fyrir þingið og ég held að í sögunni verði þetta álitinn einn af svörtustu blettunum á ferli þessarar ríkisstjórnar. Töldu þó flestir að svartara gerðist það ekki eftir hraklegan stuðning hennar við stríðið í Írak.

[11:45]

Herra forseti. Ríkisstjórn sem hefur ekki pólitískan kjark til að horfast í augu við úrskurð eigin þjóðar er komin að leiðarlokum. Það er tilfinningin sem þjóðin öll deilir nú varðandi brellustjórn Davíðs Oddssonar. Innstæða hennar er búin. Hún er rúin trausti og það er komið að þeim punkti að hún á að fara frá. Hún nýtur ekki lengur trausts þjóðarinnar.

Hæstv. ráðherra rökstuddi áðan í löngu máli að svo mikil réttaróvissa ríkti varðandi þjóðaratkvæðagreiðslu að það yrði að forða þjóðinni frá henni. En þá réttaróvissu er einungis að finna í máli og í hugum hæstv. ráðherra ríkisstjórnarinnar. Sú regla sem synjun forseta og þar með þjóðaratkvæðagreiðslan er byggð á liggur alveg skýr fyrir. Athugasemdir við greinina frá sínum tíma eru alveg skýrar og fyrrum formenn, bæði Framsfl. og Sjálfstfl., sömdu þessa grein, sömdu skýringarnar og lögðu út af þeim í umræðum. Fyrrv. forsrh. Gunnar Thoroddsen, fyrrv. forsrh. Bjarni Benediktsson og Eysteinn Jónsson, formaður Framsfl. Þetta eru höfundar þessa ákvæðis. Magnús Jónsson, gamall þingmaður sjálfstæðismanna, skýrði nákvæmlega með hvaða hætti ætti að beita henni og orðaði það svo að þegar gjá eða bil yrði milli vilja þings og þjóðar þá hefði forsetinn þennan rétt, að skjóta málinu til úrskurðar þjóðarinnar. Það var nákvæmlega þess vegna, herra forseti, sem þingið breytti stjórnarskrárfrumvarpinu árið 1944, frá því að forsetinn ætti að vera þingkjörinn yfir í að vera þjóðkjörinn, að þá gæti hann komið fram við þessar aðstæður sem fulltrúi og umboðsmaður þjóðarinnar gagnvart Alþingi. Þetta var skýring þeirra sem þá töluðu.

Við í stjórnarandstöðunni teljum það algerlega rangt sem fram kom hjá hæstv. ráðherra þótt hann hafi fyllsta rétt til að hafa þessa skoðun og tjá hana. Við teljum að það séu engin rök fyrir því sem hæstv. ráðherra sagði. Hæstv. ráðherra vísaði til annars formanns Framsfl., Ólafs Jóhannessonar, og sagði að hann hefði talið að sennilega stæðist þetta. En það er hægt að lúslesa þann texta þess ágæta prófessors og fyrrum formanns Framsfl. og forsætisráðherra. Hann gefur engar skýringar á þessu.

Fjöldi góðra vísindamanna fyrr á öldum hélt að jörðin færi flöt. Samt áttu þeir merkt framlag til vísindanna. Ólafur Jóhannesson var merkur fræðimaður og hann lagði margt skynsamlegt fram, bæði til stjórnmála og á sviði lagavísinda. En enginn er óskeikull og menn verða að leggja fram rök, virðulegi forseti. Við teljum einfaldlega, eftir að hafa farið yfir þessi mál, að engar heimildir séu til að setja í lög skilyrði eða þröskulda sem rýra rétt borgaranna varðandi þjóðaratkvæðagreiðsluna, hvað þá að mismuna kjósendum að því er varðar innbyrðis vægi samþykkjenda annars vegar og synjenda hins vegar.

Meginregla þessa ákvæðis er að frv. sem forseti synjar og öðlast hefur lagagildi til bráðabirgða á að leggja svo skjótt sem kostur er undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu. Í ákvæðinu, í skýringunum og í umræðum á sínum tíma kom ekki neitt fram um skilyrði eða heimildir til að setja höft á kosningarrétt. Það eru heldur engar vísbendingar um að slíkt sé heimilt. Skilningur þeirra sem fjölluðu um þetta mál á sínum tíma á Alþingi hneig augljóslega að nákvæmlega sömu niðurstöðu.

Einar Arnórsson sem þá var dómsmrh. sagði t.d. í umræðum á Alþingi að lög sem forseti synjar staðfestingar skuli bera, og ég vitna beint í ræðu fyrrv. dómsmrh., með leyfi hæstv. forseta: ,,... bera þau undir þjóðaratkvæði og ef meiri hluti samþykkir þau ekki skulu þau falla úr gildi.`` Það er alveg ljóst hvað hér er verið að segja. Björn Þórðarson, forsrh. á sínum tíma, tók til orða með nákvæmlega sama hætti. Ég vísa þeim rökum sem hæstv. ráðherra flutti áðan um réttaróvissu og um ófullbúið ákvæði til föðurhúsanna. Það eru rök sem búin voru til eftir á þegar ríkisstjórn var að falli komin vegna ágreinings um, ekki hvort ætti að brjóta stjórnarskrána heldur hve mikið. Það tel ég hneisuna miklu í þeim ágreiningi sem ríkti milli stjórnarflokkanna. Hann stóð ekki um hvort brjóta ætti stjórnarskrána heldur hversu mikið. Það er mín skoðun og skilningur minn á því og mér þykir það sorglegt.

Herra forseti. Sjálfstæðismenn hafa stundum sagt að það skipti máli þegar formaður Sjálfstfl. talar. Það skiptir máli vegna þess að það sem hann segir stendur, segja þeir. Ég rifja þetta upp að gefnu tilefni. Við, formenn og fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna, áttum frægan fund með forustu ríkisstjórnarinnar í Stjórnarráðinu um miðjan júní. Það er alveg rétt sem oft hefur verið rifjað upp, að þeim fundi lauk fyrr en menn höfðu ætlað. En áður en hæstv. forsrh. sleit þeim fundi í bræði hafði þó náðst á 12 mínútum samkomulag um tvennt: Í fyrsta lagi að Alþingi skyldi kallað saman 5. júlí og í öðru lagi að þjóðaratkvæðagreiðsla um fjölmiðlalögin, sem forseti synjaði, skyldi haldin fyrri hluta ágúst. Ég kalla hæstv. utanrrh. til vitnis um þetta. Hann sat í stúkusæti þegar þessi orð voru mælt. Hann var við hlið okkar hv. þm. Ögmundar Jónassonar og Guðjóns Arnars Kristjánssonar.

Hæstv. forsrh. staðfesti þetta í ræðu á mánudag áður en hann flaug vestur um haf. Hann lýsti því yfir að það hefði verið sameiginleg niðurstaða stjórnar og stjórnarandstöðu á þessum fundi að þjóðaratkvæðagreiðsla um fjölmiðlalögin yrði fyrri hluta ágústmánaðar. Þetta voru orð hæstv. forsrh. Sami forsrh. sagði í sjónvarpinu í júní, með leyfi forseta:

,,Þannig að ég er þeirrar skoðunar og deili skoðun minni með Halldóri Ásgrímssyni að við verðum að finna einhvern flöt á því að fara í þessa atkvæðagreiðslu.``

Í forsetabréfi sem hæstv. ráðherra las upp í gær kom fram að hann hefði tjáð forseta Íslands að þing þyrfti að koma saman til að setja lög um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Forsrh. tjáði forseta Íslands tilefni þess að þingið var kvatt saman. En hæstv. forsrh., ásamt hæstv. utanrrh., hafa sameinast um að leggja fram frv. þar sem brellum er beitt til að komast hjá þjóðaratkvæðagreiðslunni sem hann hafði þá lofað.

Var verið að blekkja stjórnarandstöðuna á fundinum í júní? Var hæstv. forsrh. að plata með yfirlýsingu sinni? Það voru reyndar fleiri en hæstv. forsrh. sem lýstu því yfir að þjóðaratkvæðagreiðsla yrði haldinn og réttur fólksins virtur.

Það hefur komið fram að Halldór Ásgrímsson, formaður Framsfl., sagði í júní að atkvæðagreiðslan færi fram. Guðni Ágústsson, varaformaður Framsfl., sem öll þjóðin sá hvernig leið yfir málinu í Kastljósi á mánudagskvöld, sagði 30. júní að það yrði þjóðaratkvæðagreiðsla. Varaformaður Sjálfstfl., Geir H. Haarde, sagði líka í júní að þjóðaratkvæðagreiðslan yrði að fara fram. Hann bætti því skeleggur við að hann túlkaði stjórnarskrána með þeim hætti, og vísaði til 11. gr. hennar, að hún yrði að fara fram innan tveggja mánaða frá því að tilefnið til hennar spratt. Hæstv. dómsmrh. Björn Bjarnason sagði 1. júní að það væri skylda ríkisstjórnarinnar að sjá til þess að þjóðaratkvæðagreiðslan færi fram svo fljótt sem auðið er.

Hvar eru efndir þessara orða? Þær eru engar. Það er greinilega ekkert að marka yfirlýsingar þessara manna um þjóðaratkvæðagreiðsluna og hinn óvefengjanlega rétt sem þjóðin hefur til að fá að taka þátt í henni. Alþingi er alls ekki komið hingað saman til að setja lög um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu í samræmi við stjórnarskrána. Hér er einungis verið að skipta um númer. Hér er verið að kippa burt rétti sem stjórnarskráin mælir fast fyrir um. Það er einungis gert til að koma í veg fyrir að það verði síðasta afrekið á ferli hæstv. forsrh. að koltapa þjóðaratkvæðagreiðslu og koma í veg fyrir að ríkisstjórnin springi. Það er mergurinn málsins. Ríkisstjórnin er svo ósamstæð innbyrðis og ágreiningurinn um alla skapaða hluti er orðinn svo djúpstæður að hún gat ekki einu sinni komið sér saman um að leysa það verkefni sem stjórnarskráin fól henni og lýst hafði verið yfir gagnvart þjóðinni að stjórnarherrarnir ætluðu að reyna.

Í augum okkar alþingismanna á stjórnarskráin að vera heilög. Við alþingismenn getum ekki horft fram hjá þeirri staðreynd að stjórnarskráin sjálf hefur mælt fyrir um að þjóðin hafi réttinn við þessar aðstæður til að segja álit sitt á fjölmiðlalögunum. Við megum ekki og getum ekki tekið hann af þjóðinni. Lög sem fela það í sér eru ekki aðeins brellulög, þau eru ólög líka. Við megum ekki gleyma því að þjóðin sjálf samþykkti í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 1944 stjórnarskrána þar sem kveðið var á um rétt forseta lýðveldisins til að synja lagafrv. frá Alþingi staðfestingar. Í þeirri stjórnarskrá var forsetanum veittur skýlaus réttur til að skjóta frv. sem Alþingi samþykkti til úrskurðar þjóðarinnar. Forsetinn ákvað að notfæra sér þennan rétt. Hann ákvað að skjóta þessum umdeildu fjölmiðlalögum til þjóðarinnar vegna þess að öll rök hnigu að því að gliðnað hefði allverulega í pólitískum jarðhræringum á milli þingsins og þjóðarinnar. Hann fór þar eftir bókstafnum og eftir þeim skilningi sem alþingismenn beittu á sínum tíma gagnvart stjórnarskránni. Það efast enginn lengur um það, þrátt fyrir að menn hafi reynt það á tímabili, að forseti lýðveldisins hafi fullan rétt til þess.

Samkvæmt stjórnarskránni er fjölmiðlamálið nú í þeirri stöðu að þjóðin hefur rétt til að taka sér hlutverk æðsta dómara um framtíð þessa máls. Þetta er æðsta form lýðræðisins. Almenningur úrskurðar sjálfur án nokkurra milliliða. Þess vegna er það skoðun okkar að núna eigi þjóðin varinn rétt til að stíga næsta skref í þessu máli. Það er ekki ríkisstjórnar eða Alþingis. Það er ekki stjórnmálamanna og það er fráleitt að Alþingi ætli sér að hafa áhrif á það hvort hinn raunverulegi þjóðarvilji ráði niðurstöðunni. Það er réttur þjóðarinnar, sem er varinn í stjórnarskránni, að skera úr um það hvort þessi lög eigi að hafa gildi til frambúðar eða falla niður. Þess vegna tel ég að Alþingi geti ekki leyft sér að samþykkja lög sem skerða þennan rétt. Um það verður aldrei friður og stjórnarandstaðan mun aldrei fallast á það.

Herra forseti. Aðferðin sem hæstv. ríkisstjórn ætlar að nota sér til að komast frá þjóðaratkvæðagreiðslunni og hefur kynnt í frv. sem hæstv. ráðherra mælti fyrir áðan og kynnt með öðrum hætti er fjórþætt.

Í fyrsta lagi er lagt til að fjölmiðlalögin frá því í vor verði felld úr gildi.

Í öðru lagi er svo lagt til að á þessu sumarþingi verði samþykkt nýtt frv. sem er þó í öllum aðalatriðum eins og lögin sem fella á úr gildi samhliða. Hæstv. forsrh. lýsti því sjálfur yfir í viðtali við ríkissjónvarpið að frv. þyrfti varla langan tíma í umræðu af því að þetta væri sama frv. frá því í vor, einungis með tveimur breytingum sem voru í munni hæstv. utanrrh. orðnar veigamiklar. Það er rétt. Önnur breytingin er mildandi en hin er íþyngjandi.

Í þriðja lagi er lagt til, eins og hæstv. ráðherra rakti áðan, að fjölmiðlanefndin verði endurlífguð og af alkunnri náð ríkisstjórnarinnar fái stjórnarandstaðan fulltrúa í nefndinni.

Í fjórða lagi er lagt til að lögin taki ekki gildi fyrr en eftir þrjú ár þegar eru liðnar einar alþingiskosningar.

Á öllum þessum þáttum eru meinbugir. Fyrsta atriðið, að fella úr gildi nýsamþykkt fjölmiðlalög sem forseti synjaði staðfestingar 2. júní, stenst tæplega stjórnarskrá. Ég skal ekki þvertaka fyrir það, herra forseti, en ég er þeirrar skoðunar að a.m.k. sé það óverjandi að koma í veg fyrir að fólkið njóti þess réttar sem búið er að veita því. Ég vísa til þess sem rakið hefur verið fyrr á þessum degi, að fyrrv. alþm. Sjálfstfl., Gunnar G. Schram prófessor hefur skrifað um þetta og byggt á lögskýringum fyrrv. formanns Framsfl., Ólafs Jóhannessonar. Hann dregur í efa að þetta sé hægt. Þetta er eitt af því sem þarf að skoða vel í nefndinni sem fær málið til umfjöllunar, hvort slíkt sé í raun tæknilega gerlegt gagnvart stjórnarskránni. Ég er ekki viss um það.

Þegar við þetta er hnýtt þeirri ósvífnu hugmynd að knýja samtímis fram ný lög, sem eru nánast eins og gömlu lögin, þá stöndum við andspænis því sem varla er hægt að kalla annað en skrumskælingu á lýðræðinu. Þessi leið fær einfaldlega ekki staðist. Þessi leið brýtur gegn almennri skynsemi. Hún fer gegn öllu því sem við hljótum að telja sanngirni. Eins og ég hef sagt er ég ekki fullviss um að hún standist varðandi stjórnarskrána.

Í frv. kemur fram að tvö atriði séu í því frábrugðin núgildandi lögum frá því í vor. Fyrra atriðið felur í sér að markaðsráðandi fyrirtækjum er heimilt að eiga 10% í stað 5% í tilteknum miðlum. Það breytir hins vegar litlu um það að lögin stæðust ekki heldur stjórnarskrána fremur en fjölmiðlalögin frá því í vor. Þetta er ekki bara skoðun formanns stjórnarandstöðuflokks heldur þeirra sérfræðinga sem til þessa hafa tjáð sig.

[12:00]

Jakob R. Möller, hæstaréttarlögmaður og sérfræðingur um stjórnarskrána, var spurður að því í fyrrakvöld í sjónvarpi hvort breytingarnar sem nú var verið að mæla fyrir gætu leitt til þess að lögin stæðust eitthvað frekar stjórnarskrána en upphaflegu lögin.

,,Þetta held ég að breyti engu.`` --- Svaraði hæstaréttarlögmaðurinn, með leyfi hæstv. forseta. Hann hélt áfram og sagði: ,,Það er líka ákvæði í lögunum um það að fyrirtæki sem hefur að meginmarkmiði annan rekstur geti ekki fengið leyfi til útvarpsreksturs. Hvor tveggja þessi ákvæði tel ég að stangist á við tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar svo ekki sé farið út í atvinnufrelsisákvæðin og hugsanlega eignarréttarákvæðin. Það að banna tilteknum fyrirtækjum að eiga hlut í fjölmiðlafyrirtæki tel ég bara að standist ekki tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar.``

Herra forseti. Þetta er sérfræðingur sem ríkisstjórnin hefur margoft leitað til sem í fyrrakvöld, eftir að hafa kynnt sér hið nýja frv. ríkisstjórnarinnar, segir fullum fetum að hið nýja frv. stangist á við þrenns konar grundvallarréttindi sem varin eru í stjórnarskránni. Þarf að segja mikið meira um þetta?

Hitt atriðið sem breytt er í frv. frá fjölmiðlalögunum frá í vor er þó sýnu verra. Nú á sem sagt aftur að skeyta inn í lögin ákvæði um að hægt sé að afturkalla útvarpsleyfi frá fyrirtækjum ef þau standast ekki ákvæði laganna þegar þau taka gildi.

Þetta var, eins og menn muna, umdeildasta ákvæði fjölmiðlalaganna frá í vor og næstum allir sérfræðingar, hugsanlega utan eins, töldu engum vafa um það bundið að þetta ákvæði bryti ákvæði stjórnarskrárinnar um vernd eignarréttarins. Sjálfum formanni Framsfl. var meira en lítið órótt yfir þessu ákvæði og frægt er það feginsandvarp sem féll af vörum hæstv. ráðherra þegar hann sagði í fjölmiðlum eftir að ákvæðið hafði verið fellt burt að hann væri a.m.k. öruggari um stjórnarskrána núna. Það var eitt helsta afrek Framsfl. að eigin dómi að þetta ákvæði var fellt burt í umfjöllun allshn. Við fengum heldur betur að heyra það nokkrum sinnum á síðari stigum málsins í vor úr þessum stóli og nú er það komið aftur inn. Þetta var hinn mikli sigur Framsfl. Ja, drottinn minn, þeir hljóta aldeilis að upplifa sig sem mikla sigurvegara í dag, hv. þingmenn Framsfl.

En virðingin fyrir stjórnarskránni er slík að í fjölmiðlum í dag las ég að hv. þm. Bjarni Benediktsson, sem er formaður allshn., hefði sjálfur sagt á fundi sjálfstæðisfélagsins Varðar í gær að það væri hugsanlegt að sú staðreynd að þetta ákvæði væri aftur komið inn í lögin bryti gegn 72. gr. stjórnarskrárinnar þannig að menn gangi ekki gruflandi að því hvað hér er að gerast. Og ég spyr: Hvernig í ósköpunum getur það verið að menn grípi til þessa og hvernig í ósköpunum getur Framsfl. látið þetta yfir sig ganga?

Hvað segir hv. formaðurinn sem var öruggari í vor? Hann hlýtur að vera kvíðafullur núna þegar búið er að koma þessu ákvæði aftur inn í frv. (Gripið fram í: Hann verður óöruggari ...)

Síðan á stjórnarandstaðan að fá menn í fjölmiðlanefnd sem á að fjalla um fjölbreytni og umhverfi fjölmiðla. En til hvers? Til hvers á hún að fá menn í nefnd þegar við erum að samþykkja lög um það sem umdeilanlegast er í þessu máli öllu saman? Hvers vegna er verið að fara að málunum í þessari röð? Hverjum dettur í hug að það skipti miklu máli að blása lífi í fjölmiðlanefnd ef hún á ekki að fá að setja tillögur sínar fram fyrr en búið er að samþykkja það frv. sem liggur fyrir þinginu?

Þarna eru menn auðvitað að fara í alrangri röð að atburðarásinni. Menn eru að gera þetta í algjörlega öfugri röð. Og þegar þetta er síðan skoðað í samhengi við það sem má kalla fjórða þáttinn í þessu leikriti þá finnst manni að allt sé farið að bíta í skottið hvað á öðru í þessu frv. og málatilbúnaði.

Fjórði þátturinn felst í því, eins og hæstv. ráðherra lýsti rækilega áðan, að það á að skjóta gildistökunni á frest um þrjú ár og frv. á ekki að taka gildi fyrr en árið 2007. Þá hljóta menn að spyrja: Ef það er svo að það er í lagi að bíða í þrjú ár með gildistökuna hvers vegna í ósköpunum er þá ekki hægt að skoða málið betur og bíða eftir tillögum fjölmiðlanefndarinnar? Þetta er auðvitað alveg fáránleg röð á hlutunum. Það er auðvitað út í hött að samþykkja lög og láta fjölmiðlanefndina síðan setjast yfir það að búa til tillögur um hluti sem búið er að ákveða.

Ef hugur fylgdi máli, ef ríkisstjórninni væri það eftirsóknarvert að skapa frið og farsæla lausn mundi hún auðvitað bíða með frv. þangað til nefndin hefði lokið störfum, þangað til tillögur hennar hefðu komið fram og þá fyrst væri hægt að ljúka málinu í þinginu. En ríkisstjórnin hefur bara ekki áhuga á því, þetta er partur af leikritinu og þetta leikrit er sett upp til þess að jafna ágreining milli stjórnarflokkanna og til þess að bjarga andliti hæstv. forsrh. Hann hefur auðvitað af alkunnri virðingu gagnvart samstarfsflokknum knúið þetta í gegn því að málinu verður auðvitað að ljúka áður en hann fer úr Stjórnarráðinu.

Herra forseti. Hæstv. utanrrh. hafði hér langt mál og snjallt um það hvað það væri lýðræðislegt að skjóta gildistökunni með þessum hætti inn í framtíðina vegna þess að þá gæti almenningur í landinu kosið um það í næstu kosningum. Enginn getur sagt um það hvað verður kosið um eftir þrjú ár. Þarna er ríkisstjórnin einungis að reyna að fela málið, drepa því á dreif, fela það á bak við eitthvað annað og vonast hugsanlega til þess að atburðarásin sjái til þess að aðstæður verði breyttar og málið verði ekki jafnumdeilt þá og núna, hugsanlega vegna einhverra breytinga. En það skiptir þó ekki meginmáli. Það sem skiptir máli er að þetta er með engu móti hægt að kalla jafngilt því að þjóðin fái að segja álit sitt í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Í riti Gunnars G. Schrams segir, með leyfi forseta, á bls. 302 um stjórnskipun Íslands:

,,Þingrofi og almennum kosningum milli þinga sem málið hafa til meðferðar verður alls eigi jafnað til þjóðaratkvæðagreiðslu um gildi laganna.``

Byggt á Ólafi Jóhannessyni eins og fram hefur komið. Þarf þá frekari vitna við?

Hæstv. ráðherra ásamt kollega sínum í forustu ríkisstjórnarinnar hefur manna mest vísað til fjölmiðlanefndar og tilmæla Evrópuráðsins. En Evrópuráðið hefur líka fjallað um þjóðaratkvæðagreiðslur og framkvæmd þeirra og svokölluð Feneyjanefnd Evrópuráðsins hefur m.a. gefið út leiðbeinandi reglur um þetta. Þar segir að í kosningarréttinum felist rétturinn til að treysta því að þjóðaratkvæðagreiðslur sem kveðið er á um í lögum skuli framkvæmdar og innan þeirra tímamarka sem lög gera ráð fyrir. Segir það, herra forseti, ekki allt sem þyrfti helst að segja við hæstv. utanrrh. um þennan þátt tillagnanna? Ég held það.

Herra forseti. Frumvarp það sem hér er til umræðu er stjórnarfrv. Það hefur í orði kveðnu verið samþykkt á ríkisstjórnarfundum og í orði kveðnu hafa báðir þingflokkar stjórnarliðsins gefið heimild til að það komi inn í þingið. Ég leyfi mér hins vegar að efast um það, herra forseti, ef samviska manna og sálir hér í þingsalnum væru skoðaðar til hlítar að á Alþingi sé raunverulegur meirihlutastuðningur við frv.

Við vitum það öll sem störfum á Alþingi, og það vita það allir sem fylgjast með fjölmiðlum að hv. þm. Framsfl. hafa enga sannfæringu fyrir málinu. Framsóknarmenn um allt land hafa lýst vilja sínum upphátt og í hljóði, með greinum, í samtölum og í skoðanakönnunum, og þeir vilja að þjóðin hafi sinn lýðræðisrétt og hann sé í engu skertur, svo að vísað sé til frægra orða Eysteins Jónssonar, formanns stjórnarskrárnefndar 1944, síðar formanns Framsfl.

Hv. þm. Framsfl. hafa margsinnis sýnt það með þögn sinni í umræðu um málið á Alþingi, síðast á mánudag, að þeir hafa enga sannfæringu fyrir því offorsi sem þing og þjóð er beitt í þessu máli. Það er einfaldlega staðreynd sem við þekkjum flest að mikill meiri hluti framsóknarmanna um allt land skilur ekki atlögu hæstv. forsrh., sem forusta Framsfl. styður, að fyrirtækinu Norðurljósum. Og framsóknarmenn um allt land standa agndofa yfir síendurteknum árásum ráðherra Sjálfstfl. á forseta Íslands. Framsóknarmenn um allt land bera virðingu fyrir stjórnarskrá lýðveldisins og þeir vilja ekki að menn hafi hana að leiksoppi með brellum og brögðum. Og framsóknarmenn um allt land undrast að leiðtogar þeirra skuli nú ætla að gerast vikapiltar Sjálfstfl. til að taka frá landsmönnum þann rétt sem forseti Íslands færði þeim samkvæmt lýðveldisstjórnarskránni frá 1944.

Staðreyndin er sú að hv. þm. Framsfl. eru kúgaðir í málinu. Það er sú kúgun sem veldur því að Sjálfstfl. er í þessum sal á þessum sumardögum að þröngva fram vilja sínum í andstöðu við sannfæringu fjögurra annarra flokka, Samf., Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, Frjálsl. og Framsfl. Það þurfti ekki annað en sjá angistarsvip hæstv. landbrh., varaformanns Framsfl., þegar hann reyndi að verja málið fyrir tæpum tveimur sólarhringum í sjónvarpinu.

En Sjálfstfl. ræður ekki nema 22 þingmönnum af 63 í þinginu. Flokkurinn sjálfur er minnihlutaflokkur meðal þjóðarinnar. Samkvæmt eigin reikningsaðferðum um hlutfall af kjörskrá náði fylgi Sjálfstfl. í kosningunum í fyrra ekki einu sinni þriðjungi atkvæðisbærra manna. Og ég spyr: Eiga fulltrúar sem styðjast við minna en þriðjung kosningarbærra Íslendinga að fá að bera meiri hluta þingheims ofurliði og mikinn meiri hluta þjóðarinnar á kostnað lýðræðisins, á kostnað fjölmiðlunar í landinu, á kostnað kosningarréttarins og stjórnarskrárinnar, á kostnað virðingar Alþingis og á kostnað þess heiðurs sem okkur ber sem kjörnum fulltrúum þjóðarinnar að sýna embætti forseta Íslands?

Ábyrgð sjálfstæðisforustunnar er mikil en ábyrgð hv. þm. framsóknarmanna er engu minni. Og það er óhætt að fullyrða það, herra forseti, að forsætisráðherrastóll Halldórs Ásgrímssonar 15. september er þegar orðinn eitthvert dýrkeyptasta setgagn Íslandssögunnar.

Flokkar stjórnarandstöðunnar hafa frá upphafi staðið saman í málinu og þeir hafa beitt sér fyrir því að fundin yrði farsæl lausn á málinu sem um gæti skapast góður friður. Ítrekað hefur stjórnarandstaðan boðið upp á samstarf um farsælli og óumdeildari lausnir. Og eins og ég sagði áðan lýsti ég því hvernig formaður Framsfl. sat í stúkusæti þegar hann sá slegið af afli á sáttarhönd stjórnarandstöðunnar í fundinum í Stjórnarráðinu sem forsrh. sleit eftir 12 mínútur. Ég fullyrði það hér, herra forseti, að það hefði verið auðvelt að skapa góðan frið um fjölmiðlalögin og um takmarkanir og eftirlit með starfsemi auðhringa almennt séð ef forusta stjórnarflokkanna hefði hlustað á stjórnarandstöðuna, ef menn hefðu lagt eyrun við varnaðarorðum sérfræðinga um stjórnskipan landsins, ef ráðherrar hefðu tekið mark á fólkinu í flokkunum og ef hæstv. forsrh. hefði hlustað á þjóðina. En forusta Sjálfstfl. vildi þetta ekki, hún hefur aldrei viljað skapa góðan frið og breiða samstöðu um málið. Hún er í einhvers konar Sauðafellsför, hefndarleiðangri sem beinist ýmist að einu fyrirtæki eða forseta Íslands.

Stjórnarandstaðan vill það eitt að farið sé að fyrirmælum stjórnarskrárinnar án þess að menn hafi uppi refskap og brellur. Án þess væri friður en upp á það, herra forseti, er ekki boðið.