Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 07. júlí 2004, kl. 12:54:05 (9507)

2004-07-07 12:54:05# 130. lþ. 134.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, SKK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 130. lþ.

[12:54]

Sigurður Kári Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki á hverjum degi sem formaður stjórnmálaflokks svarar ekki þeim fyrirspurnum sem beint er til hans vegna þeirra efnisatriða sem fram hafa komið í ræðu hans um frumvörp. Það er með ólíkindum að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon geti ekki svarað fyrir sín eigin orð sem vitnað er til í þessum ræðustól.

Hv. þm. lýsti því yfir að frumvarpið sem við erum að ræða sé sama frumvarpið og lagt var fram og samþykkt fyrir nokkru síðan á hinu háa Alþingi. (JBjarn: Hárrétt hjá þér.) Hv. þm. sagði þegar það frumvarp var lagt fram og ríkisstjórnin lagði til að markaðsráðandi fyrirtæki mættu ekki eiga neitt í ljósvakamiðlum að hann væri andsnúinn þeirri reglu og hann lagði það beinlínis til að þeim yrði heimilað að eiga lágt hlutfall, sanngjarnt hlutfall í þessum fyrirtækjum. Hann segir, með leyfi forseta:

,,Hvað með að nota þar ákvæði laga um fjármálastofnanir, að þar séu mörkin dregin við virkan eignarhlut. Það mætti þess vegna nota sömu skilgreiningu og þar er, með leyfi forseta, þ.e. að ,,með virkum eignarhlut er átt við beina eða óbeina hlutdeild sem nemur 10% eða meira af eigin fé eða atkvæðisrétti eða aðra hlutdeild sem gerir kleift að hafa veruleg áhrif á stjórnun viðkomandi`` fyrirtæki.``

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, hefur gert mikið úr því að hann sé maður orða sinna, að hann sé málefnalegur stjórnmálamaður og að við megum trúa hans orðum eins og nýju neti. (JBjarn: Hárrétt.) Því spyr ég hv. þm. Steingrím J. Sigfússon: Getum við stjórnarliðar og ríkisstjórnin ekki treyst því í ljósi þeirra orða sem hann lét falla um mál sem hann telur að sé það nákvæmlega sama og nú er til umræðu, að hann styðji þá að minnsta kosti þetta efnisatriði frumvarpsins? Ég óska eftir svörum við þessari spurningu. (Gripið fram í.)