Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 07. júlí 2004, kl. 13:59:29 (9509)

2004-07-07 13:59:29# 130. lþ. 134.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, GAK
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 130. lþ.

[13:59]

Guðjón A. Kristjánsson:

Hæstv. forseti. Til þessa þings var sérstaklega boðað með forsetabréfi. Erindið var að ræða tilhögun þeirrar atkvæðagreiðslu sem fram skyldi fara. Formenn stjórnarandstöðuflokkanna fóru á fund forsrh. Við höfðum óskað eftir þeim fundi. Þar var rætt um hvernig á þessum málum skyldi tekið í framhaldi af þeirri ákvörðun forseta Íslands að vísa málinu til þjóðaratkvæðagreiðslu, þ.e. hinu umdeilda fjölmiðlamáli.

Á fundinum náðist þó sú niðurstaða að hér skyldi boðað til þings 5. júlí og síðan yrði fjallað um framkvæmd atkvæðagreiðslunnar og önnur mál yrðu ekki tekin fyrir. Fundurinn var að vísu stuttur. Honum var slitið af hálfu forsrh. Ef ég man rétt þá orðaði hæstv. forsrh. það svo að það hefðu verið einhver hegðunarvandamál hjá forustumönnum stjórnarandstöðunnar. Látum það nú liggja á milli hluta.

Hitt tel ég algjörlega ljóst sem birst hefur í erindisbréfi frá forsrn. þegar sett var á fót nefnd til að fara yfir þetta mál, að nefndin skyldi vinna að því að skoða tilhögun þjóðaratkvæðagreiðslu sem fram ætti að fara í framhaldi af ákvörðun forseta Íslands.

Forsetabréfið um að Alþingi skuli koma saman til framhaldsfunda er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Forsætisráðherra hefir tjáð mér að nauðsyn beri til að kveðja Alþingi saman til að fjalla um tilhögun atkvæðagreiðslu þeirrar sem ákveðið hefur verið að fram skuli fara, um frambúðargildi laga um breytingu á útvarpslögum, nr. 53/2000, og samkeppnislögum, nr. 8/1993, sem samþykkt voru á stjórnskipulegan hátt frá Alþingi hinn 24. maí sl.

Fyrir því hefi ég ákveðið, samkvæmt tillögu forsætisráðherra, að Alþingi skuli koma saman til framhaldsfunda mánudaginn 5. júlí ...``

Skýrara gæti þetta ekki verið, hæstv. forseti. En málin tóku þá stefnu, þar sem ríkisstjórnarflokkarnir náðu ekki saman þeim girðingum sem þeir leituðu að, að fara algjörlega út úr þessu fari og brjóta það samkomulag sem þó hafði komist á milli stjórnarandstöðu og ríkisstjórnarflokkanna um tilhögun þessa þings. Hér stóð eingöngu til að rætt skyldi um framgang kosninga, þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta umdeilda mál. Ríkisstjórnin tekur sér hins vegar fyrir hendur að leggja málið upp með þeim hætti sem við höfum rætt um í dag, að leggja til að lögin verði felld úr gildi en leggja jafnframt til annað frv. nákvæmlega eins fyrir utan breytingar á tveimur atriðum.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fór yfir það í ræðu sinni og las upp texta, úr lögunum annars vegar og hins vegar frv. sem hér liggur fyrir. Þar er nákvæmlega sama orðalagið á heilli málsgrein í lögunum og síðan í frv.

Hæstv. forseti þingsins, Halldór Blöndal, úrskurðaði í morgun að þetta mál væri þingtækt. Ég er honum algjörlega ósammála um það. Ég tel meira en lítið vafasamt að taka málið inn með þeim hætti sem hér er lagt upp með. Ég sé ekki hvernig við munum komast út úr því í framtíðinni ef vinna á eftir þessum úrskurði hæstv. forseta þingsins, ef það nægir einfaldlega að taka frumvörp sem búið er að fella, því að ég geri ráð fyrir því að stjórnarmeirihlutinn muni ná því fram að fella mál, þá sé nægjanlegt að breyta aðeins örfáum orðum og koma með málið aftur inn í sama búningi.

Hæstv. utanrrh. vísaði til grg. sem fylgdi frv. sem var síðan gert að lögum. Það er einnig gert í frv. sem er hér til umræðu. Ég verð þó að segja eins og er, hæstv. forseti, að mér finnst fjölmiðlamálið ekki lengur meginmálið í umræðunni. Það sem mér finnst orðið meginmálið í þessari málsmeðferð allri er að það hefur verið tekin ákvörðun um það af forustumönnum ríkisstjórnarinnar, með samþykki allra ráðherranna og þingmanna í ríkisstjórnarflokkunum, að fara fram með þeim hætti að þjóðin fái ekki að fylgja eftir þeim rétti sem henni er markaður í 26. gr. stjórnarskrárinnar þegar forseti hefur vísað máli til þjóðarinnar. En þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Nú synjar forseti lagafrumvarpi staðfestingar, og fær það þó engu að síður lagagildi, en leggja skal það þá svo fljótt sem kostur er undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar með leynilegri atkvæðagreiðslu.``

Eftir því sem maður les þennan texta oftar, ég tala nú ekki um eftir að maður fer nú að glugga í hin gömlu þingtíðindi og það sem sagt var þegar þessi ákvæði voru ákveðin í stjórnarskrá þá sér maður sífellt betur að um einboðið lagaboð er að ræða. Ég spyr: Höfum við á hv. Alþingi þann rétt að taka af þegnum þjóðarinnar réttinn til að kjósa um mál sem forsetinn hefur tekið ákvörðun um að vísa til þjóðarinnar til staðfestingar? Getum við tekið málið til baka með því að fella lögin úr gildi? Höfum við vald til þess miðað við stjórnarskrána og texta hennar?

Þetta finnst mér mesta álitamálið eins og það er vaxið í dag. Það sem snýr að fólkinu í landinu er spurningin: Getur þingið, þegar mál hefur verið tekið til meðferðar á þingi, verið samþykkt af meiri hluta þingsins og málinu vísað til forseta til staðfestingar og hann neitað að undirskrifa lögin og óskað að málið gangi til þjóðarinnar til staðfestingar, tekið þann möguleika frá þjóðinni og komið í veg fyrir að hún fái að segja sína meiningu um einstök mál? Ég dreg það í efa, virðulegi forseti.

Mér finnst 26. gr. ákaflega skýr og skýrari eftir því sem maður les hana oftar. Ég get ekki, eftir að hafa gluggað í þær ræður sem fluttar voru þegar stjórnarskráin var lögð fram, komið auga á að menn hafi gert stjórnarskrána, m.a. þessi ákvæði, í fljótræði eða í einhverju tímahraki, eins og hæstv. utanrrh. nefndi í ræðu sinni. Ég fæ ekki þann skilning inn í mitt höfuð þegar ég les yfir það sem ritað er í þingtíðindin.

Með leyfi hæstv. forseta vil ég lesa hér úr þingtíðindum frá 1944. Ég vitna þar til eru ummæla og ræðu Brynjólfs Bjarnasonar, framsögumanns fyrir áliti stjórnarskrárnefndar.

Þar segir, með leyfi forseta:

,,Ég álít að svo framarlega sem þetta væri álitið aðeins form, að forseti eigi að staðfesta lög, þá væri forsetinn alveg þýðingarlaus og þá ætti forsetinn enginn að vera, því að þá þyrfti alls engin staðfesting forseta að koma til. Þá gæti forsrh. alveg eins komið fram sem æðsti maður þjóðarinnar og undirskrifað lög frá Alþingi. En ég hugsa mér þetta ekki þannig, að undirskrift forseta sé aðeins form, heldur sem raunverulegt vald. --- En vald í höndum hvers? --- Það er næsta spurningin. Ég hugsa mér þetta sem vald í höndum þjóðarinnar, þannig að það, sem við erum að gera þegar við setjum þetta inn í stjórnarskrá, að lög þurfi staðfestingu forseta, sé það, að við gefum umboðsmanni þjóðarinnar rétt til þess að skjóta málum undir úrskurð þjóðarinnar og afgreiðslu. Og frá þessu sjónarmiði er ekki til annað rökréttara fyrirkomulag en það, sem stjórnarskrárnefnd leggur til, sem sé að lög, sem Alþingi samþykki, séu í gildi þangað til úr því hefur verið skorið við þjóðaratkvæðagreiðslu hvort þau skuli vera í gildi, --- ef forseti hefur synjað um staðfestingu, --- og þau séu þannig afgreidd frá þeim eina dómstóli, sem er viðurkenndur í þeim efnum, dómstóli þjóðarinnar. Ef Alþingi hefur notað umboð sitt, sem það hefur fengið hjá þjóðinni, á annan veg en þjóðin hefur ætlast til, þá kemur það í ljós við þá atkvæðagreiðslu. Og frá því sjónarmiði, sem fyrir mér vakir og ég hygg, að vaki líka fyrir meiri hluta stjórnarskrárnefndar, væri það algjörlega órökrétt, ef sá háttur væri hafður á, sem hæstv. forsrh. leggur til í þessu efni. Og þar sem ég tel, að þetta fyrirkomulag hafi raunverulega praktískt gildi, þá þykir mér það hafa mjög mikla þýðingu hvað samþykkt verður á Alþingi í þessu efni.``

Ég tel að þessi tilvitnun í ummæli Brynjólfs Bjarnasonar sýni að mönnum var algjörlega ljóst hvaða texta þeir voru að setja í lögin og að menn væru að auka vald forsetans með því að setja þessi ákvæði í stjórnarskrána, að forsetinn gæti notað þennan málskotsrétt til þjóðarinnar. Ég dreg þess vegna mjög í efa möguleika okkar á hv. Alþingi til að breyta lögum sem komin eru í þetta ferli. Eins og segir í 26. greininni skal vísa þeim til þjóðarinnar.

Til frekari staðfestingar má, með leyfi hæstv. forseta, vitna í Magnús Jónsson frá Sjálfstfl. Hann sagði m.a., undir þessari umræðu:

,,Hér er aðeins um það að velja, hvort þingið vill efla dálítið vald forsetans eða draga úr því. --- Ef maður færi í þessu sambandi að tala um, hvað væri ,,hugsunarrétt``, þá gæti maður náttúrlega sagt, að forsetinn, þessi eini þjóðfélagsþegn, sem valinn er í þessa stöðu, hann hafi í sjálfu sér enga lýðræðislega aðstöðu til þess að vera svo mikill aðili að löggjöf. En hann hefur þessa aðstöðu aðeins í krafti þess, að hann sé réttari fulltrúi þjóðarviljans en Alþingi. Hann hefur rétt til þess að skjóta því undir atkvæði þjóðarinnar, hver er sá rétti þjóðarvilji í ákveðnu máli. Og á þá vilji hans ekki að ráða fyrr en atkvæðagreiðsla hefur sýnt, hvort hann er sá rétti fulltrúi þjóðarviljans. Fulltrúar þjóðarinnar á Alþingi eiga að ráða fyrst um sinn og forseti á að hafa rétt til þess að spyrja þjóðina um hvort hann sé ekki raunverulegri og réttari fulltrúi þjóðarviljans, og úr því verður ekki skorið fyrr en þjóðin samþykkir það í hverju tilfelli að hann sé það.``

[14:15]

Ég held að það sé meira en lítið vafasamt þegar forustumenn ríkisstjórnarinnar fara nú í algjörlega nýja söguskýringu því ég held að það hafi ekki verið í tímahraki og ekki að óhugsuðu máli að stjórnarskráin er eins úr garði gerð og hún er. Menn geta auðvitað lagst í það að fara að ræða um 5% eða 10% í fjölmiðlafrv. en það er bara miklu minna mál en það hvort við tökum þann rétt af þjóðinni sem henni hefur verið markaður í stjórnarskrá. Því mun ég ræða málið fyrst og fremst út frá því sjónarmiði að þjóðin eigi þennan rétt og hann verði ekki af henni tekinn. Hinir lögfróðu ungu menn í Sjálfstfl. geta svo farið í einhverjar allt aðrar pælingar ef þeir vilja.

Mér finnst, hæstv. forseti, að það sé verið að reyna á þol þjóðarinnar, það sé markvisst verið að þreyta þjóðina, þreyta fólkið í landinu með þeim málatilbúnaði sem ríkisstjórnin hefur lagt upp með í hinu svokallaða fjölmiðlamáli. Við skulum ekki gleyma því að það er fimmta sannfæring ríkisstjórnarinnar sem komin er inn í það frv. sem nú á leggja fram og taka við rétt eftir að hið fyrra hefur verið fellt úr gildi sem er sama frv. Og alltaf var málið að batna allan tímann sem verið var að vinna það í þinginu og alltaf varð það betra og betra, og alltaf voru menn öruggari um sig að það stæðist stjórnarskrána. Alltaf leið mönnum betur og betur í ríkisstjórninni.

Þeim leið samt ekki betur en svo að þeir náðu ekki saman um það hvernig ætti að framkvæma málið þegar forsetinn hafði tekið þá ákvörðun að vísa því til þjóðarinnar, sem forsetinn byggir á valdi sínu samkvæmt stjórnarskránni og valdið er hans eins. Það er algjörlega rétt skýring að mínu viti að forsetinn einn verður að taka þá ákvörðun í einstaka máli hvort hann vilji vísa því í þjóðaratkvæðagreiðslu og láta þjóðina dæma í því. Það sýnir auðvitað, þó að forsetar sem áður hafa setið hafi nokkrum sinnum lýst því yfir að þeir hafi hugleitt að beita þessum rétti þá hefur það ekki verið gert fyrr en nú, að menn beita ekki þeim rétti nema að vandlega íhuguðu máli og þá aðeins þegar mönnum finnst að það sé verið að vega að ákveðnum atriðum eins og t.d. því sem mikið var rætt hér hvað varðar prentfrelsi og annað slíkt sem snertir stjórnarskrána.

Mér finnst ekki þurfa að óttast það mjög, eins og mér fannst gæta talvert í máli hæstv. fjmrh. áðan, að þetta ákvæði sé vandræðaákvæði. Það hefur ekki verið það í 60 ára sögu lýðveldisins þó að við stöndum frammi fyrir því núna að því hafi verið beitt í mjög umdeildu máli. Ég hygg að þjóðinni finnist það mjög miður ef hún fær ekki að segja meiningu sína í því einstaka máli og ég skil ekki, hæstv. forseti, hvers vegna við hræðumst það á Íslandi að leyfa þjóðinni að taka afstöðu til einstakra mála.

Nú segja forustumenn ríkisstjórnarinnar að þeir vilji draga þetta mál fram yfir næstu kosningar svo að þjóðin fái m.a. að fjalla um það í kosningum. Þá spyr ég eina ferðina enn, hæstv. forseti, eins og ég gerði margsinnis í vor: Hvað lá á? Hvað var að fara á hliðina í þjóðfélaginu? Nú boða menn að þessi lög eigi að taka gildi eftir þrjú ár. Sú röksemd hæstv. fjmrh. að ríkisstjórnin vilji halda stefnu sinni og mönnum eigi að vera ljóst að það sé einhver stefna í gangi og eigi að geta treyst því og þurfi að vita það og það sé nauðsynlegt að festa sé í þjóðfélaginu heldur ekki vatni því að í hinu orðinu segir hæstv. fjmrh. --- ég held að ég hafi lesið það í Morgunblaðinu og heyrt eitthvað af því áðan --- að það liggi auðvitað ljóst fyrir að menn geti breytt þessu ákvæði á vorþingi 2007 því að þá skuli kalla þing saman innan tíu vikna frá því að kosið er.

Þá má auðvitað spyrja: Hver er þá festan í þessu sem menn eiga að búa við, hver er vissan sem menn eiga að búa við ef þetta eru rökin sitt á hvað, annars vegar einhver stefna sem alls ekkert er vitað hvort verður til staðar 2007, eða vonandi horfin fyrr, og hins vegar einhver möguleiki á að breyta lögunum strax að loknum alþingiskosningum 2007? Mér finnst þetta ekki vera boðleg rök í málinu.

Það hefði mátt velta því fyrir sér í öllum þessum málatilbúnaði, sem reyndar var boðið upp á strax í nóvember, að vinna málið saman með stjórnarandstöðunni, klára það og reyna að ná fram einhverri sátt í því. En þegar málið er hins vegar komið í þann búning sem það er núna, að það snýst um það hvort þjóðin fái að halda sínum löglega rétti samkvæmt stjórnarskrá eða ekki, þá skulum við ekkert vera að velta okkur upp úr því hvort menn breyta einu orði hér eða tveimur orðum þar í fjölmiðlafrv. Það er ekki orðið meginatriði í þessu máli. Meginatriðið er hvort við virðum rétt þjóðarinnar til að taka afstöðu í málinu úr því að forsetinn, sem einn hafði vald til þess, kaus að vísa því til þjóðarinnar.

Mér finnst ömurlegt, hæstv. forseti, að það skuli vera takmark ríkisstjórnarflokkanna að leita sérstaklega eftir því að komast fram hjá því að þjóðin fái að kjósa, afstýra því, eins og ég held að hæstv. fjmrh. hafi sagt, að þjóðin fái að kjósa. Það mætti halda að hér byggi bara fólk sem þyldi alls ekki að taka þátt í kosningu. Ég fæ alls ekki skilið, hæstv. forseti, hvers vegna íslenskt þjóðfélag má ekki þróast í þá lýðræðisátt að við tökum annað slagið fyrir ákveðin mál og kjósum um þau. Hvað er að því? Hvers vegna sitjum við uppi með stjórnmálaflokka sem vilja koma í veg fyrir að þjóðin fái annað slagið að segja meiningu sína í ákveðnum málum í lýðræðislegum kosningum?

Mér finnst ríkisstjórnarflokkarnir hafa valið sér ömurlegt hlutskipti, vægast sagt. Það liggur við að ég vorkenni þeim hvernig málum er komið. Það er í raun og veru ömurlegt að forsrh. skuli ætla að enda feril sinn á því, jafnágætur maður og hann er að mörgu leyti, að fara með málið fram með þessum hætti. Það verður að segjast alveg eins og er. Hér er verið að leggja fram sama frv. og við eigum að fara að rökræða það.

Stjórnarandstaðan vann sína vinnu. Hún gekk til þess leiks með því að vinna að frv. um hvernig framkvæma mætti þjóðaratkvæðagreiðslu á sem einfaldastan og öruggastan hátt án þess að vera að leita að girðingum fram og til baka, að sú þjóðaratkvæðagreiðsla yrði framkvæmd á sama hátt og gert hefur verið árum og áratugum saman, að meiri hluti manna sem greiðir ákveðinni niðurstöðu atkvæði sitt fái ráðið niðurstöðunni. Það er bara hin venjulega regla. Í langflestum eða öllum félögum er það hin venjulega regla að meiri hluti manna sem greiðir atkvæði ræður niðurstöðunni. Það er mjög sjaldan sem krafist er aukins meiri hluta til að breyta því. Þetta er hin almenna regla.

Nú erum við mætt til sumarþings og okkur er ætlað að setja ný fjölmiðlalög, ætlað að fara í sama verkið og við eyddum í 20 dögum þar sem fjölmiðlafrv. og fjölmiðlamálið fékk algeran forgang á önnur mál. Menn mæla fyrir nýju frv. sem þeir telja að sé þannig úr garði gert að það megi taka fyrir en vitna síðan í greinargerðir og eru með nánast óbreytta texta í hinu nýja frv. Ég verð að segja alveg eins og er að ef menn ætla sér að fara þá leið sem lagt er upp með eru menn enn á ný að velja ófriðinn.

Ég sagði áðan, hæstv. forseti, að ég drægi mjög í efa að þinginu væri heimilt að fara inn í það ferli sem við erum komin af stað með. Þjóðin á þennan rétt samkvæmt stjórnarskránni. Ég held að það sé meginmál að ræða það eins og málum er nú komið en ekki það hvort við breytum einhverjum orðum í lögum sem eru mjög umdeild. Við munum auðvitað fá tækifæri til þess að fjalla um málið í allshn. og fara þar yfir hin ýmsu rök. Við í stjórnarandstöðunni teljum að hér eigi að afgreiða lög, einföld lög um hvernig framkvæma eigi þjóðaratkvæðagreiðslu, taka afstöðu til málsins. Það eigi að vera niðurstaðan en ekki eitthvert sýndarfrumvarp sem er nánast eins og hið fyrra.

Ég tel, hæstv. forseti, að meðan ekki hefur verið skorið úr því með lögformlegum hætti að bestu manna yfirsýn, og þá er ég að tala um að það verði skoðað í allshn., hver réttur okkar er samkvæmt stjórnarskránni varðandi þjóðaratkvæðagreiðsluna að þá verði ekki farið lengra í því að skoða pakka ríkisstjórnarinnar varðandi fjölmiðlalögin. Það hlýtur að verða krafa okkar í stjórnarandstöðunni að fara yfir það hvort yfirleitt er hægt að fara í málið með þeim hætti sem hér er lagt upp með. Ég held að það sé rétt á meðan sú óvissa er óútkljáð að beina ekki sjónarhorninu á mikið annað í bili.